Enn og aftur - Framsókn ræður för

Sigm. DavíðViðsemjendur Íslendinga í Icesave málinu hafa sett það sem skilyrði að pólitísk samstaða náist um málið meðal íslenskra stjórnmálaflokka um þær lausnir sem er verið að leita að.

Nýjasta tilboð Breta og Hollendinga er ekki Sigmundi Davíð formanni Framsóknar að skapi og því er engin pólitísk samstaða í uppsiglingu. Formaður Framsóknarflokksins er þar af leiðandi orðinn handahafi þess valds sem forsetinn tók af ríkisstjórninni og Alþingi með sinni frægu neitun á staðfestingu laganna sem þingið samþykkti.

Forsetinn vísaði til undirskriftasöfnunar sem InDefence hópurinn stóð fyrir, en einn af stofnendum hans er fyrrnefndur Sigmundur Davíð. Sigmundur er þannig höfundur þessa ástands og hefur ríkisstjórnina í gislíngu þar sem lausn Icesave málsins er forsenda allra þeirra áætlana um endurreisn sem unnið er að.

Sigmundur sagði í fréttaviðtali að nú væri næst að fara í þjóðaratkvæðagreiðsluna og losa okkur við gömlu samningana. Hann veit vel að það eina sem stendur til boða umfram gömlu samningana af hálfu Breta og Hollendinga eru breytt vaxtaákvæði. Og það samþykkir hann ekki.

Þjóðin greiðir síðan atkvæði og virðist í vanmætti sínum og skynsemisskorti ætla að fylgja stefnu Sigmundar Davíðs. Á meðan versna öll skilyrði íslenska þjóðríkisins, viðskiptafjötrar herðast og pólitískur skollaleikur grefur undan lýðræði og samstillingu.

Sami Sigmundur Davíð hefur nú opinberað sig sem andstæðing frjálsra skoðanaskipta og tjáningar.

Af öllu þessu verður það skýrara með hverjum deginum að helsta vandamál íslenskra endurreisnar hefur nafn og kennitölu. Nafnið er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Heimsmynd þessa manns virðist mótuð af reynsluleysi með blöndu af hroka.

Vond er staða Íslendinga – enn og aftur er Framsókn komin í lykilstöðu þótt fáir kjósi þá til þess.


Heildarmyndin

david bjorgolfur geirHin harða og ofsafengna barátta stjórnarandstöðunnar gegn lausn Icesave málsins virðist ætla að enda í ákvöðrun um vaxtaprósentu. Digurbarkarnir hafa úthrópað ríkisstjórnina og fundið henni allt til foráttu og ruglukollarnir á Útvarpi Sögu og á Alþingi aldrei sparað brigsl um landráð og þjónkun við „óvininn“. Þvælan náði hvað hæstum hæðum þegar stundatöfluþingmaður Framsóknar, Vigdís Hauksdóttir, settist í hljóðstofu Útvarps Sögu við hlið Arnþrúðar og Péturs lögmanns í nýliðinni viku. Sá þáttur verður trúlega notaður sem kennsluefni í félagsvísindadeildum háskólanna um allt land.

En nú skal þetta allt enda í viðræðum um vaxtaprósentu – eftir 15 mánaða orrahríð.

Lítum nú á heildarmyndina, allt sviðið og öflin sem leika sér að fjöreggi þjóðarinnar. Allir vita hvaða flokkar leiddu þjóðina þegar stærsti þjófnaður lýðveldissögunnar, kvótagjöfin, var samþykkt á þingi. Allir vita hverjir komu okkur í þá aðstöðu að styðja ólöglegt stríð og allir vita hvaða tveir menn tóku bankana úr eigu þjóðarinnar og afhentu þá sérstökum vildarvinum með frægum árangri.

Hvað er það sem kemur þessum aðilum og stuðningsmönnum þeirra og arftökum best?

Að fyrstu vinstristjórninni sem sest á valdastóla takist vel upp og vinni það afrek að endurreisa landið úr rústinni sem ævintýri Eimreiðarhópsins endaði í?

Að núverandi ríkisstjórn haldi völdum og fái vinnufrið til þess að mál verði upplýst – allt ferlið – bæði það sem fór fram fyrir opnum tjöldum og það sem var hulið almenningi á tímum græðisvæðingarinnar.

Nei – þvert á móti. Það hentar þessum hrunaflokkum best að ríkisstjórnin sé undir stöðugri skothríð og vinnufriður lítill. Allt er gert tortryggilegt – meira að segja ferð forsætisráðherra til Brussel verður tilefni til upphrópana og þvælu.

Og hér kemur Icesavemálið eins og pöntuð himnasending. Mál sem á uppruna sinn hjá mönnunum sem fengu banka gefins og störfuðu í skjóli pólitískrar lömunar sem réði hjá eftirlitsaðilum og stofnunum undir stjórn flokkshollra manna.

Icesave upphæðin er ekki hið stóra vandamál, hún er hluti af miklu stærra vandamáli. En þetta mál hentar til þess að æsa upp lýðinn og hentaði forsetanum sem var kominn í skammarkrókinn til að gera kommbakk áratugarins.

Og svo gengur þjóðin til atkvæðagreiðslu og fellir samninginn eins og stjórnarandstaðan (bæði utan og innan stjórnarliðsins) vill. Það verður engin skemmtiganga niður Laugaveginn eða þjóðhátíð á Þingvöllum þegar þjóðin hefur kosið yfir sig ný vandamál. Það verður kanski litið í glas og skálað hjá auðmönnunum sem stýra þessum tveimur flokkum. Formennirnir geta þá skýrt hinum raunverulegu valdhöfum flokkanna frá góðum árangri – þeir hafa náð að fífla þjóðina.

Öðru sinni mun þjóðin fá að súpa seyðið af stefnunni sem botnar í sérgæskunni og gróðafíkninni. Félagshyggjufólk verður aftur að taka við þá erfiðu vinnu að koma hér á skikkanlegu þjóðfélagi – nýju Íslandi. Kanski mun það ganga betur eftir aðra kollsteypu – en dýrara verður það fyrir þessa fámennu þjóð.


Íslensk kvikmyndagerð á höggstokknum

Klapptre

Stundum gerast atburðir sem erfitt er að útskýra þótt þeir séu ekki flokkaðir sem yfirnáttúrulegir. Nú standa íslenskir kvikmyndagerðarmenn frammi fyrir atburðum sem illa gengur að útskýra með eðlilegri rökhugsun.

Það sem gerst hefur er að ráðamenn ríkisfjármála og yfirmenn Sjónvarpsins hafa ákveðið að leggja íslenska kvikmyndagerð í rúst!

Fjárfesting ríkisins í kvikmyndagerð hefur verið skorin niður um 35% á sama tíma og ýmsar aðrar greinar á menningarsviðinu sleppa með niðurskurð sem nemur 3- 10%. Og stjórnandi Sjónvarpsins lýsir því svo yfir að RÚV kaupi ekki íslenskar kvikmyndir og minnki stórlega kaup á heimildamyndum og sjónvarpsþáttum frá íslenskum framleiðendum. Eðlilegast hefði verið að hann hefði sagt af sér í kjölfar yfirlýsingarinnar, slíkar eru afleiðingar þessarar ákvörðunar.

 Í hnotskurn er málið þannig að kaup RÚV á íslenskum kvikmyndum er forsenda þess að framleiðendur þeirra geta sótt fé til annarra aðila. Kvikmyndamiðstöð Íslands fjárfestir ekki í kvikmyndaverkefnum sem verða ekki sýnd opinberlega, það er bannað samkvæmt reglugerð og það sama gildir um alla sjóði og stofnanir sem fjárfesta í kvikmyndum í nálægum löndum. Með ákvörðun yfirmanna Sjónvarpsins er því verið að ákveða að íslenskir kvikmyndagerðarmenn hætti að framleiða heimildamyndir, leiknar sjónvarpsseríur og stuttmyndir. Framleiðendur bíómynda hafa tekjur af sýningum í kvikmyndahúsum en fjármagna verkin einnig að hluta með sölu til RÚV. Og þar sem það hefur sýnt sig að auglýsingasala Sjónvarpsins gengur betur þegar íslenskt gæðaefni er á skjánum þá mun draga úr framleiðslu sjónvarpsauglýsinga. Og þar með dragast enn frekar saman möguleikar kvikmyndagerðarmanna til þess að vinna fyrir salti í grautinn.

Baksvið þess að Sjónvarpið hyggst fara þessa leið er að ríkisvaldið hefur lagt á nefskatt sem kemur í stað áskriftagjalda Ríkisútvarpsins. Hluti þessa skatts hefur nú verið tekinn og ráðstafað í önnur verkefni. Það má því segja að þingmenn og ráðherrar sem standa að niðurskurði framlaga til Kvikmyndamiðstöðvar bæti gráu ofan á svart með því að skerða möguleika RÚV til þess að kaupa og sýna íslensk kvikmyndaverk. En það hlýtur einnig að vekja eftirtekt og umhugsun að forráðamenn Sjónvarpsins skuli reiða til höggs gegn innlendu menningarefni og listum.

Kvikmyndagerðarmenn vissu að niðurskurður yrði óhjákvæmilegur. En þeir töldu í einfeldni sinni að sanngirni og jafnræði réði för hjá ríkisvaldinu.  En niðurstaða fjárlaga og ákvörðun yfirmanna RÚV sýnir að þau sjónarmið hafa ekki verið ráðandi í þeirri aðför að kvikmyndagerð sem er nú staðreynd.

Það mun líða nokkur tími áður en Íslenskir áhorfendur munu sjá afleiðingar þess að kvikmyndagerð á Íslandi er leidd á höggstokkinn árið 2010. Ferlið verður með þeim hætti að þær myndir sem eru í framleiðslu klárast en nánast ómögulegt verður að hefjast handa við ný kvikmyndaverk. Kvikmyndasjóður hefur, eftir niðurskurðinn, 450 milljónir til úthlutunar. En eftir að RÚV hættir að kaupa verk þá getur nánast enginn kvikmyndaframleiðandi fjármagnað verk án uppáskriftar frá RÚV og því munu peningar kvikmyndasjóðs ekki nýtast til framleiðslu kvikmyndaverka.

Eftir 2 -3 ár verður framboð á íslenskum kvikmyndaverkum fátæklegt. Leiknar þáttaraðir munu eingöngu vera framleiddar og sýndar vegna öflugrar starfsemi Stöðvar 2. Stöð 2 og Skjár 1 kaupa ekki íslenskar heimildamyndir frekar en RÚV skv. ákvörðun sjónvarpsstjórans. Það getur aðeins þýtt að íslendingar sjá ekki íslenskar heimildamyndir – því þær verða ekki framleiddar. Bíómyndir verða færri og flest fólk á landsbyggðinni mun ekki sjá þær.

Fyrir hverja krónu sem ríkið hefur fjárfest í kvikmyndagerð hafa 3 - 4 krónur ratað í ríkiskassann og kvikmyndagerð dregur að töluverðan erlendan gjaldeyri. Vegna aðgerðanna gegn kvikmyndaiðnaðinum mun fjöldi kvikmyndagerðarfólks bætast á atvinnuleysisskrá, ríkið verður af skatttekjum og þarf einnig að greiða atvinnuleysisbætur. Þessa hlið málsins ætla ég ekki að ræða hér og ekki heldur menningarlegt gildi góðra kvikmynda. Það hefur sýnt sig að ráðamenn skilja ekki þau rök sem við höfum lagt fram á fjölmörgum fundum með ráðherrum og nefndum Alþingis að undanförnu.

Þjóðir sem verða fyrir áföllum verða að grípa til allra tiltækra ráða til að endurreisa samfélagið. Gildir það jafnt um áföll af völdum náttúrunnar eða aðgerða mannanna líkt og Hrunið sem Íslendingar þekkja nú af eigin raun.

Endurreisn íslenska samfélagsins er og verður erfið og ekki án átaka. Það mun svíða undan ýmsum aðgerðum sem verður að ráðast í og það munu heyrast raddir sem andmæla mörgu sem er byrjað á og ýmsu sem er framundan.

En þegar ráðamenn grípa til slíkra heimskuráða og hér sýna sig þá dregur úr trú almennings á framsýni þeirra og þekkingu.

 


Þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir byrjendur

KosningStjórnmálaöflin á Íslandi standa frammi fyrir þeirri staðreynd að innan skamms á þjóðin að greiða atkvæði í svonefndri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við erum byrjendur, Íslendingar hafa ekki gengið til slíkra kosninga í rúm 65 ár.  Þrátt fyrir nokkuð skýr ákvæði í stjórnarskrá um afleiðingar þess þegar forsetinn skýtur máli til þjóðarinnar þá var þingið með allt niðurum sig og það voru ekki einu sinni til lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. Margt bendir til þess að hluti stjórnmálaaflanna kæri sig ekki um að þjóðin taki þetta merkilega skref.

Málið sem við kjósum um er ekki heppilegt mál fyrir byrjendur í þjóðaratkvæðagreiðslum. Það eru ekki augljósir kostir í stöðunni og í raun ekki hægt að segja fyrir um hvert niðurstaðan leiðir okkur.

Jái-ð er skýrari kostur þótt ekki sé hægt að átta sig á öllu sem framtíðin ber í skauti sér. Nei-ið er verri kostur ef menn vilja greiða atkvæði sem leiðir til niðurstöðu. Ef engar viðræður við viðsemjendur í Icesave málinu hafa átt sér stað fyrir atkvæðagreiðsluna þá er fullkomlega óvíst hvert leiðir okkar liggja ef samningurinn er felldur.

Hér eru staðreyndir málsins:

Ísland er þátttakandi í milliríkjasamstarfi sem m.a. leyfir frjálsan flutning vöru, atvinnustarfsemi, fjármagns og búsetu milli landanna sem eru aðilar samkomulagsins (EES).

Þegar menn hafa réttindi þá fylgja því jafnframt skyldur. Það er því skylda samningsaðilanna að tryggja að í hverju landi sé öryggisnet fyrir starfsemina og fólkið sem flyst á milli landanna. Til dæmis þá gilda atvinnuleysistryggingar fyrir Pólverja sem hér starfa, annað væri tóm vitleysa.

Og reglur gilda um bankastarfsemi sbr. reglugerð um tryggingasjóði innistæðueigenda. Hérlendis eru menn að rífast um það hvort ríkið sé laust allra mála ef það hefur séð um að slíkur sjóður sé til staðar, burtséð frá því hvernig viðkomandi ríki stendur að allri umgjörð og eftirliti með starfseminni. Það mætti ætla af málflutning sumra að það nægði að hafa eina krónu í þessum tryggingasjóð og þá séu skilyrðin uppfyllt.

Andstæðingar Icesave samningsins, nei-sinnar, bera fyrir sig tvenn meginrök sem eiga ekkert sameiginlegt. Annarsvegar bera menn á borð lagaflækjur og túlkanir sem eiga að sýna að ekkert skuli greitt umfram það sem er í sjóðnum og fæst fyrir sölu þrotabús Landsbankans. Ekkert tillit skuli taka til tiltekinnar lágmarksgreiðslu sem nú nemur um 20,000 evrum.

Hinsvegar segja menn að Ísland geti ekki borgað og því sé tilgangslaust að semja um málið nema þannig að Ísland beri nánast engar byrðar af þeim samningi.

Bæði þessi sjónarmið fá stuðning frá innlendum og erlendum skríbentum, leikmönnum og lærðum fræðingum á ýmsum sviðum.

Ríkisstjórnin fylgir þeirri stefnu að besti kosturinn sé samþykkt samningsins með þeim fyrirvörum sem í honum eru. Þá muni skapast aðstæður til þess að halda áfram nauðsynlegri endurreisn og meiri sátt skapast gagnvart viðsemjendum og lánadrottnum. Falli samningurinn telja menn að harðna muni á dalnum, samskipti versna og mikill kostnaður falla á þjóðina í formi hærri vaxta, hertum skilyrðum í öllum viðskiptum landsins við útlönd og uppnámi endurreisnaráætlunarinnar sem unnin er með stuðningi AGS.

Þessi útlistun á afleiðingum þess að þjóðin segir nei er kallaður hræðsluáróður.  Margir andstæðingar samningsins, þ.á.m. Sigmundur Davíð, taka bakföll af reiði og hneysklun vegna „hræðsluáróðursins“. Sigmundur Davíð gengur reyndar svo langt að hann segir ríkisstjórnina beinlínis betla hrakspár og svartnættisyfirlýsingar frá erlendum aðilum til að hræða þjóðina til hlýðni. 

Það er snúið að andmæla málflutningi flokksformannsins.  Þetta „snilldarbragð“ hans dugar þó ekki gagnvart stjórnendum fyrirtækja sem stunda milliríkjaviðskipti. Nú verða þeir að staðgreiða vörur - Ísland er rúið öllu lánstrausti og verður áfram um sinn.

 


Lýðskrum í vikulokin

Guðni ÁÞað verður að teljast hið einkennilegasta mál að þeir sem hæst hrópa gegn Icesave samningum ráðast sífellt gegn ríkisstjórninni. Stjórninni sem vinnur hörðum höndum að því að lágmarka skaðann sem hún tók í arf frá þeim sem stofnuðu til málsins.

Þessari hegðun má líkja við hegðun íbúðareiganda sem ræðst gegn slökkviliðinu sem reynir að bjarga húsi hans - í stað þess að vera til friðs. Og til þess að fylla upp í myndina þá standa brennuvargarnir álengdar og kasta grjóti í slökkviliðið og húseigendurnir telja sér trú um að þetta séu vinveittir aðilar sem reyna að hjálpa. Furðuleg ástand, en því miður raunveruleikinn sjálfur.

Eins og margoft hefur verið staðfest þá er þing og stjórn sammála um að Íslendingar verða að standa við samninga og greiða upp Icesavetjónið, þ.e. það sem eftir stendur þegar búið er að selja eignir þrotabúsins og Englendingar og Hollendingar búnir að borga um helming.

Samt sem áður eru menn sífellt að halda því fram að okkur beri ekki að greiða neitt. Guðni Ágústsson er einn þeirra og sagði í þættinum Í vikulokin á Rás 1 að svo væri – krafan um greiðslu okkar hluta er kúgun skv. fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins.

Íslendingum er dálítil vorkunn, þeir eiga stjórnmálamenn, bæði núverandi og fyrrverandi, sem eru dæmalausir tækifærissinnar og lýðskrumarar. Þjóð sem getur gengið til frjálsra kosninga ber vissulega ábyrgð á því þar sem hún á valið.

En það er með val á stjórnmálamönnum eins og seðlabankastjórum og forsetum, menn verða að vanda sig.


ICESAVE fyrir byrjendur

ICESAVEÞað eru skiptar skoðanir um nánast allt sem snertir deiluna um Icesave. Eina sem menn eru sammála um, að því að virðist, er sú staðreynd að þetta er hábölvað mál fyrir þjóðina.

 

Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar er vert að skoða helstu víglínur og áhersluatriði.

Það má í stórum dráttum skipta þjóðinni í 3 hópa;

A) þeir sem vilja samþykkja lögin eins og þau eru,

B) þeir sem vilja hafna þeim og fá betri skilmála,

C) þeir sem útiloka allar greiðslur og ábyrgð á „skuldum einkafyrirtækja og óreiðumanna“.

Í A-hóp er fólkið sem telur að málið sé þegar búið að valda miklu tjóni og frekari dráttur á afgreiðslu sé skaðlegur. Í A hóp eru m.a. þeir sem vilja ganga í ESB og gera sér góða grein fyrir mikilvægi góðra tengsla við umheiminn.

B hópinn skipa þeir sem telja að Íslendingar muni ekki ráða við þær byrðar sem Icesave leggur á landann. Þar eru einnig stjórnarandstæðingar sem sjá þarna tækifæri til að valda usla í stjórnarliðinu og hindra nálgun við ESB. Forystumenn stjórnarandstöðunnar flakka þó á milli og taka oft undir málflutning C hóps.

C flokkinn skipa þeir sem ganga lengst í andstöðunni, þar eru öfgasinnar sem elska sundrungu og upphlaup. Þeir sem mæla gegn þeirra málflutningi eru kallaðir „landráðamenn“ og erlendir viðsemjendur okkar nefndir nýlendukúgarar. Þessi hópur á sínar andlegu höfuðstöðvar á Útvarpi Sögu. Hluti Sjálfstæðismanna er í þessum hópi og fer þar fremstur ritstjórinn á sprungusvæðinu við Rauðavatn. Nokkrir framsóknarmenn eru með annan fótinn í þessum hópi og þar er áberandi Höskuldur Þórhallsson.

Margir leikmenn hafa brugðið sér í lögfræðipælingar og rýnt í texta og skjöl til að finna rök fyrir sinni afstöðu. Tilskipun ESB 94/19/EC varðandi tryggingakerfi innistæðueigenda er grandskoðuð og komast menn að margvíslegum niðurstöðum. Íslendingar hafa tekið upp reglugerðir ESB í gegnum EES og hófu mikla útrás í krafti samningsins. En svo þegar babb kemur í bátinn þá fara menn að rýna textana til þess að finna reglugerðargötin og reyna að skríða út um þau.

Öllum er þó hollast að skoða málið út frá sjálfum kjarna málsins; sjónarmiði sparifjáreigandans. Það skiptir ekki máli í hvaða landi menn búa, sparifjáreigandinn er aðalmaðurinn í þessu máli. Það er hann sem hefur treyst bönkum og sjóðum fyrir sínum sparnaði og það er lykilatriði fyrir fjármálastofnanir að þannig sé um hnútana búið að sparifé sé tryggt eins og kostur er. Íslendingar eru að vísu ekki jafn duglegir og flestar Evrópuþjóðir að spara. Þeir hafa yfirleitt hinn háttinn á, að eyða fyrirfram eða „spara eftirá“. Þessi staðreynd kann að eiga þátt í því hvernig um málið er fjallað hér á landi.

Landsbankinn opnaði Icesave reikninga í tveimur löndum og féð streymdi inn. Þetta var slíkt „snjallræði“ að búið var að leggja á ráðin um samskonar starfsemi í 11 löndum á EES svæðinu. Allt í krafti þess að Ísland var aðili að EES og naut því þess sem nefnist fjórfrelsið: þ.á.m. frjáls flutningur fjár milli landa innan EES. Baktrygging sparifjáreigenda er fyrrnefnd tilskipun 94/19 um tryggingasjóð sem veitir tiltekna lágmarksvernd. Hér heima lögðu bankar 1% af meðaltali innstæðna í sjóðinn og nam eign hans við hrun um 15 milljörðum króna, en kröfurnar í hann eru nokkur hundruð milljarða króna. Af þessu er ljóst að sparifjáreigendur áttu enga möguleika á að endurheimta sitt fé nema með víðtækari trygginum, jafnvel þótt aðeins einn íslenskur banki hefði hrunið hvað þá allir þrír sem störfuðu víðar en hér á landi Sem betur fór var það eingöngu Landsbankinn sem rak starfsemina í formi útibús, Kaupþing stofnaði dótturfyrirtæki og var þar með komið með vernd erlendra tryggingasjóða fyrir sína viðskiptavini.

Þeir sem hafa tapað mestu á útlánum til íslensku kapitalistanna sem nýttu sér hið góða nafn Íslands eru erlendir bankar. Þar er um að ræða slíkar upphæðir að eftirstöðvar Icesave er hrein skiptimynt í því samhengi. Þessar stofnanir, þ.á.m. stórir bankar á meginlandi Evrópu, hafa mikil áhrif í fjármálaheiminum og ná tengsl þeirra að sjálfsögðu til þinga og ríkisstjórna í viðkomandi löndum.

Bankarnir og sparifjáreigendur í Evrópu meta frammistöðu Íslendinga í Icesavemálinu í ljósi reynslunnar. Þess vegna mun niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni hafa mikil áhrif á framtíðagengi okkar í milliríkjaviðskiptum.

Hér heima eru aðilar sem fagna, líkt og marki í handboltalandsleik, hverjum dálksentrimetra í erlendri pressu sem samsinnir því að Íslendingar séu svo fáir og smáir að þeir geta ekki hreinsað upp eftir veisluna miklu. Formaður Framsóknarflokksins hefur gjarnan stillt málinu upp sem kynningarvandamáli ræðst á ríkisstjórnina fyrir lélega kynningu á málstað Íslands. Hann var einn af stofnendum InDefencehópsins, en sá PR- hópur var einmitt myndaður til þess að sýna Bretum fram á að Íslendingar séu ekki hryðjuverkamenn.

En „Íslandsvinirnir“ sem sýna samúð hafa lítil áhrif samanborið við bankana og sparifjáreigendurna sem horfðu uppá flottræfislháttinn og grobbið sem fylgdi íslensku „útrásinni“. Frá þeim koma hin varanlegu áhrif á okkar hagsmuni. Þeir munu einnig velta fyrir sér þeirri staðreynd að innistæðueigendur á Íslandi voru tryggðir í krafti neyðarlaganna.

Þetta er sú mynd sem ræður minni afstöðu og mun ég því greiða atkvæði með samþykkt laganna í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu.

(Þeir sem ætla að setja inn athugasemdir á mína bloggsíðu geta sparað stóru upphrópanirnar um landráð ofl. Það er allt púður úr slíku gjammi).


Skemmtileg þjóð

Elskum ÓlaÍ Fréttablaðinu 11. jan. birtist heilsíðuauglýsing þar sem fjórir fisksalar lýsa ást sinni á Ólafi Ragnari Grímssyni forseta. Og heil 67% þjóðarinnar sjá hann nú sem mikinn leiðtoga á erfiðum tímum.

Í febrúar 2009 voru aðeins 31% Íslendinga ánægðir með störf mannsins sem fisksalarnir elska nú að elska. Þá birtust á bloggsíðum stóryrtar yfirlýsingar um forsetann. Hann var úthrópaður vegna þjónkunar við útrásargengið og fyrirlitinn fyrir að fljúga í einkaþotum þeirra.

Hér eru nokkur sýnishorn: „forsetinn tók útrásarbófana fram yfir okkur venjulegu Íslendingana“

„Maðurinn er pólitískur loddari, það er því miður vonum seinna að lýðum varð það ljóst.“

Ég flutti af landi brott þegar þessi loddari var kosin forseti og sór hann af mér í þeim löndum sem ég hef búið í“

„Það var mikið ólán fyrir Ísland þegar þegar þessi gamli póltíkus og strigakjaftur hlaut embættið.“

„Þjóðin er fyrir löngu búin að sjá í gegnum hann“

„Ég er hissa á því að það skulu ekki fleiri vera búnir að átta sig á því tjóni sem Ólafur Ragnar Grímsson er búinn að valda þjóðinni“

Ólafur Ragnar er ekki og verður ekki sameiningartákn þessarar þjóðar – aldrei framar! Hann er fyrir löngu búinn að missa allan trúverðugleika og mun ekki öðlast hann aftur, hvað sem hann reynir“

það er viðbjóður að hugsa til þess að óli grís eigi eftir að heimsækja börnin sem koma til með að erfa landið af okkur“

Fisksalarnir eru ekki þeir einu sem hafa tekið Ólaf Ragnar í sátt - bloggarar eru nú óþreytandi við hástemmdar lýsingar á kostum hinnar nýju þjóðhetju. Íslendingar eru skemmtilegir.

 


Fjarar undan forsetanum

SkoðanakNú sýnir ný skoðanakönnun að 41% þjóðarinnar styður ákvörðun Ólafs Ragnars en 53% eru andvíg.

Þá er farin ein stoðin undan rökstuðningi forsetans þar sem hann miðaði við könnun sem sýndi 70% stuðning.

Túlkun hans á vilja þingsins sem felldi tillögu um þjóðaratkvæði var auðvitað arfavitlaus frá upphafi.

Og þá er aðeins ein röksemd eftir: undirskriftasöfnun InDefence þar sem 25% kjósenda skoraði á hann að vísa málinu til þjóðaratkvæðis (að öllum líkindum). Sú söfnun er eingöngu vísbending þar sem hún var ekki gerð undir eftirliti.  

Könnun Gallups sýnir að stuðningsmenn ákvörðunar forsetans koma fyrst og fremst úr röðum framsóknar- og sjálfstæðismanna og er kanski birtingarmynd þess að þá langar til að losna við stjórnina hvað sem það kostar.

Og nú kemur þingmaður Sjálfstæðisflokksins með útspil um að sleppa þjóðaratkvæðagreiðslunni. Sigri afstaða ríkisstjórnarinnar þá styrkist hún til muna og það er eitur í beinum stjórnarandstöðunnar.

Það virðast því vera góðar líkur á því að málið leysist fyrr en ætla mátti.


mbl.is Meirihluti andvígur ákvörðun forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugeldaslys á Bessastöðum

Flugeldar

Það er alkunna að óvitar fara sér oft að voða við flugeldafikt. Augu og fingur hafa glatast. Nú er mikill áróður rekinn fyrir því að menn noti hlífðargleraugu og er það vel.

Hinsvegar getur annarskonar fikt einnig leitt til stórslysa. Nú hefur bóndinn á Bessastöðum kveikt í einni heljarinnar bombu sem sprakk framan í þjóðina – sem er án hlífðarglerja. En stór hluti hennar var blindur fyrir svo að það kemur ekki að sök hjá öllum.

Nú hefur Davíð „við borgum ekki“ Oddsson fengið sínar draumasýnir uppfylltar. Og Þórhallur Þór Höskuldsson, Noregsfari og fimmtánmínútnaformaður Framsóknar, hefur fengið hluta þjóðarinnar á sitt band. 5. júlí s.l. sagði hann: „Eins og ég hef vikið að fæ ég ekki á nokkurn hátt séð að Íslendingum beri lagaleg, hvað þá siðferðileg, skylda til að greiða Icesave-skuldbindingarnar að kröfu Breta og Hollendinga.“

Indefencehópurinn, sem Sigmundur Davíð stofnaði, er í raun að setja málið í þennan farveg: við berum hvorki lagalegar eða siðferðilega skyldur í samfélagi þjóðanna.

Nú fáum við að heyra á Útvarpi Sögu þá sögu að bölvaðir útlendingarnir kúga okkur áfram með aðstöð Steingríms og Jóhönnu.

Við erum nú sem þjóð dæmd í ruslflokk. Ekki bara á peningasviðinu.  

Væntanleg þjóðaratkvæðagreiðsla mun ekki snúast um neitt þar sem ekkert af því sem kosið er um er í gildi. Þetta verður þjóðaratkvæðagreiðsla til að eyðileggja allar þjóðaratkvæðagreiðslur ef vel tekst til.

Og nú mun Styrmir Gunnarsson, sem boðar hina villtustu einangrunarhyggju, fá áheyrn því þjóðin mun hlusta á „rök“ hans þegar umheimurinn bregst við siðleysi og rugli Íslendinga.

Og þetta er bara byrjunin.


Hver ber ábyrgð?

c documents and settings soleyt4859 desktop xd geir0sal jpgJónas Kristjánsson skrifar á bloggsíðu sína: „05.01.2010

Ég ákæri kjósendur.  Tel kjósendur hafa kosið yfir mig eftirlitslausa frjálshyggju í fjármálum. Tel þá síðan hafa sýnt einbeittan brotavilja. Hafa tugþúsundum saman hvatt forsetann til að hafna lögum um friðsamleg samskipti við útlönd. Hyggjast tugþúsundum saman kjósa Sjálfstæðisflokkinn til valda í næstu kosningum. Tel þá bera ábyrgð á, að næsta ríkisstjórn verður skipuð þeim flokkum, sem ollu hruninu. Tel íslenzka kjósendur fullkomlega ófæra um að reka sjálfstætt þjóðfélag. Fer fram á, að þeir borgi mér tjónið, sem ég verð fyrir vegna heimsku og afneitunar þeirra, vænisýki og þjóðrembu. Ég ákæri kjósendur.“

Jónas er ekki að tala út í bláinn.

Þegar kosningaúrslit 2007 eru skoðuð sést að það voru ekki kjósendur sem sáu við græðgisbullinu og hamsleysinu sem seinna leiddi þjóðina fram af brúninni.  Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig þremur þingmönnum í þeim kosningum. Aðalslagorð Geirs H Haarde í þeirra kosningabaráttu var: Traust efnahagsstjórn.  Framsóknarflokkurinn missti 5 þingmenn og því má segja að aðal gerandinn, Sjálfstæðisflokkurinn, hafi fengið þá viðurkenningu hjá kjósendum að efnahagsstjórnin hafi verið í lagi. Sannleikurinn var annar eins og flestir eiga að vita núna.

Sem sagt: þjóðin gaf kost á framhaldandi stjórn þessara flokka með 32 þingmenn. Hins vegar treystu þeir sér ekki til að stjórna með svo naumum meirihluta því þá gæti hvaða þingmaður sem er sett upp leikrit til að ná einhverjum sérmálum fram.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband