Tvær skýrslur

Bjarni BenÁ þessu ári hafa verið ritaðar tvær viðamiklar skýrslur um Ísrael og framferði Ísraela gegn Palestínumönnum.

Önnur skýrslan, kennd við formann rannsóknarnefndarinnar Richard Goldstone, hefur hlotið töluverða umfjöllum víða um heim og verður innan skamms rædd á þingi Sameinuðu þjóðanna. Goldstone skýrslan fjallar um stríðsglæpi í árásarstríði Ísraela gegn Gazabúum um s.l. jól og áramót.

Hin skýrslan, sem var birt í maí á þessu ári, hefur ekki fengið sömu athygli umheimsins eftir því sem ég best veit. Þessi skýrsla ber heitið Hernám, nýlendustefna og kynþáttastefna og undirtitillinn er Endurmat á framferði Ísraels á hernumdum svæðum í ljósi alþjóðalaga.

Skýrslan er unnin í Suður Afríku á vegum The Human Sciences Research Council (HRSC), en þeirri stofnun var komið á fót 1968 og fæst við rannsóknir í þágu ýmissa aðila um allan heim. Markmið HSRC er að stunda víðtækar rannsóknir á sviði félagsvísinda og opinberrar stefnumótunar.Áhugasamir lesendur geta nálgast skýrsluna á netinu: www.hsrc.ac.za/Document-3230.phtml (samantekt) og www.hsrc.ac.za/Document-3227.phtml (öll skýrslan).  19 sérfræðingar á sviði laga og stjórnmála, frá mörgum þjóðlöndum, tóku þátt í ritun skýrslunnar.

Ótvíræð niðurstaða

Upphaf rannsóknar HRSC á framferði Ísraela má rekja til skýrslu prófessors John Dugard eftirlitsmanns Sameinuðu þjóðanna varðandi mannréttindi á hernumdum svæðum Palestínu.

John Dugard varpaði fram eftirfarandi spurningu í skýrslu sinni: „Það er augljóst að Ísrael hefur hernumið Palestínu. Jafnframt framfylgja þeir hernáminu með nýlendustefnu og kynþáttastefnu (apartheid) sem ganga þvert gegn alþjóðalögum. Hverjar eru lagalegar afleiðingar fyrir stjórnvöldin sem stjórna langdregnu hernámi með aðferðum nýlendustefnu og kynþáttastefnu og hverjar eru lagalegar afleiðingar fyrir hernámsríkið og önnur ríki?“

Starfsmenn HRSC ákváðu að leita svara við spurningum John Dugard með því að rannsaka ítarlega ákvæði alþjóðalaga og kanna framferði Ísraela í ljósi laganna. Eftir 15 mánaða rannsóknir skiluðu sérfræðingarnir rúmlega 300 bls. skýrslu og niðurstaðan var ótvíræð: Ísrael er hernámsveldi sem framfylgir stefnu sinni að hætti nýlenduvelda og stundar kynþáttaaðskilnað og brýtur alþjóðalög sem ná yfir alla þessa þætti.

Öllum ríkjum ber skylda til að vinna gegn framferði Ísraels

Í skýrslunni kemur fram að hernám er ekki ólöglegt skv. alþjóðalögum en aldrei er viðurkennt að það sé ástand sem skuli vara til langframa. Ef hernámsþjóðin nýtir sér landgæði hernuminnar þjóðar og framlengir frelsisskerðingu líkt og Ísrael hefur gert þá stangast það á við alþjóðalög. Fari eitthvert ríki fram með þessum hætti þá leggst sú lagaskylda á önnur ríki að viðurkenna ekki gjörninginn og má undir engum kringumstæðum veita hernámsríkinu stuðning. Ólíkt hernámi þá eru nýlendustefna og kynþáttastefna undir öllum kringumstæðum brot gegn alþjóðalögum.

Skylda annarra ríkja

Í skýrslunni er ritað: „Alþjóðalög varðandi nýlendustefnu og kynþáttastefnu eru ófrávíkjanleg, þau eru viðurkennd af alþjóðasamfélaginu án undanþágu.“ Þar kemur einnig fram að hvert einasta ríki er ábyrgt gagnvart öllum öðrum að ástunda ekki slík brot á alþjóðalögum. Það eru hagsmunir allra ríkja að þessum lögum sé fylgt, þau eru grundvallargildi fyrir öll samskipti ríkja.

Ríki sem standa önnur ríki að því að reka nýlendustefnu og kynþáttastefnu bera þríþættar skyldur; að vinna með öðrum ríkjum til þess að stöðva framferði brotlegs ríkis; að neita að viðurkenna hið ólöglega framferði; og að neita brotlegu ríki um alla aðstoð og stuðning.  Niðurstöður rannsóknar HRSC á alþjóðalögum sýna að bæði Bandaríkin og Evrópusambandið brjóta gegn þessum lögum þegar þessi ríki veita Ísrael margvíslega aðstoð og eiga í samvinnu við hið brotlega ríki á mörgum sviðum.

Íslenskum stjórnvöldum ber að hefja aðgerðir

Ísland er ekki undanskilið alþjóðalögum og ber því sömu skyldur og önnur ríki í þessu máli. Samkvæmt niðurstöðum skýrslu HRSC ber íslenskum yfirvöldum að leggja til við önnur ríki að grípa skuli til aðgerða í þeim tilgangi að stöðva ríkið Ísrael sem beitir aðra þjóð kúgun og framfylgir nýlendustefnu og kynþáttastefnu auk hernáms. Hernámið er ólöglegt m.a. sökum þess að Ísraelar taka sífellt stærra svæði af hernumdu landi til eigin nota, með ólöglegum landtökubyggðum, með byggingu ólöglegs múrs á landi Palestínumanna og yfirtöku vatnsréttinda sem tilheyra öðrum.

Friðarviðræður eru óhugsandi

Niðurstaða skýrslunnar sýnir hversu innantómt allt tal um friðarsamninga á milli Ísraela og Palestínumanna er í raun. Friðarviðræður geta aðeins átt sér stað milli aðila sem ganga til þeirra með það í huga að um eitthvað sé um að semja. En í tilfelli Ísraels er enginn alvara að baki þar sem þeir hafa ekki neina þá stefnu sem getur skilað mönnum í átt til friðar. Það getur aldrei ríkt friður þar sem kúgun er allsráðandi og þar sem hernámsveldi ástundar það leynt og ljóst að ræna landi annars aðilans og framfylgir jafnframt kynþáttastefnu þar sem þjóðir eru flokkaðar sem æðri og lægri.


Árás Bretastjórnar

Jon Sig

Jón Sigurðsson,fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra skrifaði leiðara Fréttablaðsins s.l. fimmtudag undir fyrirsögninni Árás Bretastjórnar.

Jón skrifar m.a.:

Enda þótt ár sé liðið fer því víðs fjarri að áhrifin af tilhæfulausri árás Bretastjórnar á Íslendinga séu farin að minnka. Því fer líka fjarri að upplýst hafi verið til fulls hverjar ástæður Bretastjórn notaði sem yfirskin til þessara aðgerða. Síst af öllu kemur til mála að Íslendingar gleymi þessu tilræði. Þvert á móti eigum við að hafa þetta fólskubragð vel hugfast.

Árás Bretastjórnar var í raun fjórföld. Í fyrsta lagi var ráðist á Landsbanka Íslands og útibú hans. Í öðru lagi var ráðist á aðra íslenska banka. Í þriðja lagi var lagt til atlögu við breska banka og fjármálafyrirtæki í eigu íslenskra fyrirtækja, hvort sem þau tengdust Landsbankanum eða öðrum. Í fjórða lagi réðst Bretastjórn einnig á íslenska fjármálaráðuneytið og þar með beinlínis á Lýðveldið Ísland.“…

 „Enn er engan veginn upplýst um áhrifin sem þetta fjandskaparbragð bresku stjórnarinnar hafði á hrun íslenska fjármálakerfisins. Margt bendir til þess að árásin hafi beinlínis haft úrslitaáhrif á það að breyta erfiðleikum og hruni fjármálafyrirtækja í allsherjar hrun í íslensku fjármálakerfi með skelfilegum afleiðingum fyrir lífskjör almennings hérlendis. Þeir sem gera lítið úr áhrifum árásarinnar telja að minnsta kosti ljóst að hún hafi komið á versta tíma og magnað og margfaldað þau vandræði sem við var að fást í fyrrahaust.

Ekki hefur heldur verið upplýst hver voru tildrög eða ástæður, uppdiktaðar og aðrar, fyrir árásinni. Mjög mikilvægt er að nákvæm rannsókn verði gerð á þessu. Þjóðin á kröfu á því að íslensk stjórnvöld leggi þunga áherslu á að efna til slíkrar rannsóknar og að láta birta niðurstöður hennar opinberlega. Litlu skiptir að slík rannsókn kunni að leiða í ljósó þægilegar upplýsingar um framkomu eða athafnir íslenskra manna. Íslendingar vilja ekki fara fram með rökleysur eða innihaldslausar ásakanir. Þeim mun mikilvægara er að greina frá öllum staðreyndum“.

Það er ástæða til þess að taka undir orð Jóns. Hér er tekið á mikilvægu máli sem enn hefur ekki verið upplýst – og þjóðin á fullan rétt á að allt málið verði rannsakað og ljós niðurstaðan kynnt bæði okkur og öðrum þjóðum.

 


Sendum framsóknarförunautin til Moskvu

Nú verður að senda framsóknarförunautin til Moskvu - það dugar ekkert minna. Skv. leiðara Moggans í gær þá eru þeir að vinna verkin sem Jóhanna á að vinna. Simmi og Höski geta haft ráðgjafana með sér, þeir eru sagðir tengjast Björgólfi yngri og hann hefur tengsl í Rússlandi. Einkaþota Björgólfs hlýtur að vera til reiðu þegar svona þjóðþrifamál eru annars vegar! Eftir hverju er verið að bíða?
mbl.is Rússar hafna láni til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánleysi framsóknarforystunnar

Frá því að Höskuldur Þórhallsson hitti norskan bónda þ. 30. september s.l. hefur miklum tíma verið varið í að fjalla um þetta ferðalag og þeirra fund. Nú er öllum orðið ljóst að bóndinn á ekki þessa peninga sem hann talaði svo fjálglega um í eyru Höskuldar og málið endar sem eins stærsta ekki-frétt árins.

Flokksformaður Höskuldar er þó ekki af baki dottinn. Nú segir hann að allt hafi strandað á einbeittum brotavilja Jóhönnu forsætisráðherra - hún vilji hvorki heyra né sjá aðrar lausnir en þær sem eru í boði skv. margítrekuðum yfirlýsingum norskra ráðamanna - síðast í morgun þegar Kerstin Halvorsen sagði það sama og Stoltenberg nokkrum dögum áður.

Eftir þennan fjölmiðlasirkus hljóta stuðningsmenn framsóknarförumannanna að spyrja sig um hvað málið snérist í raun. Í hvað var verið að eyða tíma þjóðarinnar á meðan hringekjan snerist? Sigmundur „McCharty“ Gunnlaugsson verður nú að hugsa upp nýja fléttu til að komast í fjölmiðlana. Vonandi verður hann lánsamari í þeirri tilraun.


Förumenn Framsóknar

HöskSigm. Davíð

Það er ekki auðvelt að vera forsætisráðherra á Íslandi þessa dagana. Ýmist er Jóhanna sökuð um að pukrast með upplýsingar og leyna þeim - eða þá að hún er ásökuð um að birta upplýsingar sem hún hefur aflað frá þess til bærum aðilum.

Og ekki batnar það þegar hún kannar sannleiksgildi yfirlýsinga tveggja förumanna Framsóknarflokksins. Yfir hana dynur dónaskapur og ásakanir um að hún fjarstýri forsætisráðherra Noregs.

Það er augljóst að hluti þeirra stjórnmálamanna Framsóknarflokksins sem nú höndla með fjöregg þjóðarinnar ætlast ekki til þess að þeir séu teknir alvarlega. Verst er að fjölmiðlar hlaupa á eftir þessari vitleysu og taka þar með ábyrgð á ruglinu sem kemur frá þessum lukkuriddurum.


mbl.is Mun ekki biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn á faraldsfæti

Sigm. DavíðFramsóknarmenn voru upprunalega heimakærir sveitamenn, uppteknir við málefni síns hrepps og heyskaparhorfur. Sjónarhorn þeirra var sjónarhorn þess sem stóð báðum fótum í íslenskri mold, vel vitandi um það hvernig vöxtur og viðgangur alls byggðist á hógværri nýtingu landsins gæða.

Svo lentu þeir í vondum félagsskap helmingaskiptanna um hermangið og verslunareinokunar SÍS og Kolkrabbans. Og loks kom Halldór Ásgrímsson með kvótaþjófnaðinn, stóriðjubrjálæði og Íraksuppáskrift.  Fylgi flokksins fór að fjara út og tilraun Halldórs til að auka fylgi flokksins í þéttbýli mistókst.

Upplausn varð í flokknum, formenn komu og fóru á færibandi og ballið endaði með því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson „datt inn af götunni“ og gerðist formaður. Að vísu ekki fyrr en að Höskuldur Þórhallsson hafði verið formaður í fimmtán mínútur eins og frægt er.

Nú er flokknum mikið í mun að sýna sig og sanna, mikið ber á Sigmundi Davíð og hann er krítískur mjög á allt sem ríkisstjórnin er að gera. Nú fer hann, ásamt Höskuldi, um lönd og þykist ætla að bjarga þjóð sinni frá Icesave, AGS og hinni vondu ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms.

Allt er þetta hið hlægilegasta mál – yfir okkur dynja yfirlýsingar frá norskum ráðamönnum um að ekkert fáist án lausnar á Icesavemálinu. En riddarinn hugumstóri og fylgdarsveinn hans halda reiðinni áfram og við bíðum spennt eftir því að vita hvar þá ber niður næst.


Næst fæ ég Nóböllinn í kjarneðlisfræði

Það kæmi mér ekki á óvart að ég fengi Nóbelsverðlaunin í kjarneðlisfræði. Ég hef lagt álíka mikið af mörkum á þeim vettvangi og Obama í friðarmálum. Ég verð bæði undrandi og auðmjúkur - og verð ekki í vandræðum með að eyða milljónunum sem mér hlotnast.
mbl.is Undrandi og auðmjúkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritstjórinn sendir bloggurum tóninn

Blá höndinAllann sinn stjórnmálaferil hefur Davíð Oddsson haft þann leiða sið að tala niður til fólks og senda sinn sérstaka tón til þeirra sem eru honum ekki að skapi. Nýsestur í ritstjórastól Morgunblaðsins er hann enn við sam heygarðshornið og nú fá bloggararar landsins sendingu frá honum.

„Ekki eru nein dæmi þess að þessar eldglæringar á blogginu hafi skipt neinu máli um nokkurn skapaðan hlut“ skrifar hann og er þá að ræða þennan tiltölulega nýja og frjálsa vettvang þar sem nánast allir geta tjáð sig standi hugurinn til þess.

Tónn ritstjórans sýnir að honum er eigi skemmt yfir því að einhverjir stjórnmálamenn skoði  „bloggheima“ og bregðist jafnvel við einhverju af því sem þar ber á góma. „Bloggheimarnir loga heyrast stjórnmálamenn segja og verða þá þeir pastursminni í þeim hópi óvissir um stöðu sína og hvaða skoðun er heppilegast að hafa næsta hálftímann“ skrifar Davíð af alkunnri „snilld“. Hér tekst honum vel upp að eigin mati og slær tvær pasturslitar flugur í einu höggi.

Davíð er nefnilega þeirrar náttúru að hann hefur litla þolinmæði gagnvart þeim sjónarmiðum sem eru á öðru spori en hans Eimreið. Seinni hluti leiðarans fjallar síðan um þá sem Davíð nefnir gleðigjafa og nefnir til sögunnar marga góða menn. Í raun hefði hann átt að láta það duga að skrifa um þá og þeirra gleði-iðju. En því er ekki að heilsa. Bláa höndin er því eðli gædd að hún strýkur þeim sem henni geðjast að en löðrungar hina.


Bréf frá Davíð og Haraldi

MblEins og ég hef skýrt frá áður þá sagði ég upp Mogganum frá og með 1. október. Eftir ca. 30 ára áskrift. Ég var því töluvert hissa þegar að blaðið barst mér eins og ekkert hefði í skorist í gær og svo aftur í dag.

Skýringin kom svo þega Davíð og Haraldur, nýju ritstjórarnir sendu mér bréf dagsett 30. september.

Þar stednur m.a.:  „Ágæti áskrifandi  Við undirritaðir, sem nýlega höfum tekið við ritstjórn Morgunblaðsins, bindum góðar vonir við störf á þeim vettvangi …… Þar sem þú hefur sagt upp áskrift þinni nýlega viljum við tryggja að þú getir lagt eigið mat á hvernig blaðið þróast. Við höfum ákveðið að gefa þér kost á að fá blaðið, þér að kostnaðarlausu og án skuldbindinga um áframhaldandi áskrift, út októbermánuð. Viljiðru ekki þiggja þetta boð biðjum við þig vinsamlega……Með góðum kveðjum  Haraldur Johannessen, Davíð Oddsson“

Nú vita þeir kumpánar sjálfsagt að ég sagði blaðinu ekki upp vegna áskriftarkostnaðar. Þetta er pólitísk aðgerð af minni hálfu, lítil aðgerð en öflug ef nægilega margir taka sömu ákvörðun. Eftir óstaðfestum fréttum að dæma þá er þetta töluverður hópur og bréfið bendir til þess að eigendur blaðsins telji nauðsynlegt að bregðast við. Ég stend við mína ákvörðun og ætla að afþakka boðið. Ráðning Davíðs er stríðsyfirlýsing og við henni verður að bregðast.


Milljarðamaðurinn II.

2000 milljarðarÞað blæs ekki byrlega fyrir Höskuldi framsóknarþingmanni og fyrrverandi formanni flokksins. Hann lýsti því yfir hjá mbl.is að hann ætlaði að berjast fyrir því á Alþingi að íslensk stjórnvöld töluðu við framsóknarmanninn Per Olaf Lundteigen í Noregi um 2000 milljarða fyrirgreiðslu. Hvernig sú barátta fer fram er ekki ljóst.  Það ætti að vera einfalt mál að hringja í manninn og fá málið á hreint - baráttulaust. Nú virðist  stórhugur framsóknarmannsins í Noregi bara vera einhver misskilningur eða innantómt bull. Kanski afleiðing tungumálaerfiðleika - svona „lost in translation“ mál.  Við verðum að bíða eftir öðru viðtali við Höskuld og Sigmund sem skýrir málið . Svona hluti verður að fá á hreint, enda mikið í húfi þar sem trúverðugleiki framsóknarmanna bæði hér heima og í Noregi hangir á spýtunni.
mbl.is Vilja ekki lána Íslandi stórfé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband