8.10.2010 | 17:48
Farandsirkusinn
Ríkisútvarpið hefur upplýst að: Friðarviðræður Ísraela og Palestínumanna hafa siglt í strand aðeins fimm vikum eftir að þær hófust formlega.
Farandsirkusinn sem nefnist friðarferlið lagði af stað undir stjórn Clintons Bandaríkjaforseta árið 1993 og er enn á ferðinni. Ólíkt öðrum sirkusum þá hefur þessi ekki skilað neinni gleði þótt innanborðs séu fleiri trúðar en gerist og gengur. Í frétt RÚV segir að: Hóflegrar bjartsýni gætti þegar nýjasta lota friðarviðræðna hófst. Það fylgdi ekki fréttinni hverjir voru með veika von um árangur. Það er mjög áhugavert að vita í hverra brjóstum vonin bjó því enginn af núverandi skemmtikröftum sirkusins er boðberi friðar og vonar um betra líf. Lítum á sirkustrúðana og friðarsókn þeirra:
Netanyahu forsætisráðherra Ísrael er þekktur harðlínumaður og er í forystu ríkis sem stendur fyrir stórfelldum þjófnaði á landi nágranna sinna. Á vefnum er hægt að hlusta á upptökur þar sem hann hrósar sér af því að hafa eyðilagt fyrri friðarviðræður með klókindum sínum. Hann vissi ekki að vídeóvélin var í gangi og var því óvenju opinskár. Hér er slóðin:(http://www.youtube.com/watch?v=eeT_KLuCdug&feature=related) Netanyahu er talsmaður ólöglegra landtökubyggða á landi Palestínumanna þar sem nú búa 510,000 Ísraelar í trássi við alþjóðalög. Friðurinn sem hann sækist eftir er friður til þess að stela meira landi og hrekja fleiri Palestínumenn burt.
Mahmoud Abbas forseti Palestínumanna er umboðslaus. Boða átti til þingkosninga í Palestínu skv. lögum í janúar 2009, en Abbas aflýsti þeim af ótta við fylgistap Fatahhreyfingarinnar. Salam Fayyad heitir forsætisráðherrann sem fylgir Abbas í ferlinu. Hreyfing sem hann styðst við hlaut 2% atkvæða í síðustu kosningum hann telst því ekki atkvæðamikill friðarfrömuður og umboð hans er ekkert. Friðurinn sem þessa kumpána dreymir um er friður til að halda illa fengnum völdum.
Obama, Bandaríkjaforseti, hefur forskot á hina trúðana þar sem hann er handhafi friðarverðlauna Nóbels. Grínvísitala hans er hærri en hinna því hann stjórnar herveldi sem víða kastar sprengjum á saklausa borgara í nafni baráttu fyrir friði og frelsi. Hundruð þúsunda hafa látið lífið í þessari friðarviðleitni hans og forveranna í embættinu sem hann nú skipar. Friðurinn sem hann vill er friður á forsendum heimsveldisins sem styður við bakið á landtökumönnunum sem eru sagðir vera helsta fyrirstaða fyrir friðarferlinu! Farandsikrusinn fer því í hringi og fjölmiðlar heimsins fygjast spenntir með.
8.10.2010 | 12:45
Hver ekur eins og ljón?
Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins hefur verið áberandi hvöss í málflutningi sínum. Margir muna sjálfsagt eftir framgöngu hennar þegar hún ofl. stjórnarandstöðuþingmenn skipulögðu málþóf skv. stundatöflu. Dampurinn virðist enn búa í henni, hún bloggar nú um ríkisstjórnina og líkir nokkrum ráðherrum við dauða fugla í grillinu.
Athyglisvert er að hún telur að vandamálið verði til þegar lítill fugl flýgur á bílinn á mikilli ferð - fuglinn flýgur á bílinn - ekki bíllinn ekur á fuglinn. Sökin liggur hjá fuglinum skv. Vigdísi. Ég hef ekið mikið um þjóðvegi landsins og aldrei orðið fyriri því að fugl hafi flogið á bílinn. Eina skiptið sem ég hef drepið fugl var vegna þess að ég ók of hratt og mávurinn sem sat á veginum var mjög seinn að begðast við hættunni.
Ég er viss um að í flestum tilfellum þegar fugl festist í grilli bíls sé það vegna þess að bílstjórinn ekur of hratt. Þess vegna getur hann ekki brugðist við hættunni og fuglinn á ekki möguleika á að sveigja undan. Þetta byggi ég á reynslu minni því það kemur oft fyrir að fuglar koma fljúgandi yfir veginn - en mér hefur alltaf tekist að draga úr hraða og fuglinn sloppið.
Þá kemur að því að skoða betur hugmyndir Vigdísar sem skrifar með þessum hætti um ráðherrana. Vigdís skrifar: Össur, Jóhanna og Steingrímur vita best af öllum að þau eru föst í grillinu. Við höfum reynt að forða þeim frá því að fljúga í grillið með tillögum okkar. Til þess að fullkomna samlíkingu Vigdísar þá verðum við að vita orsök þess að ráðherrarnir eru fastir framan á bíl skv. lýsingu þingmannsins skelegga.
Hver á þennan bíl og hver er ökumaðurinn - og hvert lá leiðin? Og með hvaða hætti reyndum við (lesist: Framsóknarflokkurinn) að forða ráðherrunum að fljúga á grill hins óþekkta bíls með óþekkta ökumanninn við stýrið? Hefði ekki verið árangrusríkara að biðja ökumanninn um að aka aðeins hægar svo að minni eða engin hætta væri á því að ltilir fuglar lentu á grillinu og liggja dauðir eftir. Vigdís setur fram eina mögulega skýringu á grillveru litlu fuglanna: mátt- og þrekleysið algjört eins og farfugl sem kemur til landsins að vori örmagna. Þetta á skv. Vigdísi að skýra ástand ráðherranna eða litlu fuglanna. Mátt og þrek skortir og Þau bíða að einhver komi með hanska og plokkara til að ná þeim ... Ráðherrarnir fljúga skv. lýsingu Vigdísar á grill óþekkts ökutækis og nú, reyndar dauðir ef trúa má vettvangslýsingu þingmannsins, bíða þeir eftir að einhver komi og hirði hræin. Væntanlega er það Framsóknarflokkurinn (allt er mjög súrrealiskt í þessu dæmi Vigdísar) sem mætir með einnota hanska og plokkara og tekur þessa ólánssömu fugla af grillinu og bíllinn og farþegar hans halda sína leið. Eftir sit ég með mínar vangaveltur um allt það sem ég fór að velta fyrir mér þegar ég las þessa slysafregn þingmannsins. Ég er engu nær um ástand og horfur í málum fugla, ökumanna og þingmanna sem setja fram svo djúpar myndlíkingar að allt endar í þvælu.
Þingmaður líkir ráðherrum við dauða fugla í grilli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2010 | 10:26
Listamaður
Ásbjörn Óttarsson. þingmaður Sjálfstæðisflokksins og útgerðarmaður af Snæfellsnesi, var umfjöllunarefni fjölmiðla í janúar s.l. þegar hann greiddi sér 65 milljónir krónur í arð árið 2008 og 20 milljónir 2009 í trássi við lög.
Nú er hann aftur kominn í kastljósið vegna ummæla sinna um listamenn og listamannalaun. Hann spurði hvers vegna þessir listamennn fengju sér ekki vinnu eins og venjulegt fólk.
Þetta er góð spurning og skemmtilegt að hún sé borin fram af manni sem telur að hann geti greitt út arð þótt fyrirtæki hans sé í bullandi taprekstri. Það sýnir að í honum býr listamaður, skapandi sál sem sér veröldina með sínum hætti, og framfylgir hugmyndum sínum þótt þær stangist á við hefðir og reglur og jafnvel lög.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.10.2010 kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.9.2010 | 14:25
Við hverju bjuggust menn?
Nú ræða menn um að atkvæðagreiðslan hafi verið pólitísk við hverju bjuggust menn?
Þrír flokkar ráku málið eftir flokkspólitískri línu en tveir létu sína flokksmenn ráða atkvæði sínu eftir eigin sannfæringu. Geir Haarde ofl. reyna að setja upp það sjónarspil að þingmenn Samfylkingarinnar hafi stundað pólitísk hrossakaup þrátt fyrir að staðreyndirnar sýni allt annað.
Samfylkingarþingmenn greiddu atkvæði í samræmi við ákvæði í stjórnarskránni sem kveður á um að samviska þingmanna ráði för. Hluti þingflokksins greiddi m.a.s. atkvæði gegn eigin flokksmönnum.
Í þessu samhengi er fróðlegt að lesa leiðara Morgunblaðsins. Þar skrifar fyrrverandi æðstráðandi til sjós og lands að Sjálfstæðisflokkurinn gerði rangt í því að taka þátt í ógæfuleiknum eftir að ljóst var að Geir yrði ákærður. Að mati ritstjórans þá áttu sjálfstæðisþingmenn að hætta þátttöku í þingstörfum við þessar aðstæður. Augljóst er að hann telur að flokkssamviskan ráði en ekki trúnaður einstakra þingmanna við eigin hug.
Pólitísk fingraför á málinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.9.2010 | 18:37
Reynt að ná í skottið á höfuðpaurnum
Niðurstaða Alþingis er það næsta sem verður komist til að ná í skottið á helstu sökudólgum úr hópi stjórnmálamanna. Geir er búinn að eiga þátt í öllu brallinu sem Davíð, Halldór og Finnur stóðu fyrir. Geir verður nú að standa sig fyrir Landsdómi og sýna fram á hvað gerðist og hvenær.
Þetta er hans uppskera fyrir fylgispekt sína við feigðarflanið sem upphófst þegar hugmyndir Eimreiðarhópsins tóku að stýra þjóðarskútunni.
Flokkspólitísk yfirstétt sló skjaldborg um sjálfa sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.8.2010 | 17:13
Glerperlur og eldvatn
Ögmundur Jónasson er góður mælikvarði á umræðuna um ESB eða ekki ESB. Grunntónninn hefur áður komið fram hjá t.d. Ragnari Arnalds sem lýsti því í Kasljósi að Ísland verði innlimað í ESB og auðlindirnar hirtar af okkur.
Ögmundur skrifar í Moggann: Það er ekki að undra að herskáir Evrópusinnar líti hýru auga til Festung Island, Virkisins í norðri. En ekki mun standa á styrkveitingum svona rétt á meðan verið er að tala okkur til. Hið sama gæti hent okkur og indíána Norður-Ameríku. Þeir töpuðu landinu en sátu uppi með glerperlur og eldvatn.
Samlíkingin við indiánana er furðuleg og jafnframt fáránleg. Þeir voru fórnarlömb nýlendustefnu sem byggðist m.a. á kynþáttahyggju og guðsorði. Indíánarnir vissu ekki við hverja var að etja og voru á öðru þróunarstigi en hinir herskáu nýlendusinnar.
Íslendingar eru hluti af evrópskir menningu, fullvalda þjóð með ríka lýðræðishefð. Það verður því að spyrja Ögmund og skoðanabræður hans í Heimssýn hvernig hafa herskáir Evrópusinnar sölsað undir sig auðlindir Dana, Finna, Svía, Englendinga og Íra? Varla meðhöndla þeir fórnarlömbin með ólíkum aðferðum, þeir hljóta að hafa skilið eftir sig nokkrar glerperlur í Danmörku. Og eldvatn í Finnlandi. Fram með dæmin!
Er ekki kominn tími til að lyfta umræðunni á hærra stig?
26.7.2010 | 10:58
Nagladekk og brennivín
Andstæðingar ESB hafa slegið skjaldborg um íslensku krónuna. Henni er hampað sem bjargvætti og þarfaþingi nú þegar þjóðin er að reyna að feta sig út úr kreppunni.
Sömu aðilar eru, eins og meginþorri Íslendinga, óhressir með verðtryggingu lána sem rýrir eiginir og laun þegar verðbólga nær sér á strik. Krónan er þó ein helsta orsök umkvörtunarefnanna, hún er svo gott sem ónýtur gjaldmiðill, lifir hér á eyjunni með belti, axlabönd og nálgunarbann.
Á mínum vinnustað ræða menn aftur og aftur þessa klemmu sem venjulegir launamenn sitja í hér á landi. Þeir sem eru hræddir við ESB bölva verðtryggingunni en vilja samt halda í krónuna.
Þetta segi ég að sé sama afstaða og sá hefur sem ekur um á nagladekkjum (sem orsaka 60% af svifryksmengun í þéttbýli) og kvartar svo undan mengunarskýjunum á stilltum vetrardögum.
Ennfremur má líkja þessu við mann sem hefur sökum drykkjuskapar eyðilagt allt sitt nánasta fjölskyduumhverfi en neitar að yfirgefa brennivínið.
Það er hægt að ræða vandamál launafólks og húseigenda fram og aftur en ef menn sjá ekki samhengið, og hlut krónunnar í vandanum, þá er tilgangslaust að ræða aðrar lausnir. Því þær eru ekki til.
10.7.2010 | 17:31
Óloft
Skv. kröfu ritstjórnar Mbl.bloggsins hef ég fjarlægt þær tilvitnanir í skrif Lofts Altice sem ég var að bregðast við í þessu greinarkorni mínu.
Maður að nafni Loftur Altice Þorsteinsson er virkur í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. Hann heldur úti bloggsíðu og birtir þar ýmislegt sem fangar hug hans.
Nú hefur hann birteftirfarandi texta á bloggi sínu: ... Og Loftur lætur ekki þar við sitja hann hyggst grípa til fjöldamorða sbr: ....
Nokkrir skoðanabræður og systur Lofts eru álíka umburðarlynd gagnvart skoðunum annarra. Stungið er uppá að hrekja fólk úr landi sbr.: við getum líka hafið peningasöfnun til þess aðkoma ESB sinnum úr landi, líkt og kanarnir gerðu til að losna við Keikó. Ég væri til í að gefa pening í slíkt þjóðþrifaverk!! (Guðrún Sæmundsdóttir)
Nasistar/fasistar stunduðu það að koma andstæðingum sínum fyrir kattarnef með eitri og hröktu þá einnig í útlegð. Það er athyglisvert að hérlendis birta menn hiklaust skoðanir sem ríma við þau óþokkaöfl sem réðust gegn lýðræðinu með oddi og egg.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.7.2010 kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (110)
10.7.2010 | 13:40
Þjóðmont
Hannes Pétursson rithöfundur birti stórgóða grein í Fréttablaðinu í dag. Hann vekur athygli manna á því einkennilega bandalagi sem hefur myndast milli Davíðshluta Sjálfstæðisflokksins og hluta Vinstri grænna: Orðið hefur til einhver kómískasta þverpólitík í gjörvallri kristninni, hin blágræna þverpólitík gegn aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.
Þetta eru orð að sönnu, annarsvegar eru forsvarar og fylgjendur útgerðarauðvaldsins og frjálshyggjuævintýrisins og hinsvegar andstæðingar kvótakerfisins og frjálshyggjunnar. Þessi skoðanagrautur er svo framreiddur í nafni andstöðu gegn aðild Íslands að ESB.
Hannes skrifar ennfemur Blágræna þverpólitíkin er þó ekki eingöngu kómísk, því er nú verr og miður, heldur er viss þáttur hennar beinlínis fyrirlitlegur, þetta þjóðmont sem gegnsýrir hana,
Það sem Hannes nefnir þjóðmont er blanda af minnimáttarkennd og þröngsýni sem brýst fram í monti án mikillar innistæðu. Þjóðmontið er oftast brúkað til að þurfa ekki að ástunda vitræna umræðu um menn og málefni. Allt leysist upp í þvaður um vonda útlendinga sem eiga enga ósk heitari en að afnema fullveldið sem hægrigrænir þykjast bera fyrir brjósti.
8.7.2010 | 21:51
Forgangsmál Bjarna Ben
Formaður Sjálfstæðisflokksins segir í viðtali: Ef Sjálfstæðisflokkurinn kæmi að nýju stjórnarsamstarfi myndi flokkurinn setja það í forgang að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu yrði dregin til baka.
Og áfram heldur hann: Eftir hrunið fannst mér rétt að menn sýndu umræðunni umburðarlyndi og veltu alvarlega fyrir sér öllum valkostum í stöðunni. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt að gera það og það sé ávallt nauðsynlegt að meta stöðu Íslands og samstarf við aðrar þjóðir með reglulegu millibili."
Hvernig hann hyggst meta stöðu Íslands og samstarf við aðrar þjóðir án þess að klára nýhafnar viðræður við ESB, er mér hulið. Þessi yfirlýsing Bjarna er dæmi um þær ógöngur flokkurinn er kominn í. Bjarni hefur áður sagt: Í pólitísku og peningamálalegu samhengi tel ég engan valkost jafn sterkan eins og evran með ESB-aðild. (mars 2009)
Og í kosningabaráttunni boðaði hann upptöku evru. Ef þessi sami maður (það er eðlilegt að álíta að hér sé um sama mann að ræða) ætlar að slíta viðræðum um sterkasta valkostinn sem varla eru komnar í gang sýnir það ekkert nema tækifærismennsku á alvarlegu stigi.
Umsókn Íslands verði dregin til baka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)