Kalt mat og hrútspungar

DO

Andstæðingar ESB vitna mikið í nýjustu skoðanakannanir og þykjast góðir þegar þeim líkar útkoman.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins er hlynnt aðildarviðræðum við ESB og hefur séð tímana tvenna í pólitík. Hún birti á bloggsíðu sinni í gær þrjár tilvitnanir í forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Þessir forystumenn eru núna yfirlýstir andstæðingar aðildarviðræðna og samkvæmt „köldu mati“ þeirra á að hætta aðildarviðræðum hið snarasta. En eins og aðrar skoðanir, hvort sem þær birtast í skoðanakönnunum eða í ræðu og riti, þá eru skoðanir forystumannanna breytilegar.

Þetta sagði Björn Bjarnason í grein árið 1991: „Við erum þegar farin að sjá til þess hóps manna, sem þykist betur í stakk búinn en aðrir til að segja afdráttarlaust fyrir um það, að íslenska þjóðin glati sjálfstæði sínu, menningu og tungu með frekara samstarfi við aðrar þjóðir, einkum Evrópuþjóðirnar. Þeir sem þannig tala hafa þann sið að gera sem minnst úr málefnalegum rökum viðmælenda sinna og láta eins og þau hnígi öll að því að þurrka íslensku þjóðina út úr samfélagi þjóðanna. Hræðsluáróður af þessu tagi er alls ekki nýr í íslenskum stjórnmála­umræðum. Kommúnistar héldu honum á loft um árabil í umræðum um varnir þjóðarinnar.“

„Þótt menn hafi ekki komist til botns í máli og geri ekki mikið meira en gára á því yfirborðið, stofna þeir samtök gegn málefninu. Er það til marks um einlægan vilja til málefnalegra umræðna?Evrópumálin voru á dagskrá landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 1989.

Í skýrslu Aldamótanefndar, hverrar Davíð Oddsson var formaður, segir m.a. „Hugsanlega verður þó skynsamlegast að óska beinlínis eftir viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, þótt menn séu um leið reiðubúnir að láta inngöngu ráðast af því, hvort þau skilyrði, sem henni kunna að fylgja, þyki aðgengileg eða ekki. Verði sú niðurstaðan, að þau séu óaðgengileg talin, hafa menn heldur engar brýr brotið að baki sér. Og þrátt fyrir allt er líklegt að smæð okkar verði okkur styrkur ásamt með því að við erum að véla við bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu og margar hefðbundnar vinaþjóðir, þar sem við njótum trausts.Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að við séum sjálfir að búa okkur til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar með að veikja okkar eigin samningsstöðu er við mætum með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópubandalagið.Við megum síst af öllu ganga að þessu viðfangsefni með þrá um forna innilokun og einangrun, alteknir af ótta og kjarkleysi. Við verðum að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hljótum við að ganga sannfærðir um það að reyna að ná fram hinu besta, en jafnframt tilbúnir til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg.“

Í mars 2009 sagði núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins „En til lengri tíma finnst mér ólíklegt, að við getum aukið stöðugleikann með krónunni. Þess vegna hef ég verið talsmaður þess að við tökum afstöðu til Evrópusambandsaðildar á komandi árum. Í pólitísku og peningamálalegu samhengi tel ég engan valkost jafn sterkan eins og evran með ESB-aðild. “

Hið „kalda mat“ forystumanna Sjálfstæðisflokksins er greinilega ekki við frostmarkið, þeir eiga það til að skipta um skoðun eins og dæmin sýna.

En talandi um mat þá eru hér nýleg skrif um þorramat í ljósi ESB umræðunnar:

Bloggari að nafni Júlíus Valsson skrifar á þjóðlegu nótunum um aðild að ESB: „Það snýst ekki um það hvort við þurfum að borga 4 milljarða fyrir umsóknina eða hvort við fáum 4 milljarða í (van-)þróunarstyrki frá ESB. Það snýst að vissu leyti um það, hvort við fáum að veiða fisk, rækta fé og íslenskar agúrkur. Það snýst þó meira um það, hvort við fáum áfram að borða hvalkjöt og súrt hvalsrengi, hákarl, súrsaða hrútspunga og reykt sauðakjöt. 

Það snýst algjörlega um það, hvort við fáum að kalla matinn okkar áfram sínu rétta nafni. Það er nefnilega svo, að í ESB ræður nefndin því, hvað menn láta ofan í sig og ekki síst hvað menn kalla matinn sinn. Allt þarf að fylgja Evrópustöðlum. "Hólavallahangikjöt" yrði væntanlega bannorð. "Þorramatur" myndi gera menn óða. 

Veljum íslenskt.“

  Júlíus er búinn að evrópuvæða hrútspungana og nefnir þá „Eurotesticles“

Þessi góði maður er dæmigerður fyrir þá sem finna upp annmarka á ESB og býsnast svo yfir þeim sjálfir fullir vandlætingar.  


Íslenskt matvælaverð í evrum!

InnkaupakerraRíkisútvarpið segir að könnun Hagstofunnar sýni að íslenska matarkarfan hafi lækkað um 60% og sé einungis 4% dýrari en í ESB að meðaltali.

Þetta hafa andstæðingar ESB gripið á lofti og bætt í vopnabúr sitt. Sem er yfirfullt af röksemdum um hversu ESB sé vondur kostur fyrir okkur Íslendinga.

Við lestur fréttarinnar kemur fram að „Breytingin skýrist fyrst og fremst af gengi krónunnar miðað við evru.“.

Þetta segir okkur sem sagt að ef við fáum laun okkar í evrum þá getum við hoppað alsæl út í búð og keypt það sem okkur listir.

En hinn venjulegi Íslendingur fær greitt í krónum (sem er með axalbönd, belti og nálgunarbann) og mjólkurpotturinn hefur heldur betur hækkað í krónum þótt hrap krónunnar gagnvart evru sé þvílíkt að það vegur þyngra.

Erlendir ferðamenn geta því keypt ódýru (og góðu) íslensku mjólkina en ekki venjulegir launaþrælar hér heima.

Við þessa miklu sælu Íslendinga (að geta boðið erlendum gestum ódýrar innlendar vörur) bætist launaskerðing og atvinnumissir að hluta eða að fullu. Sniðught a Izlandi!


Ótti við upplýsta umræðu

Hummer hopparÞað var svo sem ekki óvænt að meirihluti þingfulltrúa á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins ályktaði að draga skuli umsókn í ESB til baka.

Þessi afstaða er sú sama og hjá VG, einangrunarhyggja og ótti við upplýsingu. Kryddað svo með slettu af leiðinlegri þjóðrembu.

Einn af háværum andstæðingum ESB heitir Páll Vilhjálmsson og er blaðamaður. Hann fullyrti í útvarpinu (Rás 1) í gær að það ferli sem er í gangi milli Íslands og ESB sé ekki umsóknarferli, hér sé á ferðinni aðlögunarferli. Sem er allt önnur Ella. Páll reynir að koma því inn hjá hlustendum að umsóknin sé hættuleg aðlögun að ESB. Raunveruleikinn er sá að aðlögun íslensks laga- og regluverks að ESB hófst fyrir löngu, með undirritun EES samningsins. Umsóknin sem nú er í gangi snýst um það að þjóðin geti gert upp hug sinn um framhaldið – Viljum við halda áfram að fá lög og reglur í póstinum eða viljum við sitja við það borð þar sem þessi lög eru saminn?

Nýlega birtu samtök ungra bænda auglýsingu sem var skreytt með mynd af bandarískum Hummerjeppa. Texti var um þá afstöðu ungu bændanna að þeir gætu ekki hugsað sér að afkomendur þeirra þjónuðu í her ESB. Hér birtist enn eitt ruglið sem einkennir áróður ESB andstæðinga, íslenskur her er ekki til og ekki á dagskrá að stofna slíkan.

Áður hef ég bloggað um skoðanir Styrmir Gunnarssona fyrrv. ritstjóra Moggans.

Þessi dæmi um ómerkilegann áróður byggir á því að Íslendingar glati frelsi sínu og fullveldi gangi þeir til samstarfs við aðrar fullvalda þjóðir ESB. Óttinn við upplýsta ákvörðunartöku þjóðarinnar er svo fullkomlega í stíl við ómerkileg áróðursbrögðin.


mbl.is Óþarfi að sundra flokksmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„ESB er friðarsamtök“

StyrmirStyrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, er harður andstæðingur aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Skoðanir sínar birtir hann m.a. í viðtali í Grapevine og þar segir hann að „ESB er friðarsamtök“ (Peace-keeping organisation). Hann segist ekki andvígur bandalaginu sjálfu „The EU is a wonderful and noble idea“ segir Styrmir. Að hans mati gegnir ESB sínu hlutverki fyrir þær þjóðir sem þurfa á friðagæslu þess að halda.

Hér vísar hann í sögu Evrópu sem löngum bauð sínum íbúum upp á stríðsátök og eyðileggingu. Styrmir segir síðan að þar sem Ísland hafi ekki verið þátttakandi í stríðum á meginlandi Evrópu þá hafi þetta ekkert með okkar hagsmuni að gera („has nothing to do with us“).

Sjálfur er ég fæddur í desember 1945, eftir síðustu stórstyrjöld og er því ekki með persónulega reynslu af því stríði. En fólk sem lifði þá tíma segir að það hafi verið grimmt og teygt anga sína víða.

Ýmsar heimildir sýna að stríðið 39 – 45 hafi haft viðkomu hér, landið var hernumið og allt um kring geysuðu orrustur kafbáta og herskipa. Og fjölmargir Íslendingar týndu lífinu sínu á ísköldu Atlantshafinu.  En Styrmir einfaldar sér málið og telur að þar sem íslenskir hermenn hafi aldrei („never“) tekið þátt í beinum stríðsátökum þá komi okkur ESB ekkert við.

Ritstjórinn fyrrverandi heitir Styrmir Gunnarsson. Styrmir þýðir „sá sem stormar fram“ og Gunnar þýðir „stríðsmaður, bardagamaður“. Hið forna íslenska nafn hans er tilvísun í fyrri tíð þegar íslendingar fóru í víking og stormuðu fram og til baka um alla Evrópu sem stríðsmenn - löngu fyrir daga ESB.

Mín niðurstaða er sú að vangaveltur Storms Stríðsmannssonar um ESB eru tóm vitleysa og standast ekki nánari skoðun. Aðrar hugmyndir hans um ESB sem hafa m.a. birst á vefnum AMX eru einnig skrítnar en verða ekki til umfjöllunar að sinni.


Á vitlausum tíma

NetanjahúuEins og glæpamenn vita þá getur tímasetning glæpsins skipt sköpum um árangurinn.  Íslenskir glæpamenn nýta sér myrkrið til innbrota og annarra ofbeldisverka.

Ríkisstjórnin sem stjórnar Ísrael er vel með á nótunum og reynir að fylgja þessari reglu þjófa og misyndismanna. Frægt er þegar ákvörðun um byggingu nýrra landaránsbyggða í Jerúsalem bar uppá sama tíma og heimsókn Biden varaforseta Bandaríkjanna til  Ísrael. Netanyahu forsætisráðherra skammaði viðkomandi embættismenn vegna þessa og benti á hversu óheppilegt þetta væri – ekki vegna þess að verknaðurinn (að stela landi Palestínumanna) væri rangur. Menn verða bara að passa að tímasetningin sé rétt.

Nú er Barak varnarmálaráðherra fúll út í borgarstjórann í Jerúsalem vegna ákvörðunar um niðurrif 22ja húsa í eigu Jerúsalembúa (það þarf væntanlega ekki að taka það fram að húseigendurnir eru arabar). Barak sagði að „ yfirvöld skipulagsmála í Jerúsalem hafi sýnt skort á almennri skynsemi og tilfinningu fyrir réttum tímasetningum (sense of timing) – og það ekki í fyrsta skipti“ (Haaretz 22.06.10).

Aftur voru það bandarísk stjórnvöld sem voru óánægð með tímasetninguna, einmitt núna eru að fara í ganga mikilvægar samningalotur um frið milli Ísraela og Palestínumanna og þá geta svona illa tímasettar ákvarðanir spillt öllu sjónarspilinu. 

Það er augljóst að það er erfitt að eiga glæpamenn sem bestu vini og reyna að kynna þá fyrir umheiminum sem sómafólk. Glæpamenn eiga fremur erfitt með að fela sitt rétta eðli og þegar besti vinurinn gefur þeim byssu þá er alltaf hætta á að skot hlaupi úr kjaftinum – á vitlausum tíma.


Til hamingju Ísland

UnnurÞetta þokast - erkiafturhaldið tekur nokkur brjálæðisköst og blæs í lúðra. En skynsemin hefur yfirhöndina að lokum.
mbl.is Blásum í herlúðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök og andvaraleysi skal það heita

FramsóknÍ frétt á Mbl.is um miðstjórnarfund Framsóknarflokksins er skrifað: „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í ræðu á miðstjórnarfundi í dag, að flokkurinn bæði margfalt afsökunar á andvaraleysi og mistökum sem gerð voru í aðdraganda bankahrunsins.“

Það skal ekki lasta það þegar menn og flokkar reyna að bæta ráð sitt og stíga af vegi villu og vondra stefnumála. En undirritaður leyfir sér að skoða afsökunarbeiðni Framsóknarflokksins með fyrirvara í ljósi þess sem á undan er gengið.

„Andvaraleysi og mistök“ heitir það núna. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar sýnir okkur heim spillingar, valdhroka, vanhæfni og græðgi. Þáttur Finns Ingólfssonar fellur seint undir „mistök og andvaraleysi“. Starf Halldórs Ásgrímssonar og alls þingflokksins í kvótamálinu, stóriðjustefnunni og Íraksmálinu sýna ekki andvaraleysi, nær væri að tala um einbeittan vilja til þess að þjóna auðvaldinu.

Sigmundur Davíð sagði: „að Framsóknarflokkinn hafði fyrstur flokka viðurkennt mistök, hann hafi fyrstur flokka ráðist í endurnýjun og endurskoðun innávið en ný flokksforysta var kosin á flokksþingi fyrir fimmtán mánuðum.“                                                                                                                      Þetta á sjálfsagt að telja flokknum til tekna.

Hér staldra ég við og spyr: Hvaða máli skiptir það hvort flokkurinn var fyrstur að viðurkenna mistök og hefja endurskoðun? Ég sé ekkert gildi í því í hvaða röð menn ganga fram og viðurkenna mistök og yfirsjónir. Það sem skiptir máli er hversu raunverulegt uppgjörið er og hvernig því er framfylgt.

Hvernig fór endurnýjunin fram? Hver flokksformaðurinn og ráðherrann af öðrum flúði af stóli. Listinn er langur, allir stukku frá borði þegar skútan stóð á skerinu – að kalla þetta forystuhrun „endurnýjun og endurskoðun“ er blekking. Mbl.is skrifar ennfremur: „Sigmundur Davíð sagði einkavæðingu bankanna eina ekki skýra hrunið en skortur á gagnrýnni hugsun væri meginorsök hrunsins.“ Ég er sammála þeirri niðurstöðu að skorturinn á gagnrýnni hugsun vegi þungt í villuráfi íslensku þjóðarinnar – en megin orsakir hrunsins er starf og stefna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem stýrðu skipulagðri spillingunni. Einkavinavæðing bankanna var aðeins brot af þeirri vegferð.


Ábyrgð kjósenda

falkinnSkýrslan sem rannsóknarnefnd þingsins hefur birt þjóðinni afhjúpar þá staðreynd að íslenska ríkið hefur í áratugi verið í höndum klíkuhópa sem skorti siðferðisvitund og lýðræðisleg viðhorf.

Þótt fólkið í klíkunum hafi gengið undir feluheitinu stjórnmálamenn þá hefur það sýnt sig vera algjörlega vanhæft til þeirra stjórnarstarfa sem þau voru kosin til. 

Já - kosin af fólki sem nýtti sín réttindi til þess að hafa áhrif á stjórn landsins. Kjósendur sem víluðu ekki fyrir sér að senda dæmda glæpamenn á þing!

Árið 2007 bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig þremur þingsætum!  Hvers vegna kaus þjóðin yfir sig fleiri eintök af þessu bandalagi spillingar og vanhæfni? 

Og nú þegar allt er skráð og komið til skila þá gengur enginn þeirra sem mesta ábyrgð bera fram og sýnir hinn minnsta vott af auðmýkt og skilningi á eigin gerðum!. Og skoðanakannanir sýna nú að einn þriðji kjósenda hefur ekki skilning á þeim örlögum sem þeir kusu yfir sig.

Hvað þarf margar skýrslur og mörg efnahagshrun til þess að kjósendur græðgispredikaranna skilji afleiðingar gjörða sinna? 

 

 


Friðarfarsinn

Bjarni BenEnn er hið svokallaða friðarferli fyrir botni Miðjarðarhafs í hættu.

Ég held að það hafi alltaf verið í hættu. Aðalhættan sem að því hefur steðjað er sú að almenningur sjái að þetta er bara blekking. Þetta er ekki friðarferli.

Eina „ferlið“ sem er í gangi er síaukið landarán og fleiri morð Ísrealska hersins á innikróuðum Palestínumönnum.

Nú þykist Bandaríkjastjórn vera voða móðguð út í ráðamenn í Ísrael. Hversvegna?

Vegna þess að þeir tilkynntu enn eina útþenslu ólöglegra landræningjabyggða þegar Biden varaforset BNA var á svæðinu í þeim tilgangi að koma „friðarferlinu“ úr sporunum.

Það þótti ekki heppilegt og Ísraela eru í voða vondum málum - og „friðarferlið“ í uppnámi!

Nú er þetta ekki í fyrsta sinn sem Ísraelar ræna meira landi og byggja ólöglega -og alls ekki það síðasta.

Vandamálið virðist þá vera það að þeir tilkynntu áform sín á vitlausum tíma. Þetta var sem sagt tímaskekkja!

En eins og Bjarni Ben formaður sagði eitt sinn: „Það verður að taka tillit til þarfa Ísraelsmanna“. Kanski er mesta þörfin samt sú að þeir fái einu sinni að kenna á reiði umheimsins í stað stöðugrar eftirgjafar gagnvart ríki sem virðir enga samninga um mannréttindi en fær samt að taka þátt í Evróvisíon og Evrópumótinu í fótbolta.

Er það ekki hin raunverulega tímaskekkja?


Dani í háskaför á „hálendi“ Íslands!

Jan I IslandRÚV sýndi tvo þætti þar sem danski ljósmyndarinn Jan Tandrup þóttist fara mikla svaðilför yfir þvert Ísland.

Þvílíkt bull!

Jan Tandrup þvældist um Vestmannaeyjar, Vestfirði og hringveginn ef dæma má af myndefninu - en yfir hálendið fór hann ekki.

 

Þessi þáttur var svo fáránlegur að hann sló yfir í algjört grín - þótt höfundurinn reyndi að gera allt voða dularfullt og hættulegt.

Hættuleg á framundan!! Reyndist vera spræna sem náði ekki upp á felgu! Samkvæmt frásögn Jans var þetta í annað sinn sem hann heimsótti landið og í fyrra skiptið var þessi lækjarspræna svo grimm að hann varð frá að hverfa!

Maðurinn veit ekkert um hálendisferðir - þvældist um einn, svaf undir berum himni og keyrði auk þess utan vega. Sem betur fór var hann allan tíman í byggð eftir því sem best verður séð af myndum hans.

Hvað er dagskrárstjórn Sjónvarpsins að hugsa þegar þjóðinni er boðin svona vitleysa? 

Hefur enginn á RÚV farið upp fyrir Elliðaár eða var þátturinn ekki skoðaður áður en hann fór í útsendingu?? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband