12.7.2009 | 12:26
Herra Ariel vill hafa hreint í kringum sig
Rasismi felur í sér að sá sem fylgir þeirri stefnu telur annað fólk sér óæðra. Á íslensku er fyrirbrigðið nefnt kynþáttahygga; að menn séu dæmdir á grundvelli kynþáttar og uppruna.
Rasismi er fordæmdur meðal allra þjóða og einstaklinga sem aðhyllast lýðræði og mannréttindi. Rasisminn er nátengdur kynjamisrétti, konur verða því sumstaðar þolendur tvöfaldrar kúgunar, sem hluti af kúgaðrir þjóð eða þjóðarbroti og sem konur í þeim þjóðfélögum þar sem réttindi þeirra eru lítil sem engin.
1948 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar yfirlýsingu um mannréttindi þar sem í fyrstu og annari grein er skráð:Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku, og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.Hver maður skal eiga kröfu á réttindum þeim og því frjálsræði, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
Núverandi forseti Bandaríkjanna er af kynþætti sem löngum naut minni réttinda í heimalandi sínu vegna rasisma. Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjamanna frá árinu 1776 og bandaríska stjórnarskráin kveða á um að allir menn séu bornir jafnir. Það tók samt meir en 200 ár að ná þeim áfanga að bandarískur blökkumaður gengdi embætti forseta landsins. Það væri því eðlilegt að álykta að maður með slíkan bakgrunn legði sérstaka áherslu á baráttu gegn kúgun sem byggir á rasisma; misrétti sökum uppruna manna.
Afstaða Bandaríkjanna til Ísraels er prófsteinn á trúverðugleika Obama, raunveruleg prófraun í afstöðunni til kynþáttamisréttis. Núverandi ríkisstjórn Ísrael er skipuð mörgum ráðherrum sem aðhyllast rasisma. Einn þeirra er innanríkisráðherrann Ariel Atias, þvottekta strangtrúargyðingur sem fylgir útþenslustefnu og brottrekstri araba frá landinu helga.
Það nýjasta sem þessi ráðherra hefur tekið sér fyrir hendur er að að hindra Palestínumenn sem eru borgarar í Ísrael búi nærri gyðingum í Galelíu. Herra Ariel lýsti því yfir að ef við höldum okkur við núverandi stefnu þá munum við missa Galelíu. Þjóðarbrot (populations), sem eiga ekki að búa nálægt öðrum, þeim fjölgar þar. Ég held að það sé ekki viðeigandi að þetta fólk sé nálægt öðrum.
Herra Ariel er hér að tala um araba og að þeir skuli ekki eiga samneyti við gyðinga. Hann telur að aröbum fjölgi of mikð og vill grípa til ráðstafana. Þær felast i því að flæma þá burt, ráðstafa þeim þannig að herraþjóðin hafi sitt svigrúm og þurfi ekki að umgangast óæskilegt fólk. Það sérstaka við þessa stefnu stjórnvalda í Ísrael er það hún er beintengd stefnu kynþáttaaðskilnaðarstjórnarinnar sem stjórnaði S-Afríku og rasisma nasistanna sem stjórnuðu Þýskalandi.
Hörmungarnar sem dundu á blökkumönnum og gyðingum á valdatíma þessara stjórna endurtaka sig nú í ríkinu sem var stofnað vegna kynþáttaofsókna nasista. Nú eru það arabar sem skulu víkja sökum þess að þeir eru af röngum kynstofni. Þrátt fyrir að hafa búið í Galelíu í þúsundir ára þá eru rasistarnir sem nú stjórna Ísrael staðráðnir í að taka land þeirra. Bæði innan Ísrael og á þeim svæðum sem Ísraelar hafa hertekið.
Og nú kemur að þætti Obama. Hann hefur lýst því yfir að hann sé stálsleginn (stahlwart) stuðningsmaður Ísrael. Hann hefur einnig lýst því yfir að stöðva beri stækkun landtökubyggðanna á Vesturbakkanum. En hann hefur ekki lýst andstöðu við rasismann sem ræður gerðum Ísraelsstjórnar.
Ef Palestínumenn væru svertingjar - skyldi Obama þá minnast á mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og bandarísku stjórnarskrána og segja svona gera menn ekki við stjórnvöld í Ísrael? Það er ekki mögulegt að taka mark á afstöðu Bandaríkjastjórnar í öðrum málum þar sem mannréttindi eru til umræðu - svo lengi sem eitt ríki nýtur þeirra sérstöðu að ástunda rasisma undir sérstakri vernd Obama - þá eru orð hans um mannréttindi og lýðræði innantóm.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
10.7.2009 | 19:43
Brennandi hjörtu
Í gamla daga sáu menn teikn á himnum þegar stóratburðir voru í uppsiglingu. Það var þegar menn áttu minni möguleika á að kynna sér málin og rökræða af þekkingu. Prestar reyndu gjarnan að skjóta skelk í bringu almúgans - reiði drottnanna vofði yfir ef menn ekki höguðu sér rétt. Enn eru til menn af gamla skólanum sem sjá teikn á himnum. Það er ágætt - fjölbreytnin er skemmtileg. Það eru margir sem sjá brunanum á Þingvöllum í þessu ljósi: umræðan um ESB á Alþingi - ó vei ó vei!.
Hér eru nokkur sýnishorn:
Það er táknrænt að Hótel Valhöll á Þingvöllum er brunnið til grunna - hótelið sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur var kennd við enda var sú ríkisstjórn mynduð á þeim stað. Þar kyssti Geir Ingibjörgu frægum kossi. Sá koss átti eftir að reynast þjóðinni dýr
Bruninn er líka táknrænn fyrir það að þetta gerist á sama tíma og þingsályktartillaga um aðild Íslands að Evrópusambandinu er tekið til umræðu á Alþingi Íslendinga. Mun reykurinn sem leggur yfir Þingvelli hafa áhrif á hæstvirta alþingismenn Íslendinga í umræðunni um það málefni sem er eitt af stærstu sjálfstæðismálum þjóðarinnar frá lýðveldisstofnun - jafnvel frá stofnun Alþingis á Þingvöllum?
Alveg er það ótrúlega táknrænt að þetta stóra hús á þingvöllum þar sem er vagga lýðveldis á íslandi (þ.e.a.s ef það hefur einhverntíma verið lýðræði á Íslandi, dæmi hver fyrir sig.) skuli brenna til kaldra kola á þessum tímapunkti og endurspegla þar með Ísland sem þjóðfélag sem er að verða rústir einar.
Það þarf ekki að segja neitt annað þetta er táknrænt. Þingið er í gíslingu græðgisfulls minnihlutaflokks sem er með þjóðina og þingið í gíslingu vélráðana og ESB- landráðana!
Táknrænt. Valhöll á Þingvöllum brennur meðan ESB-umræðan á Alþingi er í hámarki. Meðan landssölulíðurinn gerir alvarlegustu atlögu að fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar frá upphafi.
Nú vantar bara að Samfylkingin kveiki í Alþingishúsinu. Þá væru hræðslu og óttaherferð Samfylkingarinnar fullkomnuð. Samfylkingin hefur kynt elda undir ótta almennings frá því hrunið varð í október. Spinnur vef sinn á ótta almennings. Annars hefði þetta andskotans ESB mál ekki séns. Hyski
Fyrst voru það jarðskjálftarnir á Reykjanesi, nú brennur Valhöll, hvað kemur næst.
Hvort þetta er tákn umhnignun sjálfstæði landsins þegar stjórnvöld og EU sinnar eru svo ólm aðafhenda landið EU með manni og mús.
Það er táknrænt að bruniskuli koma upp á Þingvöllum, helgasta stað íslendinga þegar að umræðan um inngönguí ESB stendur sem hæst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
8.7.2009 | 11:18
Góð grein frá Eiríki Bergmann
Eftirfarandi grein, eftir Eirík Bergmann, birtist í Fréttablaðinu í dag.
Höfundur hittir naglann á höfuðið:
Fyrirvara verður að setja
Einkum tvennt gerir vanda Icesave-samkomulagsins illviðráðanlegan;hvorki er hægt að samþykkja það né hafna því. Við höfnun segir Ísland sig úrlögum við alþjóðasamfélagið með hörmulegum afleiðingum en með því að samþykkja þann nauðasamning sem íslensk stjórnvöld hafa gert við Breta og Hollendinga er þjóðin í heild sinni lögð að veði langt inn í framtíðina. Og jafnvel þótt vísir menn séu flínkir með reikningsstokkinn sinn er enn með öllu óvíst hvernig okkur mun reiða af næstu árin og hvort við verðum yfir höfuð borgunarþjóð fyrirþessum ógnarskuldum. Þessi er togstreitan í málinu.
Verkefnið er vissulega snúið en nú reynir á stjórnvisku íslenskra ráðamanna. Við verðum nefnilega að finna þriðju leiðina út úr ógöngunum. Sem sé einhverja aðra leið en tekist hefur að ná fram í samningum. Jafnvel blindum manni er nú orðið ljóst að dómstólaleiðin er ófær, því ekki er til sá dómstóll sem Ísland getur vísað málinu til. En mögulega eru fleiri leiðir færar. Eins og málið er nú vaxið er þjóðþingið fullvaldur okkar í málinu og til að vernda þjóð sína frá óbærilegum skuldaklafa verður þingið að setja sinn eigin fyrirvara við samkomulagið.
Hið óljósa endurskoðunarákvæði sem nú er í samkomulaginu dugir ekki til, á því verður að hnykkja all rækilega, ekki aðeins til að auðvelda þjóðréttarlega réttlætingu fyrir því að taka málið upp á nýjan leik að nokkrum árum liðnum heldur einnig til að skapa okkur betri samningsstöðu í framtíðinni.
Til að mynda getur þingið með einhliða yfirlýsingu lýst skilningi sínum á endurskoðunarákvæðinu, svo sem þeim að Ísland áskilji sér rétt til að endurmeta greiðslugetu landsins í samræmi við efnahagslega stöðu þjóðarbúsins þegar greiðslur eigi að hefjast eftir sjö ár og ljóst verði orðið hve langt eignir Landsbankans dugi upp í skuldirnar. Fyrirvarinn þarf enn fremur að verja okkur fyrir hugsanlegri málshöfðun erlendra kröfuhafa vegna neyðarlaganna, sem séað Icesave-samkomulagið falli úr gildi verði neyðarlögin dæmd ólögleg.
Með þessari leið vinnst tvennt í einu; Ísland kemst aftur í samfélag þjóðanna en fyrirvarinn forðar okkur frá því að binda þjóðina í báða skó. Fari allt á versta veg geta íslensk stjórnvöld haldið því fram að fyrirvari þingsins meini þeim hærri greiðslur en þjóðarbúið ráði vel við. Þá verður það í höndum nýrra stjórnvalda í Bretlandi og Hollandi að eiga við ný stjórnvöld á Íslandi í málinu. Verði Ísland komið inn í Evrópusambandið á þeim tíma verður þá einnig hægt að vísa málinu til Evrópudómstólsins, sem við höfum ekki möguleika á nú.
Sumir segja að of áhættusamt sé að setja slíkan einhliða fyrirvara því þá geti Bretar og Hollendingar rift samkomulaginu. Erfitt er um slíkt að spá, en það væri í það minnsta mun betri staða en að þingið okkar hafni samkomulaginu sem ríkisstjórnin hefur gert og afneiti þar með allri ábyrgð í málinu. Munum að þetta var alíslenskur banki, sem starfaði á íslenskum leyfum,samkvæmt íslenskum lögum og íslensku eftirliti sem dró allt þetta fé til sínfrá breskum og hollenskum sparifjáreigendum. Við skulum allavega gera okkur ljósa grein fyrir því að þjóð sem segir sig úr lögum við nágranna sína verður að vera tilbúin að lifa útlagalífi. Fyrirvaraleiðin fer hins vegar bil beggja, við viðurkennum ábyrgð ríkisins en verndum þjóðina um leið. Satt að segja virðist þetta eina færa leiðin út úr vandanum.
Eigi að síður er ég ekkert svo ýkja bjartsýnn á að svona lausn muni ná fram að ganga, mögulega strandar hún á þrashefð Alþingis. Það getur nefnilega verið að þingmenn telji það ekki endilega henta sínum pólitísku hagsmunum að sameinast um viðlíka lausn. Stjórnarliðar vilja standa við þann samning sem stjórnvöld hafa þegar gert við Breta og Hollendinga en stjórnarandstaðan vill fyrir alla muni fella samninginn og koma þannig pólitísku höggi á ríkisstjórnina. Því getur farið svo að hefðbundin átök stjórnar og stjórnarandstöðu muni koma í veg fyrir að fyrirvaraleiðin verði farin, jafnvel þótt hún falli best að hagsmunum íslensku þjóðarinnar.
6.7.2009 | 09:49
Framsóknarsiðferði
Eins og ég hef vikið að fæ ég ekki á nokkurn hátt séð að Íslendingum beri lagaleg, hvað þá siðferðileg, skylda til að greiða Icesave-skuldbindingarnar að kröfu Breta og Hollendinga.
Þetta eru orð Höskuldar Þórhallssonar, þingmanns á vegum Framsóknarflokksins.
Varðandi lagalegu hliðina þá er augljóst að íslensku bankarnir störfuðu erlendis í krafti þess að íslenska ríkið er aðili að samningum sem gerðu þeim það mögulegt. Baktrygging fólksins sem lagði inn fé á Icesave reikninga útibús Landsbankans í Englandi og Hollandi var tilvist innistæðutryggingasjóð sem stofnaður var skv. ákvörðun Alþingis Íslendinga.
Þar er tekið skýrt fram að viss lágmarkstrygging er fyrir hendi. Þetta ákvæði gildir einnig um íslenska innistæðueigendur. Orð þingmannsins eiga við þá ákvörðun hvort íslenska ríkið skuli standa við þessa innistæðutryggingu, lágmarkið sem samið var um.
Hann sér ekki lagalegu skylduna.
Þá er rétt að líta á siðferðilegu skylduna. Eins og fyrr segir þá hefur íslenska ríkið tekið á sig lagalegar skuldbindingar um tryggingu innistæðna upp að vissu hámarki. Ef þeirri skuldbindingu fylgja engar siðferðilegar kvaðir þá eru þjóðir heims í vondum málum. Og Íslendingar geta þá ekki vænst þess að siðferði annarra þjóða gagnvart okkur sé betra en okkar eigið.
Og áfram með siðferðisspurninguna. Hún fær visst vægi þegar þingmaður Framsóknarflokksins kveður sér hljóðs með þessum hætti. Hann er nefnilega þingmaður flokksins sem stóð að þeirri gjörð sem setti þessar lagalegu og siðferðilegu spurningar á dagskrá þingsins. Það var einkavæðing bankanna sem hratt málinu af stað. Málið er tilkomið vegna þess að flokkarnir sem höfðu forystu um þetta stóðu þannig að því að allt er nú sem ein rjúkandi rúst.
Nú vitum við hvernig þessi þingmaður tekur afstöðu án þess að skilja lagalegar og siðferðilegar hliðar málsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
5.7.2009 | 14:06
Skæruliðinn setur „a spanner in the works“
Það er einkenni á hernaði skæruliða að þeir reyna að birtast óvænt á réttum stað og valda sem mestum usla og hverfa svo þar til næsta árás er gerð.
Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi borgarstjóri, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrrverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi Seðlabankastjóri er nú um stundir ofurskæruliði íslenska lýðveldisins.
Nú eru fjórar skæruliðaárásir að baki hjá DO:
Kastljósviðtalið (við borgum ekki)
Ræðan hjá Verslunarráði (ég veit af hverju Bretar settu hryðjuverkalögin á Ísland)
Ræðan á landsfundi Sjálfstæðisflokksins (norski seðlabankastjórinn lygari eða með alzheimer)
og nú viðtal í Mbl. með flennifyrirsögn á forsíðu.
Enn á ný kemur Davíð Oddsson skeiðandi inn á völlinn, gamli bardagajálkurinn tilbúinn í slaginn.
Nú vakir það fyrir honum að fella ríkisstjórnina með pólitísku sprengjukasti. Viðtalið mun styrkja andstöðuna gegn ríkisábyrgðinni á Icesave skuldunum og mögulega sprengja stjórnina. Á ensku heitir þessi aðgerð to throw a spanner in the works (kasta skrúflykli í tannhjólin). Hún var einkum stunduð af verkamönnum sem sáu framá atvinnumissi þegar vélar leystu þá af hólmi. Í skemmdarverkinu birtist örvænting þeirra sem finna vanmátt sinn gagnvart þróuninni. Þeir ráða ekki lengur við veruleikann og snúast til vanmáttugrar varnar sem engu getur skilað nema tímabundinni truflun.
Davíð er sem fyrr, í eigin túlkun, hrópandinn í eyðimörkinni (að vísu staddur heima hjá sér) og hann spilar út þekktum trompum : Svíagrýlan, ESB andstaðan og andskotinn hún Ingibjörg Sólrún.
Í viðtalinu vísar Davíð í bréf sem hann veit að eru til en hann hefur ekki séð og skýrslur sem eiga að sanna að Icesave reikningurinn á ekki að falla á íslenskan almenning. Enn og aftur vísar hann í einkasamræður sínar (sem Geir kannaðist að vísu ekki við á sínum tíma), þar er hann boðandi hrun á sama tíma og skýrslur Seðlabankans og opinber viðtöl við hann sjálfan segja allt annað. Hann vill fara dómstólaleiðina en veit að hún er ekki í boði.
Og hann skorar, hér er afstaða Agnesar innsend á vefinn eyjan.is: Ég er ein af þeim sem vildi helst sjá Davíð Oddsson sem forsætisráðherra.
Það eru ótrúlega margir sem hafa sömu skoðun og ég og þess vegna skora ég á Davíð að koma aftur í pólitíkina.
Ísland þarf mann eins og Davíð hann einn getur bjargað okkur
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.7.2009 | 13:19
Mesti loddari Íslandssögunnar?
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nýkjörinn þingmaður og nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins, lýsti því í þingræðu í morgun að núverandi ríkisstjórn væri líklega sú versta í allri Íslandssögunni. Með þessum orðum sínum styrkir hann þá skoðun mína að hann sé einhver versti þingmaður á sitjandi Alþingi.
Þetta er dómur hans um ríkisstjórn hverrar aðalverkefni er að reyna að moka þann skít sem Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn skildu eftir sig að lokinni 12 ára stjórn þeirra á málefnum landsins.
Þegar svona yfirlýsing kemur frá þingmanni, sem vill sjálfsagt láta taka sig alvarlega, þá hlýtur að vakna spurning um mat þessa þingmanns á öðrum atriðum og aðstæðum.
Hann er formaður flokks sem á eftir að gera upp fortíð sína. Flokkurinn var við völd í áraraðir þegar s.k. helmingaskipti réðu ríkjum hér - tveir flokkar - með hreðjatak á allri stjórnsýslu og viðskiptum - stjórnuðu landinu. Og skipti þá engu hvort þeir sátu í - eða voru utan ríkisstjórna.
Framsóknarflokkurinn var annað meginaflið á bakvið samþykkt kvótakerfisins - mesta þjófnaðar Íslandssögunnar.
Framsóknarflokkurinn var annað meginaflið á bakvið einkavæðingu ríkisbankanna til valinna flokksmanna. Sem verður að teljast hreint tilræði við þjóð sem stóð svo í þeirri trú að bankarnir störfuðu á eigin ábyrgð.
Það eru þessi mál sem eru ávísunin á það ástand sem núverandi ríkisstjórn glímir við. Það eru gerð mistök í öllum orrustum - en að arftaki brennuvarganna skuli glaðbeittur standa og gefa þessari ríkisstjórn falleinkunn er of hallærislegt til þess að vera einu sinni fyndið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.7.2009 kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (79)
29.6.2009 | 09:05
Sjálfstæðismaður segir til syndanna
Í dag birtist merkileg grein í Morgunblaðinu, Grétar H. Óskarsson, flokksbundinn sjálfstæðismaður í hálfa öld að eigin sögn, skrifar mikla ádrepu á flokkinn undir fyrirsögninni: Þér hafið brugðist vonum vorum.
Grétar telur upp 9 atriði sem dæmi um siðleysi flokksforystunnar, allt atriði sem ég tek heilshugar undir og hefði ekki getað orðað betur.
Grétar skrifar:
Eins og málin koma mér fyrirsjónir þá eru helstu ávirðingar forystumanna Sjálfstæðisflokksins þessar: Algert siðleysi, jafnvel glæpsamlegt atferli, að lýsa yfir stuðningi Íslands við innrás í Írak að þingi og þjóð forspurðum.
Algert siðleysi að gefa fáum útvöldum útgerðarmönnum auðlindir þjóðarinnar í sjónum og auk þess mannréttindabrot samkvæmt úrskurði Mannréttindadómstólsins. Algert siðleysi ogatlaga að fjárhagslegu sjálfstæði landsins að nota stöðu seðlabankastjóra tilþess að umbuna uppgjafa stjórnmálamönnum, í stað þess að velja hæfasta umsækjandann hverju sinni eftir skýrum reglum um þekkingu, menntun og færni.
Algert siðleysi að skipa ráðherra út frá pólitískum sjónarmiðum en ekki með tilliti til hæfni og kunnáttu á þeim sérsviðum sem þeir bera ábyrgð á. Nýlegt dæmi er dýralæknir í stöðu fjármálaráðherra.
Algert siðleysi var að skipa son forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins í dómaraembætti þótt hann væri alls ekki sá hæfasti eða sá sem sérstaklega tilskipuð valnefnd mælti með.
Algert siðleysi að taka við 30milljóna króna styrk af FL Group og Landsbankanum á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn hafði staðið fyrir lögum um hámarks framlög til stjórnmálaflokka og þau höfðu þá þegar verið samþykkt á Alþingi.
Siðlaus metnaðargirni, fáviska og mikill fjáraustur við að reyna að komast í Öryggisráð SÞ.
Einkavæðing bankanna var með endemum og algert klúður og leiddi að lokum til hruns þeirra allra á kostnað þjóðarinnar. Ráðaleysi, ákvarðanafælni, andvaraleysi, getuleysi og skortur á manndómi til þess að takast á við vandamálin þegar bankarnir hrundu.
Í lok greinarinnar skrifar Grétar: Kjörnir forystumenn Sjálfstæðisflokksins síðustu fjölmörg ár: Þér hafið brugðist vonum vorum.
Hér skilja leiðir, ólíkt Grétari þá hef ég aldrei bundið neinar vonir við forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Í tvo áratugi hefur maður horft á þetta syndaregistur byggjast upp og þjóðin kaus þessa menn aftur og aftur. Til þess eins að þeir gætu haldið áfram að lengja listann. Nú hefur stór hluti þjóðarinnar vonandi séð sig um hönd og fylgistap flokksins verði varanlegt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.6.2009 | 23:30
Brot úr fortíðinni
Vinur minn sendi mér nýlega upplýsingar um gamla kvikmynd á You Tube. Myndin er tekin í Reykjavík um 1920 sk.v texta með myndinni. Þegar ég skoðaði myndina sá ég langömmu minni bregða fyrir glaðhlakkalegri á peysufötum. Hún hét Marie Bernhöft, dóttir bakarans í Bernhöftstorfunni. Einnig sá ég mynd af girðingunni sem umlukti Austurvöll. Það minnti mig á að gamall maður sagði mér að hlutar af þeirri girðingu væru enn til á Njarðargötunni. Og við samanburð sést að það reynist vera rétt.
Langamma Marie Bernhöft.
Girðing við Austurvöll.
Girðing við Njarðargötu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.6.2009 | 11:55
Rauði þráðurinn um Icesave
Sem sannur Samfylkingarmaður þá birti ég hér bréf frá Rauða þræðinum sem mér barst í dag:
Rauði þráðurinn 42. tbl. 4. árg. 23. júní 2009
Umræðan um efnisatriði svokallaðra Icesave samninga er farin einkennast af þeim ljóta leik að spila á ótta fólks og óöryggi með rangtúlkunum og villandi upplýsingum. Andstæðingar aðildarumsóknar til Evrópusambandins beita sér líka hart í því að blanda þessum samningi við umræðu um aðild þótt þessi mál séu með öllu ótengd og óskyld. Sjálfskipaðir sérfræðingar í alþjóðasamningum afhjúpa hver á fætur öðrum að þeir hafa aldrei séð lánasamning milli ríkja fyrr og skilja ekki efni þeirra. Vegna þessa er afar brýnt að sem flestir haldi á lofti réttum efnisatriðum málsins hvar sem því verður við komið. Þessi póstur er nokkuð ítarlegur enda margt sem fara þarf yfir:
Um afsal friðhelgi fullveldisréttar og íslenskar eigur að veði
Mikið veður hefur verið gert út af ákvæði um að Ísland afsali sér friðhelgi vegna fullveldisréttar og fullyrt að þar með geti bresk stjórnvöld gengið að hvaða eigum sem er. Staðreyndin er sú að svona ákvæði um "waiver of sovereign immunity" er regla í lánasamningum milli ríkja og tíðkast m.a. í öðrum lánasamningum sem Ísland hefur gert eða er að vinna að. Ástæðan er sú að þetta er eina leiðin sem lánveitandi hefur til að koma ágreiningi vegna endurgreiðslu fyrir dómstóla. Án þessa ákvæðis er lántökuríkið ónæmt og varið á bak við fullveldisrétt sinn og sá sem afhent hefur fjármuni á engin úrræði því eitt ríki dregur ekki annað ríki fyrir dóm nema með samþykki beggja aðila. Sú fullyrðing að með þessu séu allar íslenskar eigur undir án takmarkana er sömuleiðis röng. Jafnvel þótt ákvæðið sjálft innihaldi ekki takmarkanir þá leiða þær bæði af alþjóðasáttmálum og íslenskum lögum og stjórnarskrá auk þess sem enginn dómstóll myndi gefa lánveitanda sjálfdæmi um eignir upp í skuld. Þá fylgja samningum gjarnan ítarlegra bréf eða fylgiskjal um friðhelgi.
Um lögsögu breskra dómstóla í málinu
Venjan í alþjóðlegum lánasamningum hefur verið sú að miða við lögsögu lánveitanda eða þriðja ríkis og þá helst Bandaríkjanna eða Bretlands. Sem dæmi má taka að samkvæmt fréttum er gert ráð fyrir því að mál vegna lána hinna Norðurlandaþjóðanna verði rekin fyrir dómstólum hvers og eins þeirra.
Um einhliða íþyngjandi ákvæði í samningnum
Þessi túlkun er afar sérkennileg í ljósi þess að um lánasamning er að ræða þar sem skyldur annars aðilans eru afar einfaldar og felast í því að lána tiltekna upphæð. Samningurinn sem slíkur fjallar því óhjákvæmilega ítarlega um tvennt: Skyldur lántakanda við að endurgreiða og leiðir til að lánveitandi hafi úrræði til að fá endurgreitt. Þegar um er að ræða tvær fullvalda þjóðir er staðan í upphafi sú að lánveitandi sem hefur afhent öðru fullvalda ríki fjármuni er í mjög veikri stöðu til að sækja nokkurn rétt og getur t.d. ekki dregið ríki fyrir dómstóla. Vegna hins sterka fullveldisréttar eru ákvæði í lánasamningum milli ríkja yfirleitt afar ítarleg og lúta að því að skapa lánveitanda einhverja réttarstöðu. Skiljanlegt er að fólk sem ekki hefur almennt lesið alþjóðlega lánasamninga eða þekkir hefðbundið efni þeirra bregði við að sjá í fyrst sinn dæmigerðan samningstexta. Sérfræðingar í alþjóðarétti og alþjóðlegum lánsfjármörkuðum segja aftur á móti að ekkert í efni þessa samnings komi á óvart eða sé frábrugðið því sem almennt tíðkast.
Um óhjákvæmileg áhrif á lánshæfismat Íslands
Matsfyrirtækin byggja ekki einkunnagjöf sína á einum samningi heldur mörgum þáttum svo ekkert er hægt að gefa sér um niðurstöðuna. Skuldbindingin vegna Icesave hefur einnig verið þekkt frá því bankarnir hrundu sl. haust og var m.a. inni í Viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Matsfyrirtækin hafa því þekkt þessa skuldbindingu. Þau áföll sem íslenska ríkið hefur orðið fyrir hafa óhjákvæmilega haft slæm áhrif á lánshæfismat ríkisins. IceSave er þó einungis einn af nokkrum þáttum þar og raunar ekki sá sem vegur þyngst. Skuldasöfnun ríkisins vegna fyrirsjáanlegs fjárlagahalla áranna 2009-2012 hefur meiri áhrif. Einnig vegur tap ríkisins vegna lána Seðlabanka Íslands til íslenskra fjármálafyrirtækja þungt. En samningurinn við Breta og Hollendinga tryggir að íslenska ríkið þarf ekki að greiða neitt vegna IceSave á næstu sjö árum og að það sem þá stendur út af verður greitt á næstu átta árum þar á eftir. Þetta þýðir bæði að ekki reynir á lausafjárstöðu eða greiðsluhæfi ríkisins vegna IceSave á meðan mestu erfiðleikarnir í efnahagsmálum ganga yfir og að árleg greiðslubyrði verður fyrirsjáanlega vel innan þeirra marka sem ríkið ræður við. Miklu skiptir að verið er að eyða óvissu sem hefur neikvæð áhrif á lánshæfismat. Samningarnir um IceSave eyða mikilli óvissu. Margt annað mun skýrast á næstu vikum, m.a. fæst niðurstaða í samninga við hin Norðurlöndin um lán, gengið verður frá skilunum á milli gamla og nýja bankakerfins, línur lagðar í fjármálum ríkisins til næstu ára og tekin ákvörðun um það hvort sótt verður um aðild að ESB. Langtímahorfur fyrir Ísland munu því skýrast mjög á næstunni. Það ætti að styrkja trú manna, bæði hér innanlands og utan, á íslensku efnahagslífi og m.a. skila sér í betra lánshæfismati þegar fram í sækir.
Um yfirvofandi gjaldþrot íslenska ríkisins vegna samningsins
Ekkert gefur ástæðu til að ætla að íslenska ríkið komist í greiðsluþrot á næstu árum. Samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lánin sem verið er að ganga frá í tengslum við þá áætlun tryggja íslenska ríkinu verulega sjóði á næstu árum, á meðan mestu erfiðleikarnir ganga yfir. Skuldir íslenska ríkisins munu einungis í tiltölulega stuttan tíma fara yfir 100% af landsframleiðslu en verða þegar til lengdar lætur vel innan við landsframleiðslu eins árs. Skuldir íslenska ríkisins verða þá í lægri kantinum í samanburði við önnur Vesturlönd en skuldir flestra þeirra hafa vaxið talsvert undanfarið vegna aðgerða til að bjarga fjármálafyrirtækjum og munu fyrirsjáanlega halda áfram að vaxa á næstu árum vegna mikils fjárlagahalla. Langtímahorfur í ríkisfjármálum eru ágætar, þótt óneitanlega þurfi að grípa til afar erfiðra aðgerða á næstu árum. Hér skiptir m.a. miklu að allar líkur eru á því að skattstofnar landsmanna jafni sig smám saman þegar mesti samdrátturinn gengur til baka. Þá er einnig mikilvægt að Íslendingar búa við nánast fullfjármagnað lífeyriskerfi, ólíkt flestum öðrum löndum. Það og hagstæð aldursskipting þjóðarinnar þýðir að ekki er útlit fyrir að íslenska ríkið verði fyrir verulegum útgjöldum vegna öldrunar þjóðarinnar, ólíkt flestum Vesturlöndum. Raunar er íslenska ríkið í þeirri öfundsverðu stöðu að eiga von á verulegum skatttekjum þegar greiðslur úr lífeyrissjóðum aukast á næstu áratugum. Það er allt önnur staða en uppi er í flestum nágrannaríkja okkar.
Um viðurkenningu ábyrgðar vegna Icesave reikninganna
Sú fullyrðing að Íslendingar séu með þessum samningi að viðurkenna skuldbindingu sína vegna Icesave reikninganna er röng því samkomulagið við Breta og Hollendinga snýst aðeins um uppgjör ábyrgðar íslenska ríkisins vegna lágmarkstryggingar innstæðna á ESS svæðinu. Þrátt fyrir að önnur sjónarmið hafi heyrst í umræðunni hér innanlands í kjölfar hruns bankanna hefur í reynd verið gengið út frá þessari ábyrgð frá upphafi í öllum áætlunum og yfirlýsingum íslenskra stjórnvalda: Í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til framkvæmdastjórnar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins frá því í nóvember 2008 er gert ráð fyrir að áætluð fjármögnunarþörf íslenska ríkisins vegna lágmarksinnstæðutrygginga sé hluti af þeim lánum sem taka þarf. Þetta kemur m.a. fram í lið 12 í áætluninni og skýringum með honum. Á upplýsingavef forsætisráðuneytisins um áætlunina er þessi skilningur á fjármögnunarþörfinni ítrekaður í liðnum spurt og svarað en þar segir m.a.: Í lið 12 er því einnig gert ráð fyrir að inni í áætlaðri lánsfjárþörf ríkisins vegna bankakreppunnar séu lán til að mæta erlendum kostnaði við innstæðutryggingar í samræmi við ákvæði EES samningsins. Þessi liður í efnahagsáætluninni er í samræmi við þann ítrekaða skilning íslenskra stjórnvalda að ábyrgðir á sparifé á reikningum í útibúum íslensku bankanna takmarkist ekki við þá fjármuni sem til voru í Tryggingarsjóði innstæðueigenda heldur muni ríkissjóður þvert á móti styðja sjóðinn. Í yfirlýsingu forsætisráðherra frá 8. október 2008 segir orðrétt: Ríkisstjórnin ítrekar að ríkissjóður mun styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við öflun nægjanlegs fjár. Í bréfi frá íslenska viðskiptaráðuneytinu til Clive Maxwell HM Treasury, dagsettu 20. ágúst 2008, segir orðrétt: In the, in our view unlikely, event that the Board of Directors of the Depositors' and Investors' Guarantee Fund could not raise necessary funds on the financial markets, we would assure you that the Icelandic Government would do everything that any responsible government would do in such a situation, including assisting the Fund in raising the necessary funds, so that the Fund would be able to meet the minimum compensation limits. Þessi afstaða íslenskra stjórnvalda gagnvart Innstæðutryggingasjóði var svo enn ítrekuð í bréf viðskiptaráðuneytis til breska fjármálaráðuneytisins 5. október 2008. Þar segir m.a. orðrétt: If needed the Icelandic Government will support the Depositors' and Investors' Guarantee Fund in raising the necessary funds, so that the Fund would be able to meet the minimum compensation limits in the event of a failure of Landsbanki and its UK branch. Í símtali fjármálaráðherra Íslands og Bretlands þann 7. október er þessi sami skilningur enn á ný staðfestur af Íslands hálfu og vísað í stuðning stjórnvalda við Innstæðutryggingasjóðinn, sbr. útskrift á samtalinu. Þar sagði fjármálaráðherra Íslands: We have the [deposit] insurance fund according to the directive and how that works is explained in this letter [from Iceland's Trade Ministry to Britain's Treasury] and the pledge of support from the [Icelandic] Government to the fund. Þann 11. október 2008 gerðu íslensk stjórnvöld samkomulag við Hollendinga. Í tilkynningu forsætisráðuneytisins um samkomulagið segir m.a.: Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur.
Um niðurstöðu núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins
Í ljósi alls þessa er ekki að undra þótt Bjarni Benediktsson, þáverandi fulltrúi í utanríkismálanefnd Alþingis og núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hafi komist að afdráttarlausri niðurstöðu við umræður um samkomulag um Icesave á Alþingi 29. nóvember 2008: "Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum. [...]Þegar heildarmyndin er skoðuð tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli."
Efni samningsins og skýringar á www.island.is Þeir sem áhuga hafa á að kynna sér efni samningsins ásamt skýringum á einstökum greinum eru hvattir til að fara inn á vefinn www.island.is . Finnist fólki eitthvað vanta eða ef spurningar vakna má senda fyrirspurn á uppgefið netfang og mun svar þá birtast um leið og það er tilbúið.
Með bestu kveðjum,ritstjóri
21.6.2009 | 17:56
Að rífa hús
Maðurinn sem reif húsið á Álftanesi var kominn í vonda stöðu, hann var búinn að missa eignir sínar vegna aðstæðna sem hann og aðrir sköpuðu.
Hann tók áhættulán, maður með tekjur í íslenskum krónum en lán í erlendri mynt. Bankahrunið og hin ónýta króna sendu hann svo út á eyðimörkina, bjargarlausan. Hann reiddist og reif niður hús bankans og gaf dauðann og djöfulinn í afleiðingarnar. Hann jók skuldir sínar og skapaði sér skaðabótaábyrgð og verður að taka úr sína refsingu. Fjölskyldan hans er farin til annarra landa.
Margir Íslendingar eru farnir að hugsa líkt og maðurinn sem reif húsið sem hann hafði misst í klær bankans. Andstaðan gegn Icesave-samningnum er hjá mörgum mótuð af svipuðu viðhorfi. Þjóðin er líka reið, hún er kominn í aðstæður sem hún ræður ekki hvernig úr spilast. Hún tók sjálf ákvörðun um þá pólitísku skipan sem hér hefur ríkt undanfarna áratugi og vel flestir Íslendingar tóku lán á háum verðtryggðum vöxtum eða í erlendri mynt. Annað bauðst ekki vegna krónunnar.
Síðan brestur hið pólitíska kerfi, fjárglæframenn vaða uppi með ríkisábyrgð í vasanum og þjóðin situr eftir með risavaxnar skuldir og einhverjar eignir á móti. Sumir vilja fara þá leið að neita að borga vegna þess að þeir stofnuðu ekki til þessara skulda og að þjóðin beri ekki sök á því hvernig fór. En með því að borga ekki þá segja Íslendingar sig úr lögum við alþjóðasamfélagið líkt og maðurinn sem reif húsið og steig þar með út fyrir ramma laganna.
Lögum má breyta en gildandi lögum ber að fylgja. Þess vegna átti húseigandinn fyrrverandi ekki að rífa húsið og þess vegna verða Íslendingar að axla ábyrgð á Icesaveskuldunum. Síðan er það næsta skref að búa svo um hnútana að óréttlætið verði ekki endurtekið. Það verður að kasta krónunni, losna við verðtrygginguna, endurbæta eftirlitskerfi fjármálastarfseminnar og stöðu einstaklinga við gjaldþrot. Ef sú afstaða, að borga ekki, mun ráða á Alþingi, þá munu öll viðskipti Íslendinga við aðrar þjóðir versna enn frekar.
Hér mun verða þjóðfélag viðskipta- og gjaldeyrishafta, neðanjarðarhagkerfi mun blómstra og pólitísk stýring á öllum sviðum þjóðfélagsins mun aukast. Fjölskylda mannsins sem reif húsið er farin úr landi.
Ísland verður ekki álitlegur kostur fyrir komandi kynslóðir og framsækin fyrirtæki munu ekki þrífast hér fjölskyldan mun fara úr landi.