8.4.2011 | 12:54
Forsetinn kveiki á fyrsta flugeldinum
Ef neikvæðið sigrar á morgun þá er það mín tillaga að það verði haldin mikil og vegleg flugeldasýning.
Sú stærsta og tilkomumesta í manna minnum!
Og það er ennfremur mín tillaga að það verði forsetinn sem skjóti upp fyrsta flugeldinum af hlaðinu á Bessatöðum.
Annað væri móðgun við hann - manninn sem tók völdin af þinginu og atti þjóðinni út á foraðið.
Enn er að vísu von - en fremur lítil.
Segjum Já!
7.4.2011 | 16:20
Á nú að stela glæpnum?
6.4.2011 | 08:36
Icesave málið er prinsipmál
Hvernig sem já-sinnar eða nei-sinnar velta Icesavemálinum fyrir sér og ræða dómstólaleiðina eða aðra mögulega niðurstöðu þessa máls þá er í raun aðeins ein leið til að meta það.
Hver sá sem ætlar að kjósa ætti að setja sig í spor þess sem málið snýst um. Það er hinn venjulegi sparifjáreigandi.
Allir sem setja fé á bankareikning ætlast til þess að peningarnir séu til staðar þegar þeim hentar að taka féð út aftur. Bankar verða að vera öruggar stofnanir, jafnvel þótt þeir hafi verið einkavinavæddir.
Þetta er svo augljóst að það ætti varla að þurfa að benda á þetta - en í öllum látunum kringum þetta mál þá er eins og að sumir hafi gleymt þessari grundvallarreglu.
Í samstarfi okkar við aðrar Evrópuþjóðir á mörgum sviðum þá gilda reglur sem banna mismunun eftir þjóðerni eða búsetu. Banki má ekki mismuna Englendingi sem býr í Reykjavík og geymir sitt sparifé í útibúi bankans í Reykjavík gagnvart Englendingi sem býr í London og geymir sitt fé í útibúi sama banka í London. Sama gildir um Íslendinga sem búa á Íslandi eða í Englandi. Allir innistæðueigendurnir skulu eiga sömu réttindi og sofa því sælir í sínum heimabæ.
Þetta er grundvallarreglan í Icesavemálinu. Nú er ljóst að neiti Íslendingar að ganga frá málinu með fyrirliggjandi samningi þá eru þeir að segja að þessi regla sé ekki í gildi. Það má mismuna.
Sömu aðilar virðast aðallega byggja afstöðu sína á því að það sé verið að kúga þá til að borga ólögvarðar einkaskuldir óreiðumanna. Jafnaðarreglan sem samskipti Íslendinga við aðildarþjóðir EES-samningsins byggðist á er skyndilega orðin kúgun (fyrrum nýlendukúgara, útlendinga etc.).
Íslenskt innistæðutryggingakerfi brást, bæði gangvart íslenskum innistæðueigendum á Íslandi og innistæðueigendum Landsbankans erlendis. Íslenska ríkið hljóp undir bagga og tryggði innistæður hér heima. Og nú er búið að semja um að íslenska ríkið standi með sama hætti að baki tryggingasjóðnum gagnvart erlendum innistæðueigendum. Sem betur fer þá duga eiginir þrotabús Landsbankans næstum fyrir allri greiðslunni.
Segjum já!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
4.4.2011 | 09:37
Þjóðin mun borga Icesave reikninginn.
Íslendingar eru nú að rífast um það hvort þeir eigi að borga allt drullumallið sem óstjórn og glæpamennska dembdi yfir þjóðina - eða reyna að sleppa 4% (Icesave) af heildar skítnum.
Þjóðin borgar 96% (Seðlabankagjaldþrotið, Sjóvá, Sparisjóðurinn í Keflavík, innistæðutrygginar auðmannna ofl.) án þess að að nokkur samtök eða fjölmiðlar hafi eytt milljónum króna til þess að sannfæra hana um að borga eða borga ekki.
En þessi 4% eru sá hluti hrunsins sem virðist vera hægt að kjósa um að borga eða að borga ekki. En sú er ekki raunin.
Ef sá hluti þjóðarinnar, sem hefur telur að þessi 4% skuldanna verði ekki greidd ef menn setja x við nei, reynist vera meirihluti hennar - þá verða þessi 4% dýrasti hluti skuldahaugsins.
Í stað þess að borga hann að mestu með eignum þrotabúsins Landsbankans skv. samningi sem liggur fyrir þá verður hann greiddur með þessum eignum og bætt ofan á öllum þeim kostnaði sem fellur til vegna versnandi ástands þjóðarbúsins. Þetta er einfalt reikningsdæmi.
Auðvitað verða þessi orð séu flokkuð sem hræðsluáróður af þeim sem, líkt og formaður Framsóknarflokksins, reka þann áróður að skuldin hverfi við nei-ið. En hvernig sem kosningin fer þá verður Icesave borgað af íslenskum almenningi og fyrirtækjum. Þ.e. þeim sem kjósa að búa og starfa áfram í þessu landi þar sem um helmingur þjóðarinnar ímyndar sér að það að borga 96% en ekki 4% af óstjórnarskattinum (en borga samt) sé sigur!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
24.3.2011 | 20:11
Jóhanna sífellt vinsælli
Jóhanna forsætis verður sífellt vinsælli.
Hjá mér stígur vísitala hennar hvern dag sem hún situr í embætti við endurreisn þjóðfélags sem virðist haldið illilegri sjálfstortímingarhvöt.
Hjá stórnarandstöðunni er hún æ vinsælli sem skotmark fyrir hvellsprengjur og bullpólitík.
Þorgerður Katrín fer mikinn og talar um hroka Jóhönnu, aumingjalegt yfirklór og húmbúkk. Það er sem hún og hennar flokkur eigi enga fortíð á þeim sviðum sem hér eru til umfjöllunar.
Og ekki bregst ritstjórinn á sprungusvæðinu við Rauðavatn. Hann bregður Jóhönnu um heimsku og skrifar um skipulagsbreytingar í stjórnaráðinu: Þar var bersýnilega verið að reyna að laga forsætisráðherraembættið að getu viðkomandi persónu.
Og Björn Bjarnason, sem var sjálfur í skítverkunum, skrifar: viðbrögð hennar við úrskurðinum sanna mér endanlega að Jóhanna er mesti gervibaráttumaður í stjórnmálum sem ég hef kynnst.
Allt þetta ómerkilega blaður vegna þess að Jóhanna, þveröfugt við ýmsa fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, framfylgdi vinnureglum sem miða að því að losa tök pólitíkusa á mannaráðningum hjá hinu opinbera.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
15.3.2011 | 15:13
Diljá Jósefsdóttir
Sú kvöð liggur á andstæðingum ESB aðildar Íslands að upplýsa þjóðina um hvaða valkostir bjóðast í stað inngöngu í bandalagið og upptöku Evru í fyllingu tímans.
Þ.e.a.s. ef þeir hugsa sér að hér verði áfram nútímalegt þjóðfélag laust við þær dýfur og hrekki sem ónýtur gjaldmiðill býður uppá.
Einn þáttur í því að byggja hér betra umhverfi fyrir fjölskyldur og fyrirtæki er augljóslega peningastefnan; fyrir þjóð sem reynir að starfa í nútímahagkefi er nauðsynlegt að eiga nothæfa mynt.
Ýmsar tillögur hafa komið fram - bæði frá hægri og vinstri. Menn minnast heilsíðuauglýsinga frá Bjarna Ben formanni Sjálfstæðisflokksins þar sem hann lagði til upptöku Evrunnar með aðstoð AGS. Þessi hugmynd liggur nú á botni kosningabragðakistu flokksins.
Ásmundur Daði, formaður Heimssýnar, stakk uppá efnahagsbandalagi við Bandaríkin og ýmsir hafa nefnt allar gjaldeyristegundir heimsins - nema Evruna - í tilraunum til þess að koma með raunhæfar tillögur í peningamálum þjóðarbúsins.
Það nýjasta er tillaga Lilju Mósesdóttur um að núverandi krónu verði skipt út fyrir nýja - með nýju nafni og útliti. Hér er enn ein tilraun til þess að svara spurningunni um valkosti - út í hött.
Rökstuðningurinn byggir m.a. á því að ruglaðir fjárfestar með gullfiskaminni gætu slysast til að fjárfesta hér á landi. Hugmynd Lilju minna helst á aðferðir óheiðarlegra bílasala sem hafa verið staðnir að því að skrúfa kílómetramælinn til baka til að pranga út bíldruslu.
Ég bíð spenntur eftir næstu hugmynd. Hugmyndaflugið virðist ekki skorta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.2.2011 | 20:48
Vankunnátta eða hatur
Valdimar Jóhannesson bloggari með meiru skrifaði nýlega grein á bloggsíðu sína undir fyrirsögninni Vonandi vankunnátta frekar en gyðingahatur. Uppspretta pistilsins hjá Valdimar var þörf hans til að sýna að margir Íslendingar sem taka undir málstað múslíma endalaust og sverta málstað Ísrael eru á villigötum.
Málstaður múslima í huga Valdimars virðist m.a. vera málstaður Palestínumanna sem hafa verið rændir heimalandi sínu og búa ýmist við kúgun Ísraelshers eða eru landflótta víða um heim.Valdimar telur að þeir sem sverta málstað Ísrael ættu að skoða kortin sem nú birtast daglega í blöðunum af miðausturlöndum vegna ólgunnar þar. Þeir áttuðu sig þá kannski á því hve fráleitur málflutningur þeirra er. Ísrael sést vart með berum augum á þessum kortum enda agnarlítið land meðal risavaxinna landa múslíma.
Ég skil reyndar ekki hvernig kortaskoðun geti hjálpað mönnum til að átta sig hvort þeir eru haldnir gyðingahatri eða ráða yfir víðtækri vankunnáttu á þessum málum og enn síður sé ég hvaða hlutverk stærð landa leikur í þessu samhengi. Nema ef það væri samúð með hinum smáa sem kviknaði við að sjá að Ísrael er agnarlítið land og umkringt risum. Nú hvarflar hugur minn að sögunni um Davíð og Golíat - enda ekki óviðeigandi hér. Ísrael er með fjórða öflugasta her í heimi og á tugi kjarnasprengja - Ísrael getur í raun eytt öllu sínu umhverfi og gott betur, þrátt fyrir smæð sína í ferkílómetrum.
Sem áhugamaður um málefni Ísraels og Palestínumanna þá setti ég inn athugasemd inn á síðuna hjá Valdimar og átti við hann fróðleg samskipti varðandi málefnið.
Það sem hratt mér af stað var sú fullyrðing hans að Í Ísrael hins vegar eru arabar um 20% af þjóðinni og njóta allra mannréttinda. Þeir sitja á þinginu, eru dómarar, yfirmenn í hernum og ekkert væri því til fyrirstöðu að arabi væri forsætisráðherra enda er Ísrael eina landið þar sem lýðræði er virt í miðausturlöndum. Það skyldi ekki vera þar sem skilur á milli gæfu og ógæfu þessara landa?
Ég sá að þarna var maður sem fylgir opinberri línu Ísraelsstjórnar og telur hann að íbúar landsins af arabakyni njóti sín kostulega í ríki sem nefnist frá fræðingu Lýðræðislega gyðingaríkið Ísrael.
Árið 2007 skrifaði ég grein í Lesbók Morgunblaðsins um lög í Ísrael sem ástæða er til að endurtaka nú að litlum hluta: Í grunnlögunum sem nú eru í gildi segir: Tilgangur þessara grunnlaga er að verja mannlega reisn og frelsi svo grunnlögin nái yfir gildi Ísraelsríkis sem lýðræðislegs gyðingaríkis. Í stofnyfirlýsingu Ísraels frá 1948 er skráð: Eretz-Israel (Land Ísraels) var fæðingastaður gyðingaþjóðarinnar.
Ekki fer á milli mála eftir þennan lestur að ríkið er ríki gyðinga ekki ríki allra sem þar búa, heldur þeirra sem þar búa og eru gyðingar. Nú vill svo til að 20% íbúanna eru ekki gyðingar. Gæti íslenska stjórnarskráin verið orðuð með líku hætti og Ísland áfram talist til lýðræðisríkja? Ísland er lýðræðisríki 80% Íslendinga Þetta væri yfirlýsing um að 60,000 Íslendingar væru utangarðs þegar sjálfur grundvöllur þjóðskipulagsins væri ákveðinn. Kæmi hljóð úr horni? Yrði kvartað undan skorti á jafnræði? Myndu íslenskir stjórnmálamenn veifa þessu plaggi kotrosknir og fá almenna viðurkenningu fyrir? Ég veit það ekki, þetta hefur ekki verið reynt. Ísrael er reyndar eina ríkið á jarðarkringlunni sem hefur lýst því hreinlega yfir að það sé ekki ríki þeirra sem þar búa, heldur hluta íbúanna.
Það getur tæpast verið þægileg tilfinning að búa í slíku landi fyrir þá sem ekki eru gyðingar... Ísraelar búa í raun við tvennskonar lög, annarsvegar veraldlegu lögin eins og þau eru í Grunnlögunum og hinsvegar trúaleg lög sem ná til m.a. fjölskyldumála, s.s. hjúskapar.
Þrátt fyrir að því sé haldið fram víða að Ísrael sé lýðræðisríki þá hlýtur það sá efa í brjóst lýðræðissinna að uppgötva að í hluta grundvallarlaganna er landsmönnum mismunað augljóslega eftir því hvort þeir eru gyðingar eður ei. Þ.e. aðgreining eftir kynþáttum er staðfest þegar lög um landareignir, frjálsan flutning til landsins, sameiningu fjölskyldna ofl. eru skoðuð.
Eftir fyrstu athugasemdir mínar hófust heilmikil skrif sem menn geta kynnt sér á bloggsíðu Valdimars: (http://valdimarjohannesson.blog.is/blog/valdimarjohannesson/entry/1145568/ )
Þar má m.a. lesa eftirfarandi fullyrðingu Valdimars: Gyðingar voru ávalt í meirhluta á þeim svæðum sem nú heita Israel en rómverjar gáfu nafnið Palestína gyðingum til háðungar eftir að þeir hernámu landið. og skemmtileg skrif um bandaríska rithöfundinn Mark Twain.
27.2.2011 | 12:55
Á bráðadeildina með þjóðina!
Fylkingin sem hafnar samkomulagi um Icesave, elskar nú um stundir forseta vorn, og vill ekki halda áfram aðlögunarferlinu að ESB, hefur fundið sér enn eitt sameiningartáknið: til helvítis með stjórnlagaþingið.
Margir þeirra sem tilheyra þessari fylkingu segjast þó bera hið Nýja Ísland fyrir brjósti og vilja auka lýðræðið með því að hleypa þjóðinn nær ákvarðanatöku í mikilvægum málum.
En hvað er nauðsynlegra en nýr grundvöllur fyrir lýðveldið okkar?
Hvernig er hægt að betrumbæta lýðræðið í landinu, sjálfan grundvöllinn, öðruvísi en með betri stjórnarskrá?
Þjóðin þarf að fara á bráðadeildina núna og það innifelur smíði nýrrar stjórnarskrár og þolir enga bið!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.2.2011 | 11:49
Hlébarðasamfestingur
Eftir síðustu Edduhátíð hefur ung kona vakið mikla athygli og margar myndir birtar af henni í blöðum og á netinu.
Unga konan, sem heitir Bjarnheiður, skreytir Fréttablaðið í gær og forsíðu Fréttatímans í dag og efalaust næsta eintak af Séð og heyrt. Það sem vekur áhuga blaðamannanna er klæðnaður Bjarnheiðar, aðskorinn hlébarðasamfestingur sem hún hannaði sjálf og viðhorf hennar til tísku og hönnunar. Í viðtölum við hana kemur m.a. fram að hún notar brúnkukrem, er elskuð og stundum hötuð af öðrum konum og er ekki s.k. 101 týpa (hvað sem það nú þýðir).
Nú vill svo til að Edduhátíðin á að vera uppskeruhátíð kvikmynda- og þáttagerðarmanna og kvikmyndaverkið sem vann Edduna, sem Bjarnheiður tók á móti vegna forfalla vina sinna, var heimildamyndin Fiðruð fíkn. Að baki þeirri heimildamynd liggur 6 ára starf við rannsóknir, fjármögnun, handritsgerð, kvikmyndatöku, klippingu og þrotlausa kynningu í fjölmörgum löndum.
Edduverðlaunahafarnir hafa ekki fengið eina símhringingu, engan tölvupóst, hvorki hósta né stunu frá fjölmiðlamönnum þessa lands eftir að þeir fengu Edduna.
Bjarnheiður baðar sig í athygli og nýtir hvert tækifæri vel og vandlega, enda búningurinn til þess hannaður - að fanga athygli. Ekki skal lasta áhuga hennar né árangur við að koma sér og sinni hönnun á framfæri.
En eftir situr sú hugsun hjá mér að þetta Hollywoodtilstand afhjúpi eitthvað skrítið í blaðamennsku á Íslandi. Engum blaðamanni dettur í hug að fjalla um efni heimildamyndarinnar sem hlaut Edduna. Þótt myndin hafi vakið töluverða athygli á erlendum kvikmyndahátíðum og sé nú á leiðinni í sýninga í sjónvarpi um allan heim sökum umfjöllunarefnisins - þá einskorðast áhugi íslenskra blaðamanna nú við flíkur og förðun!
Er eitthvað bogið við þetta - eða er ég bara forpokaður og ruglaður íbúi í 101?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.2.2011 | 20:50
Til upprifjunar
Margir þeirra sem hvað harðast ganga gegn því að þjóðin samþykki Icesave III í komandi atkvæðagreiðslu hrósa Ólafi Ragnari forseta fyrir að gera mönnum mögulegt að kjósa um málið. Eitt helsta slagorð þessa hóps er fengið úr smiðju ritstjórans á sprungusvæðinu við Rauðavatn: Við borgum ekki skuldir óreiðumanna
Nú vita allir að óreiðumennirnir voru meðal helstu glæframannanna sem kenndir voru við útrásina. Æstustu aðdáendur forsetans eru greinilega búnir að fyrirgefa honum það að hann var mikill áróðursmaður þeirra manna sem skópu Icesave fárið.
Það nægir að kíkja í ræðu sem Ólafur Ragnar flutti hjá Sagnfræðingafélaginu 10. janúar 2006 til að sjá hve kröftugur áróðursmaður forsetinn var fyrir óreiðumennina:
Útrásin er þó staðfesting á einstæðum árangri Íslendinga, fyrirheit um kröftugra sóknarskeið en þjóðin hefur áður kynnst, ekki aðeins í viðskiptum og fjármálalífi heldur einnig í vísindum, listum, greinum þar sem hugsun og menning, arfleifð og nýsköpun eru forsendur framfara.
Útrásin er byggð á hæfni og getu, þjálfun og þroska sem einstaklingar hafa hlotið og samtakamætti sem löngum hefur verið styrkur okkar Íslendinga. Nauðsyn þess að allir komi að brýnu verki var kjarninn í lífsbaráttu bænda og sjómanna á fyrri tíð, fólkið tók höndum saman til að koma heyi í hús meðan þurrkur varði eða gerði strax að afla sem barst á land.
Það er forvitnilegt umræðuefni hvernig menning og saga móta útrásina, hvernig eiginleikar sem eiga sér rætur í arfleifð okkar gefa Íslendingum hugsanlega forskot á alþjóðavelli, hvernig vitund og venjur sem um aldir mótuðu samfélagið hafa reynst útrásarsveitinni haldgott veganesti.
Reynslunni ríkari vitum við nú að útrásin var ekki: staðfesting á einstæðum árangri Íslendinga og hún var ekki byggð á hæfni og getu, þjálfun og þroska. Þetta var þjófnaður og glæfraspil og forsetinn tók þátt í því að blekkja þjóðina. Hann var á þeytingi um allar jarðir til að boða fagnaðarerindið sem hér birtist.
Bóndinn á Bessastöðum spilar djarft og hann spilar stórt hlutverk í okkar litla samfélagi. Hann hjálpaði þjóðinni fram af bjargbrúninni og nú truflar hann endurreisnarstarfið. Geri aðrir betur!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)