Upp og niður

uppkosningÞað birtist nýyrði á forsíðu Fréttablaðsins í dag: UPPKOSNING. Í fávisku minni þá kannast ég ekkert við orðið, skildi hvorki upp né niður!  

En sem betur fer fylgdi skýring frá blaðamanninum bþs: „að kosið yrði á ný“. Hann var sem sagt að tala um endurkosningu vegna stjórnlagaþings.

Ef það fer fram „uppkosning“ þá hlýtur að fara fram upptalning á atkvæðunum. Allavega er reynslan sú að það sem fer upp kemur að lokum niður. Í „uppkosningu“ kemur þá væntanlega niðurstaða eftir „niðurtalningu“. Eða þannig. 


Gleymum ekki stjórnlagaþinginu!

GrisinnÞjóðaratkvæðagreiðslur eru nýjung fyrir Íslendinga.

Hægri öflin í stjórnmálunum og ýmsir hagsmunaaðilar hafa í 60 ár þvælst fyrir breytingum á stjórnarskránni og þar með hindrað beinni þátttöku almennings í lýðræðislegum ákvarðanatökum.

Af málflutningi frambjóðenda til stjórnlagaþingsins var augljóst að mikill meirihluti þeirra var fylgjandi stjórnarskrárbreytingum sem veita þjóðinni fleiri tækifæri til að setja sitt mark á stjórn landsins en hið klassíska rölt á kjörstað á fjögurra ára fresti býður uppá.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur nú að eigin frumkvæði  gripið eina ferðina enn til réttinda forsetans skv. stjórnarskránni og fært þjóðinni í hendur tækifæri til að hafa mikil áhrif á þróun mála. Hann geriri það að vísu án tillits til þess að augljóslega eru ekki öll málefni jafn vel fallin til almennrar atkvæðagreiðslu og einnig án tillits til mögulegra áhrifa á hag þjóðarbúsins verði úrslit atkvæðagreiðslunnar um Icesave eitt stórt fokkjú merki framan í umheiminn.

En aðgerðir Ólafs Ragnars gera það að verkum að ekki verður aftur snúið sem betur fer. Héðan í frá verður það valkostur fyrir hluta þjóðarinnar og þingsins að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um stór og umdeild mál sem er í raun ekki hægt að útkljá öðruvísi með góðu móti. Þetta verður að sjálfsögðu að afloknum breytingum á stjórnarskránni sem verða örugglega á dagskrá á næstu misserum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með tilburði til að draga stjórnarskrármálið aftur inn í þingið þótt það hafi reynst ófært um að breyta plagginu í nútímalegra horf áratugum saman. Breytingar sem hafa verið samþykktar er bútasaumur og aðlögun að nútímanum í nokkrum atriðum. Ýmis afturhaldsöfl hafa unnið gegn stjórnlagaþinginu sbr. kærur til Hæstaréttar og það hefur horfið í skuggann af Icesave málinu. 

En það má ekki gerast að þjóðin missi réttinn til breytinga. Hvort það er framkvæmalegt að hafa stjórnlagaþings kosninguna samtímis þjóðaratkvæðagreiðslunni á eftir að koma í ljós. En stjórnlagaþingið verður að halda - það er besta leiðin til að þróa betra lýðræði á Íslandi. Og á því þarf þessi þjóð að halda.


Þjóðin á leik í skrítnu tafli

skákÞað fer að verða áleitin hugsun að það hefði verið best fyrir þjóðina að fyrsta útgáfa Icesave hefði farið í gegn og málið frágengið.

Vissulega hefði greiðslubyrðin verið þung og áhættan mikil en kanski ekki í samanburði við það sem nú getur orðið ef allt fer á versta veg.

Nú er „þjóðin með löggjafarvaldið“ eins og forsetinn túlkar málið og þjóðin virðist að stórum hluta vera á bandi mannsins sem sagði „við borgum ekki skuldir óreiðumanna“. Óreiðumennirnir voru að vísu margir meðal bestu vina þessa manns og sjálfur skildi hann eftir óreiðuskuldir sem þjóðin borgar.

Nú er eina vonin sú að þjóðin sjái að vitleysunni verður að ljúka. En vonin er veik.


Forsetinn gerir áreiðanleikakönnun

ORG2

Það kom fram hjá Ólafi Ragnari að hann lagðist í  hringingar til að kanna áreiðanleik undirskriftanna sem hann fékk afhentar.  Hann hringdi í fleiri en 100 en vildi ekki gefa upp heildarfjöldann. Ólafur Ragnar var mjög stoltur yfir því að hann náði 99% viðurkenningu undirskrifenda  en aðstandendur könnunarinnar 93%. Það verður að teljast fáránlegt að embætti  forseta Íslands taki við undirskriftasöfnun sem er svo illa úr garði gerð að  hann treystir henni ekki og leggst í vinnu til að kanna hvort svindl sé í gangii.

Það virðist sem að forsetinn hafa notað þessa  undirskriftasöfnun sem eina af undirstöðunum fyrir ákvörðun sinni um  þjóðaratkvæðagreiðslu. Varla hefði hann farið í að hringja í fjölda fólks  og spyrja hvort listinn stæðist nema að hann legði hana til grundvallarákvörðun sinni.

Þessi undirskriftasöfnun var leynilega skv. ákvörðun  aðstandenda. Það er í sjálfu sér fáránlegt. Ýmsum möguleikum til þess að gera hana áreiðanlegri  var sleppt.

Það sem var athugavert við söfnunina var m.a.:

Enginn gat kannað hvort nafn hans hafi verið misnotað.

Menn gátu dælt inn kennitölum og nöfnum annarra aðvild.

Ekki var notast við staðfestingakerfi með tölvupóstum.

Ekki var sett takmörkun á það hversu margir gætu notað  sömu ip-tölu.

Samanburður á nöfnum og kennitölum gerði ekkert til að  sanna hvort nöfn manna væru á listanum á réttum forsendum og hringingar í takmarkaðan  fjölda nafna var reddingartilraun vegna þess að menn sáu að þeir voru á hálum  ís.

Svo ber að athuga að undirskriftasöfnunin snérist um  fleira en þjóðaratkvæði. Í textanum sem menn undirrituðu stendur. „Ég skora á Alþingi að  hafna frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Ég heiti  jafnframt á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja því  lagafrumvarpi staðfestingar, verði það samþykkt á Alþingi. Ég vil að þjóðin fái  að úrskurða um þetta mál.“

Frumatriði textans er áskorun til Alþingis um að hafna  frumvarpinu. Og samkvæmt yfirlýsingu Frosta Sigurjónssonar eru aðstanendur allrahanda fólk með mismunandi skoðanir á  því hvað gera skuli við frumvarpið um Icesave. Hann sagði í útvarpsfréttum aðaðalatriðið væri beiðnin um þjóðaratkvæði. En það er samt seinna atriðið í  textanum.

Ekki hafa borist fréttir af því að listinn með  kröfunni til Alþingis hafi verið afhentur forseta þingsins.

Hér er því ekki bara tæknilega vanburðug  undirskriftasöfnun á ferðinni - hún er einnig ruglingsleg í framsetningu.

Nú er svo komið að málið fer í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Ég er að sumu leyti ánægður með það og vona að æsingur og óðagot lúti lægra  haldi hjá þjóðinni og að samningurinn verði samþykktur með góðum meirihluta.

Allt málið sýnir svart á hvítu að það er mjög  aðkallandi að semja nýja stjórnarskrá með ákvæðum um þjóðaratkvæði sem gera  þjóðinni mögulegt að krefjast þeirra með viðurkenndum hætti - en ekki með fúski  í undirskriftasöfnunum og forseta á vinsældaveiðum.  


Forsetinn mun undirrita

Bessast.Þrátt fyrir smekklausa áeggjan Hrafns Gunnlaugssonar mun forseti Íslands tilkynna á næstu dögum að hann hafi ákveðið að undirrita nýsamþykkt lög frá Alþingi um afgreiðslu Icesave málsins.

Ég fæ ekki séð að hann geti, jafnvel þótt hann langaði til, neitað að undirrita og skjóta þar með málinu í þjóðarinnar.

Í fyrsta lagi tel ég að hann geti ekki horft framhjá vilja þingsins. Aðeins 16 af 63 þingmönnum voru á móti. Þingmenn eru allir kjörnir með lýðræðislegum og löglegum hætti og því er það þjóðin sem ber ábyrgð á þinginu eins og það er samsett.

Í öðru lagi eru undirskriftasafnanir og skoðanakannanir ekki þær leiðir sem landinu er stjórnað eftir - það eru þingskosningar sem gilda.

Undirskriftasöfnunin sem nú hefur veið afhent forsetanum um er stórgölluð og hefði forsetinn ekki átt að taka við henni. Hvað þá að láta hana hafa einhver áhrif á afgreiðslu málsins.Undirskriftasögnunin er án allra tæknilegra varnagla sem auðvelt er að viðhafa. Það er auðvelt að setja inn nöfn annarra og rannsókn á „gæðum“ listanna er yfirklór.Að hringja í 100 manns og ná í 69 er ótækt. Að bera saman nöfn og kennitölur segir ekkert um það hvort fólk hafi sjálft skrifað undir eður ei.

Þjóðaratkvæðagreiðslur er nýjung fyrir Íslendinga - þökk sé Sjálfstæðisflokknum sem hefur lengi lagst gegn endurbótum á lýðræðinu. Síðast beittu þingmenn hans málþófi til að hindra lagabætur á þessu sviði.  Nú þykjast þeir vilja þjóðaratkvæðagreiðslur - og afhjúpa pólitískan hráskinnaleik sinn.  Þetta veit forsetinn og því ritar hann undir nýju lögin.


60% sátu heima

KosningÞátttaka í kosningunum um til stjórnlagaþings er skv. nýjustu fréttum um 40%. Umboð fulltrúanna á þinginu er því ekki eins sterkt og ég hafði vonað.

Hver er ástæða þess að svo stór hluti þjóðarinnar kýs að sitja heima þegar stórfelld tilraun er gerð til þess að efla lýðræði í landinu?

Ein skýring getur verið að þar sem aðeins 11% treysta Alþingi og það vita allir að Alþingi mun hafa síðasta orðið um stórnarskrána sem þjóðin kýs um að lokum. En ef þessi hugsun hefur stýrt heimasetu margra þá er það vanhugsuð aðgerð. Því að minni kosningaþátttaka styrkir stöðu Alþingis til þess að krukka í texta stjórnlagaþingsins. 

Margir andstæðingar ríkisstjórnarinnar gleðjast sbr. skrif Jón Baldurs L O'range á bloggi sínu: „En þessi slaka kosningaþátttaka segir okkur bara eitt. Stjórnlagaþingiðer flipp. Milljónum kastað á glæ í súralísku leikriti ríkisstjórnarinnartil að fela nekt sína. Nú stendur hún þarna nakin eins og keisarinn forðum“.

Framundan er, hvort sem mönnum líkar eður ei, stjórnlagaþing þar sem fulltrúar þjóðarinnar setjast niður og reyna að gera það sem Alþingi hefur mistekist að ljúka í 60 ár: að skapa nútímalega stjórnarskrá fyrir þjóð sem þarf á því að halda.


Kynning á frambjóðanda

Ég var í frambjóðendaviðtali hjá RÚV. Það voru lagðar fyrir okkur tvær spurningar og hér eru mín svör.

Þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins núna?- Hverju helst?

Stjórnarskrá á að vera eins einföld og aðgengilegt og mögulegt er.Núverandi stjórnarskrá uppfyllir ekki þau skilyrði.Ég legg áherslu á nokkur lykilatriði.

Mannréttindi er að búa við frelsi - og jafnrétti er leiðin til þess að búa öllum frelsi. En frelsinu fylgja bæði réttindi og mikil ábyrgð. Mannréttindakaflinn er aftasti kaflinn í núverandi stjórnarskrá. Ég vil setja hann fremst og skerpa áherslu á réttindi minnihlutahópa s.s. fatlaðra og „hinseigins fólks“ m.a. homma og lespía.Jafnrétti er undirstaða í þeirri ætlun okkar að búa saman í landinu við bestu skilyrði sem við getum búið okkur.

Lýðræðið er hluti frelsisins og byggir á jafnrétti. Þjóðin hefur nú upplifað ögurstund og það er leiðin út úr hremmingunum að efla lýðræðið. Þjóðin hefur klofnað í mikilvægum málum, hermálið, virkjanir og stóriðja og nú ESB. Aukinn réttur þjóðarinnar til að ganga til atkvæðagreiðslu um slík mál er liður í betra lýðræði. Þetta er vandmeðfarið og má ekki verða lýðskrumi að bráð, Hver einasta þjóðaratkvæðagreiðsla verður að koma í kjölfarið á upplýstri umræðu um mikilvæg mál.Þingræðið er hornsteinn okkar stjórnskipulags og það verður að efla umgjörð þingsins. Ýmsar lagfæringar koma til greina, kjördæmaskipan, skýrari aðgreining framkvæmdavalds og löggjafarvalds.

Náttúruvernd snýst um réttindi afkomenda okkar sem nú byggjum þetta land og rétt okkar núlifandi til þess að nýta með sjálfbærum hætti auðlindirnar. Náttúruauðlindirnar verða því að vera í skilyrðislausri þjóðareign – það verður stjórnarskráin að staðfesta.

Fleiri mál get ég nefnt, t.d. að staða íslenskunnar sé tryggð í stjórnarskránni.

Af hverju gefur þú kost á þér?

Alþingi hefur mistekist að gera grundvallarbreytingar á stjórnarskránni í 60 ár.Eftir hrunið þá fór ég að hugsa meira um þjóðmálin og ástand þjóðarinnar. Ég var strax viss um að endurskoðun á stjórnarskrá gæti verið liður í að mennta og þroska þjóðina. Og ég tel mig ágætlega í stakk búinn til þess að nýta reynslu mína í þágu þessa verkefnis.

Ein hugmynd sem ég vil fylgja eftir nái ég kjöri er að senda afrakstur stjórnlagaþingsins til umræðu meðal þjóðarinnar um leið og hún fer til þingsins. Það felur í sér að á hvreju heimil, í hverri skólastofu og á hverjum vinnustað ræða menn opið og heiðarlega um þær breytingar sem stjórnlagaþingið leggur fram. Ég vil taka þátt í að breyta stjórnarskránni svo að hún verði aðgengilegri og að menn geri sér betur grein fyrir réttindum sínum og skyldum og beri meiri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.


Ný stjórnarskrá - nokkrar hugmyndir

Núverandi stjórnarskrá skiptist í 7 kafla og er að stórum hluta útlistun á embætti forsetans og gangvirki Alþingis, dómstóla og ýmissa skipulagsmála ríkisins.Mannréttindakaflinn, mikilvægasti hluti þessa plaggs, er í síðasta kaflanum.

Ég vil gjörbreyta þessu og setja þann kafla fremst. Stjórnarskrá sem byrjar á langri útlistun á embætti forsetans er ekki samin með nútíma þjóðfélag í huga. Hún er óaðgengileg og torlesin. Hún er tæknilega kórrétt en er ekki fallin til þess að kveikja vitund einstaklingsins sem les hana, um þjóðfélagið og stöðu sína í því.

Í upphafi núverandi mannréttindakafla segir:  „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Ég tel að í upphafi sé rétt að nefna til leiks landið þar sem þessi stjórnarskrá gildir og síðan fólkið sem á þessa sameiginlegu stefnuskrá.

T.d.: Ísland er land jafnaðar, velferðar og lýðræðis. Hér skal hver einstaklingur njóta jafnréttis, virðingar og mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.  Hver einstaklingur skal njóta frelsis til þroska og athafna sem ekki brýtur gegn sömu réttindum annarra og gegn reglum samfélagsins.

Önnur atriði sem ég tel mikilvæg og mun fjalla um síðar eru:

Stjórnarskráin tryggi öllum réttinn til menntunar og velferðar.

Þjóðaratkvæðagreiðslur. Mikilvægt er að þjóðin geti sagt hug sinn oftar en á fjögurra ára fresti og þá milliliðalaust. Nútíma tækni verði nýtt til þess að auðvelda landsmönnum að kjósa um mikilvæg mál.

Landið verði eitt kjördæmi. Núverandi misvægi atkvæða er andlýðræðislegt.

Aðskilnaður ríkis og kirkju. Trúfrelsi tryggt, trú er einkamál.

Sjálfstæði löggjafans gagnvart framkvæmdavaldinu.  Ráðherrar sitji ekki á þingi.

Breytingar á skipan embættismanna og dómara. Hindra pólitísk hrossakaup.

Trygging þess að mikilvægar auðlindir séu í sameign þjóðarinnar.


Farmbjóðandinn

Ég er búinn að skila inn öllum gögnum til þess að bjóða mig fram til stjórnlagaþingsins.

Á einu eyðublaðinu ber að svara spurningunni „Hvers vegna býð ég mig fram til stjórnlagaþings? (hámark 700 slög).

Mitt svar hljóðar svo:

Ég tel að ný stjórnarskrá sé liður í því að sameina þjóðina á ný eftir sundrunguna sem fylgdi hruninu 2008. Ég vil að tillaga stjórnlagaþingsins að nýrri stjórnarskrá fari ekki eingöngu til Alþingis til framhaldsumræðu og ákvörðunar. Hún skal einnig send til umræðu meðal allra Íslendinga, á hvern vinnustað, hvert heimili og í allar skólastofur, svo að hún verði að lokum þjóðareign sem upplýsir þjóðina um sínar skyldur og sín réttindi. Leiðarjós mitt er virkt lýðræði og betra þjóðfélag á tveggja alda ártíð Jóns Sigurðssonar. Í því felst að stjórnarskráin innihaldi m.a. ný ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, jafnt vægi atkvæða og þjóðareign mikilvægra auðlinda .


Liljur vallarins - frábær heimildakvikmynd

Liljur vallarinsÉg var á frumsýningu heimildakvikmyndarinnar Liljur vallarins eftir Þorstein Jónsson. Stórfín mynd, skora á alla sem langar til að sjá góða kvikmynd að skella sér í Bíó Paradís.

Úr kynningartexta myndarinnar: „Er hægt að planta áhuga á náttúruvernd eða sá fræjum friðar úr prédikunarstólnum, þegar kirkjusókn er ekki meiri en raun ber vitni? Getur presturinn hjálpað sóknarbörnunum að verða betri manneskjur? Eflir trúin virðingu manna fyrir sköpunarverkinu og góðu mannlegu samfélagi? Er náttúran heilög eins og lífið? Þessum spurningum er ekki öllum létt að svara, en þær eru þess virði að gefa þeim gaum.“


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband