Lieberman og landræningjarnir

Lieberman

Nú hefur Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, flutt ræðu sem verður að skoðast sem svar við ræðu sem Obama Bandaríkjaforseti flutti í Karíó fyrir skömmu. (sjá blogg mitt þ. 6. júní).

Tengslin við Bandaríkin eru spurning um líf og dauða síonismans, stefnunnar sem ráðamenn Ísrael aðhyllast. Forsætisráherra Ísraels verður því að haga orðum sínum þannig að þau tengsl slitni ekki.

Vandamál Netanyahu felst í því að stefna hans er fullkomlega úr takti við allt sem getur talist til eðlilegrar stjórnmálastarfsemi meðal siðaðra manna í dag.

Stefna Ísraelsstjórnar hefði getað gengið á tímum gamaldags nýlendustefnu og kynþáttakúgunnar. Stjórnendur Ísraels hefðu fundið samhljóm með landnemum „villta vestursins“, sem litu á Indiána sem réttlausar skepnur, og kunnað vel við sig hjá stjórnendum Apartheid stefnunnar í Suður Afríku. En þeir eru eins og nátttröll meðal þeirra þjóða sem fylgja alþjóðasáttmálum um mannréttindi og þjóðarétt.

Í ræðu sinni reynir Netanyahu að friða Obama en jafnframt verður að hann að halda snarvitlausum fylgjendum Liebermans utanríkisráðherra og nokkurra öfgaflokka sæmilega ánægðum. Þessi línudans gengur ekki, Obama segir að það verði að stöðva landtökumennina og viðurkenna rétt Palestínumanna til eigin ríkis. Lieberman og landræningjarnir vilja ekki hætta fyrr en þeir hafa náð að reka alla Palestínumenn burt frá Ísrael, Vesturbakkanum og Gaza.

Nethanyahu er sama sinnis og landræningjarnir, en hann verður að finna orðum sínum búning svo hægt sé að misskilja þau og rangtúlka. Þess vegna segist hann geta samþykkt tilveru ríkis Palestínumanna ef það ríki hafi engan her og enga lofthelgi.  Hann útskýrir veru Palestínumanna í landi þar sem þeir hafa búið í þúsundir ára með þeim hætti að á þá beri að líta sem gesti í landi gyðinga: „Sannleikurinn er sá að á því landi sem er okkar, í hjarta heimalands okkar gyðinga, býr nú fjöldi Palestínumanna“.

Er hægt að tala skýrar um kjarnan sem býr í stefnu Ísraela. Ísraelsstjórn krefst þess að Palestínumenn viðurkenni tilverurétt Ísraels. Á sama tíma líta þeir á sig sem réttmæta eigendur alls landsins og þar af leiðir sú stefna að Palestínumenn séu í raun réttlausir og komnir upp á náð gyðingaríkisins. Þetta sýnir skýrt að þeir viðurkenna engan rétt Palestínumönnum til handa meðan þeir setja viðurkenningu þeirra á rétti Ísraela sem skilyrði fyrir frekari viðræðum. Það má nefna stefnu Ísraela ýmsum nöfnum, meira að segja er það stundum kallað „friðarferli“. En slíkar grín nafngiftir geta aldrei falið hinn bitra sannleika: Þetta er stefna landráns og kynþáttakúgunar.


Deilt um Draumalandið

DraumalandiðAð undanförnu hafa ýmsir skrifað um heimildakvikmyndina Draumalandið eftir Þorfinn Guðnason og Andra Snæ Magnason. Skúli Thoroddsen ritar grein í Fréttablaðið og telur myndina vera ráðgátu, hann fullyrðir að „hún var hvorki heimildamynd, drama né gamanmynd“ – og hann „hallast helst að því að sé áróðursmynd, samin til að fullnægja þörfum draumóramanna um afturhvarf til þess sem var“.

Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra á vegum Framsóknarflokksins, ritar einnig grein í Fréttablaðið. Jón segir frá því að hann var einn þeirra sem samþykktu byggingu Kárahnjúkavirkjunar og því málið skylt. Jón er, líkt og Skúli, tilbúinn að skilgreina kvikmyndina og kemst að sömu niðurstöðu. Myndin er „fyrst og fremst áróðursmynd“ skrifar Jón.Hann saknar þess að „það er langt í frá að hún dragi fram heildarmynd af framvindu mála, á þann hátt sem ég hélt að heimildamyndir ættu að gera“. Jón skrifar að hann „verði að viðurkenna að ég kann ekki að draga markalínur millin heimildamynda og áróðursmynda“. En hann gerir það samt sem áður.

Kristján Jónsson, blaðamaður Morgunblaðsins, er ekki í neinum vafa um eðli myndarinnar og skrifar 3. júní: „Þetta er áróðursmynd“. Kristján telur sig vita að hvernig heimildamyndir eiga að vera: „Þar er varpað ljósi á ólíkar skoðanir á mikilvægu máli, farið í saumana á því með viðtölum og rannsóknum en hlutirnir ekki tuggðir og meltir fyrir okkur.“

Hvað er það sem þessir heiðursmenn eru að reyna að segja okkur? Hvers vegna eru þeir með sínum hætti að reyna að skilgreina myndina þannig að hún teljist ekki vera heimildamynd? Augljóslega er sumum þeim í nöp við boðskap myndarinnar og telja hana þjóna annarlegum tilgangi. Ég held að hjá þeim leynist ótti um að áhorfendur geti dregið aðra niðurstöðu en þeim er að skapi. Þeir telja það lukkað hjá sér að koma henni í flokk áróðursmynda - mynd sem sýni alranga mynd af málinu sem er til umfjöllunar að þeirra mati. Þannig telja þeir að hægt sé að draga úr áhrifamætti hennar.

Allir hafa þeir skoðanir á því hvernig heimildamyndir eigi að vera. Jón telur upp nokkur atriði sem hefðu átt að vera í myndinni að hans mati. Og hann byggir á sinni skilgreiningu hvernig heimildamyndir eiga „að sýna heildarmyndina“. Kristján telur að góð heimildamynd varpi ljósi á ólíkar skoðanir.

Ég hef unnið lengi við gerð heimildamynda og fullyrði að þremenningarnir eru að rugla heimildakvikmyndum saman við fræðslumyndir og sagnfræðirit. Heimildamyndir eru sjálfstætt listform, kvikmyndir sem er gerð út frá sjónarmiði höfunda. Það sem þær eiga sameiginlegt með fræðslu- og fréttamyndum er að þær fjalla um raunverulega atburði. Þær falla ekki undir skáldað efni eins og flestar bíómyndir. Heimildamyndinni er ætlað að lýsa ástandi eins og það kemur höfundum myndarinnar fyrir sjónir og túlka það með myndmáli úr raunveruleikanum. Í heimildakvikmynd þarf ekki að vera nein „heimild“, þ.e. gömul kvikmynd, ljósmynd eða skjal.

Það er ekki hlutverk eða ætlun þeirra sem gerðu myndina Draumalandið að draga fram allt það sem gerðist í þessu máli. Það er ekki mögulegt að búa til heildarmynd málsins. Atburðirnir eru ekki enn til lykta leiddir og það eru uppi margar skoðanir á eðli og afleiðingum framkvæmdanna.Í myndinni er ekki fjallað um áhrif ofurfjárfestinganna á ástand efnahagsmála eftir hrun eða ástandið eins og það er á Austfjörðum í dag. Sú vinna bíður sagnfræðinga og hagfræðinga; að draga saman niðurstöður og skrifa skýrslur.

Áróður er skilgreindur sem boðskapur um tiltekið málefni, ætlaður til þess að fá menn til að samþykkja skoðun áróðursmeistarans. Hann þarf í sjálfu sér ekki að vera neikvæður, það má reka áróður gegn reykingum sem geta verið lífshættulegar. Slíkur boðskapur er ekki settur fram með skírskotun til þeirra sælu sem reykingar virðast veita mörgum reykingamönnum, þvert á móti þá er áherslan á lögð á margsannaða skaðsemi reykinga.

Í heimildamyndinni Draumalandið er sett fram skoðun höfunda á umdeildu máli. Augljóslega eru þeir ekki hrifnir af því álæði sem greip stjórnvöld og þeir birta myndir sem sýna íslenska stjórnmálamenn snúast kringum erlenda álmenn, allir brosandi í austfirskri sól. Þeir liggja ekki á skoðunum sínum um eyðingu náttúru en birta jafnframt skoðanir ráðamanna og þeirra verðmætamat. Með stimplinum „áróðursmynd“ reyna þremenningarnir að koma því inn hjá fólki að myndin sé gerð til að blekkja. Þeir nota orðið augljóslega í neikvæðri merkingu og tefla fram sínum hugmyndum um heimildamyndir til að undirstrika niðurstöðuna.

Með þessum línum vil ég benda þeim á að heimildamyndir eru fjölbreyttar að gerð, þær eru verk höfunda sem nýta þetta form til að tjá sínar skoðanir og tilfinningar. Heimildamyndir segja stundum sögu einstaklinga, stundum sögu heilla þjóða – það eru engin raunveruleg takmörk. Draumalandið er góð heimildamynd.


Ræða Obama í Karíó – orð og efndir

090605 obama cairo2Ræða Obama Bandaríkjaforseta í Karíó er merkileg að því leiti að nú kveður við nýjan tón, ólíkan þeim sem við höfum vanist frá forvera hans í embætti. En þótt ræðan sé fyrir marga velkomin breyting þá verður hún aðeins metin í ljósi þeirra aðgerða sem stjórn Obama er reiðubúin að grípa til.

Raunveruleg stefnubreyting birtist í raunverulegum aðgerðum. Stjórn Obama boðar ekki uppgjör við árásarstefnuna sem hefur einkennt framferði BNA svo lengi sem elstu menn muna. Það gildir einu hversu góður vilji býr að baki orðum forsetans, Bandaríkin stjórnast áfram af hagsmunum auðhringa sem framleiða vopn og sækjast í auðlindir um allan heim.

Sem sérstakur áhugamaður um málefni Palestínumanna las ég ræðuna og velti því fyrir mér hvort orð forsetans geti boðað þeim betri tíð. Obama sagði „sterk tengsl BNA við Ísrael séu á allra vitorði“ og að tengslin séu órjúfanleg (unbreakable). Þau byggjast á „viðurkenningu á þrá eftir föðurlandi Gyðinga (Jewish homeland) sem á rætur sínar í sorglegri sögu sem ekki er hægt að afneita“.

Um Palestínumenn sagði Obama: „hinsvegar, og það er einnig staðreynd, að Palestínumenn, jafnt múslimar sem kristnir, hafa þjáðst í leit (pursuit) sinni að föðurlandi. Í rúm 60 ára hafa þeir upplifað kvöl landflótta (dislocation)“.

Þessi orð Obama eru röng að því leiti að Palestínumenn hafa ekki ástundað „leit“ að föðurlandi – þeir hafa alla tíð barist fyrir því að fá að vera um kyrrt á landi forfeðra sinna. Það eru árásir síonistanna, sem hafa stýrt Ísrael frá upphafi með dyggum stuðningi Bandaríkjanna, sem hafa hrakið þá frá landi sínu.

Við Ísraela sagði Obama: „Bandaríkin viðurkenna ekki lögmæti frekara landnáms Ísraela (continued Israeli settlements). Þessi uppbygging brýtur gegn fyrri samningum og grefur undan friðarumleitunum. Það er kominn tími til að stöðva landnámið“.

Nú ríkir í Ísrael ríkisstjórn sem neitar að viðurkenna rétt Palestínumanna til að búa í sjálfstæðu ríki Palestínumanna. Sama ríkisstjórn leggur áherslu á útþenslu ólöglegra byggða á herteknu landi. Hún framfylgir sömu stefnu og fyrri ríkisstjórnir Ísraela, en er óvenju opinská um sínar áætlanir.

Hér mæta háfleygar óskir Obama köldum veruleika síonismans, sjálfur grundvöllur gyðingaríkisins er að veði. Mismunun á grundvelli trúar og uppruna, ofbeldi gegn réttmætum íbúum landsins; blóðug saga í 60 ár verður ekki að gjalti fyrir fögur orð.

Nú mun reyna á raunverulegan vilja Bandaríkjaforseta, raunverulega ætlun hans. Hann getur, eins og margir fyrri forsetar BNA hafa gert, talað um frið fyrir botni Miðjarðarhafsins en í raun unnið gegn eigin orðum.

Menn geta auðvitað leyft sér örlitla bjartsýni og túlkað ræðu hans sem ávísun á breytta tíma. Ég er tilbúinn að gefa honum 6 mánuði til að sýna að orð hans byggi á raunverulegum vilja til að bæta hag Palestínumanna. En það kæmi mér gleðilega á óvart ef Obama setur Ísraelsstjórn úrslitakosti: farið að lögum og alþjóðasamþykktum eða uppskerið refsingar alþjóðasamfélagsins.


Bloggað á Gaza 5

Burðark 2Nú er ferð okkar til Gaza á enda. Við erum komin í gegnum varðstöð Ísraela í Erez. Til þess að komast frá Gaza þarf að fara í gegnum 11 hlið. Við vorum samferða tveimur Palestínskum konum, önnur háöldruð og hin með smábarn á handlegg. Hluti af aðferðum Ísraela miða að því að niðurlægja Palestínumenn.

Eftir að við höfum farið í gegnum landamæragæslu stjórnvalda á Gaza þá tekur við kílómeters löng ganga með allan farangur í steikjandi sólarhita.

Við fengum burðarkarla (sjá mynd) til að rogast með farangurinn að fyrsta hliðinu. Þar tekur við 500 - 700 metra langt búr. Við drógum töskurnar þann spöl og þar tók við hálftima bið í búri sem bauð ekki uppá neitt nema malbikað gólf og suð í hátölurum. Þessi bið er eingöngu gerð til þess að gera fólkinu lífið leitt. Mjög lítil umferð er um þetta fangelsishlið og fáum hleypt í geng, það er því ekki vegna anna sem allt tekur svo langan tíma.

Skyndilega opnast stálhurðir og þar er farangurinn setur á færiband. Eftir það er farið í glerbúr og þar fá menn að híma um stund. Loks er ferðalöngunum hleypt inn í annað glerbúr og þar næst opnast klefi þar sem hver og einn er skannaður frá hvirfli til ilja - skannerinn snýst í kringum mann og fyrirskipanir um að rétta upp hendur koma úr gjallarhorni. Það er engin manneskja sjáanleg en greinilegt er að einhver sér þig því þeir bregðast við hverri þinni hreyfingu.

Konan sem var með barn á handlegg þurfti að fara 3-svar inn í skannann með barnið. Röddin var ekki ánægð með eitthvað og loks kemur í ljós skraut sem tilheyrir höfuðbúnaði konunnar. Eftir að skönnun lýkur þá er gegnið í gegnum tvöfalt hlið og loks inn í herbergi þar sem taskan bíður. Svo tekur við skoðun á töskum, næst er maður kominn í stærri sal og því næst kemur dvöl í litlu búri þar sem tveir landamæraverðir spyrja mikið um ferðina og tilgang hennar. Að lokum þarf að ganga spöl að næsta hlið og þá er maður loksins kominn í gegn. Gamla konan komst í gegn en sú með barnið var send til baka.

En á Gaza eru 1,5 milljón manna enn  innilokaðir við hörmulegar aðstæður.


Bloggað á Gaza 4

Gaza tjöldj

Í dag fórum við um þau svæði á Gazaströndinni sem urðu verst úti í sprengjuárásum Ísraela. Við keyrðum lengi eftir götum þar sem ekkert var að sjá nema leyfar af húsum og verksmiðjum. Það eru stærðar svæði þar sem ekkert stendur eftir af heilu hverfunum. Sumstaðar hafa íbúar eyðilagðra húsa slegið upp tjöldum.

Eldri kona gekk til okkar og sagði okkur með miklum tilþrifum frá afdrifum fjölskyldu sinnar og eigna. Hún lýsti sök á hendur Bandaríkjanna sem stæðu á bak við Síonistana í Ísrael.

Það er greinilegt að sprengjuregn Ísraela hefur beinst að því að refsa fólkinu fyrir að vera Palestínumenn. Skipulagt dráp á búfénaði, vísvituð eyðilegging heimila og ýmissa bygginga sem hafa engann hernaðarlegan tilgang sýnir þetta skýrt.

Yfirlýst markmið Ísraela var að ráðast gegn Hamas.

Niðurstaðan er hinsvegar sú að Hamas er enn sterkara en áður og öll eyðileggingin að því leiti til einskis. Niðurstaðan er annaðhvort sú að Ísraelsk stjórnvöld eru svona heimsk eða að tilgangurinn var allann tímann sá að hindra að almenningur á Gazaströndinni geti lifað því lífi sem allir kjósa sér ef þeir eiga frjálst val. 


Bloggað á Gaza 3

ShamilÍ dag hittum við nokkra sjómenn sem reyna að stunda sjóinn við strendur Gaza. Samkvæmt Oslóarsamkomulaginu eiga Palestínumenn 20 km. landhelgi sem þeir geta stunda sínar veiðar. Og hafa reyndar gert frá fornu fari.

Nú er svo komið að Ísraelar banna þeim að fara lengra út en 3 km - ef þeir hætta sé lengra er skotið á þá.

Samil er einn þeirrra 3500 fiskimanna sem reyna að hafa lifibrauð af fiskveiðum. Nýlega skutu ísraelskir hermenn, sem dóla hér útifyrir á herskipum, á hann og hann missti vinstri hendina. Hann var þá ekki kominn lengra en 2,5 km. frá landi. Hann getur lítið stundað sjómennsku á næstunni. Enda er það tilgangur Ísraela með sífelldum árásum á fiskimenn sem eru ekki að gera annað en það sem fiskimenn gera um allan heim.

Ísraelar vilja svelta fólkið á Gaza. Með því að banna þeim að fara lengra en 3 km frá ströndinni þá koma þeir í veg fyrir að þeir nái til gjöfulustu fiskimiðanna.

Í höfninina í Gaza streymir skólp frá borginni. Hún er orðin þrælmenguð en Ísraelar koma í veg fyrir viðgerð á biluðu hreinsunarkerfi Gazabúa. Ísraelar eiga kanski eftir að sjá eftir þessu þar sem mengunin mun einnig berast til þeirra. Það er ekki langur vegur yfir til stranda Ísrael, maður sér yfir til þeirra með berum augum.


Bloggað á Gaza 2.

Össur á GazaÞað getur verið erfitt að blogga á Gaza - rafmagnið fer nokkrum sinnum á dag. Það er ein birtingarmynd umsátursins því Ísraelar bannað aðfluting á margvíslegum nauðsynjum. Meðal bannvöru er allt byggingarefni sem nota má til að endurreisa húsin sem þeir lögðu í rúst.Palestínumenn eru ótrúlega þrautseigt fólk og úrræðagott. Til þess að sigrast á aðstæðum þá grafa þeir göng undir landmærin til Egyptalands og flytja mikið magn af allskonar varningi. Talið er að stundum séu allt að 300 göng í notkun samtímis. Ísraelski flugherinn varpar oft sprengujm til að eyðileggja göngin en Gazabúar grafa stöðugt ný göng. Það er lífshættulegt og við heyrðum sögur af fólki sem hefði dáið í göngum sem Ísraelum tókst að sprengja. Meðal þess sem er flutt um göngin dag hvern eru mörg þúsund lítrar af bensíni.Fólkið hér er mjög vinsamlegt og forvitið um okkur, enda ekki mörgum útlendingum hleypt inn í fangelsið til þeirra. Í gærkvöldi gengum við frá ströndinni heim á hótelið og stoppuðum í bakaríi. Þegar að við ætluðum að borga fyrir vörurnar þá sagði afgreiðslumaðurinn að þetta væri ókeypis. Þ:á var túlkurinn okkar búinn að segja honum hver við værum og þá sagði hann að þetta væri það minnsta sem hann gæti gert fyrir fólk sem væri hingað komið til að hjálpa Gazabúum. Á myndinni er Össur Kristinsson með nýsmíðaða hulsu.

Bloggað á Gaza

Gaza spitali

Ég er staddur á hóteli í Gazaborg og er að reyna að sundurgreina í huganum allt það sem ég hef upplifað hér á tveimur dögum. Í rauninni líður mér líkt og að heil vika sé liðin frá þeirri stundu þegar við gengum í gegnum fangelsismúra Ísraela inn í stærsta fangelsi heims. Hér búa 1,5 milljón manna við skort og stöðugan ótta við loftárásir. Í gær keyrðum við um hverfi þar sem fallbyssukúlur Ísraela féllu fyrir þremur dögum og í dag heyrðum við sprengingar og skothvelli og fréttum síðar að Ísraelar hefðu drepið tvo Palestínumenn.

 

Ég er, ásamt Ingvari Þórissyni, að kvikmynda leiðangur til Gaza sem

farinn er í þeim tilgangi að færa Palestínumönnum að gjöf 30 

Gaza Rahdji

gervifætur sem félagið Ísland-Palestína heftur safnað fyrir undir forystu formannsins Sveins Rúnars Haukssonar.

Össur Kristinsson er með okkur hér ásamt þremur starfsmönnum sem sjá um að setja gervifæturna á og kenna Palestínumönnum tæknina. 

 

Við erum búnir að ræða við heilbrigðisstarfsmenn hér og lýsingarnar á hörmungunum eru ótrúlegar. Við höfum einnig séð ljósmyndir af fórnarlömbum Ísraelshers sem eru svo hroðalegar að það er ekki hægt að sýna þær opinberlega.

M.a. sjá afleiðingar nýrra vopna sem Ísraelar notuðu óspart. Þessi vopn er hönnuð af slíkri grimmd að það er erfitt að trúa orðum  læknanna sem tóku þessar myndir. En þær tala sínu máli. Þessi nýju vopn drepa ekki fórnarlambið í öllum tilfellum, en valda áverkum sem valda ævilangri örkuml. Þannig verður fórnarlambið stöðug áminning um vopnayfirburði Ísraela og verður jafnframt óvinnufær byrði á þjóðfélaginu.

Hátt í tvöhundruð manns þurfa gervifætur eftir árásirnar um jól og áramót. Efri myndin sem birtist hér er tekin af einum læknanna sem við ræddum við en hin sýnir einn þeirra sem fengu íslenska löpp í dag. 

 

 


Nóa og Míra á sviði Evróvisíón

Noa  MiraÉg varð mjög hugsi yfir sýningunni frá Moskvu í gær. Íslensku þátttakendurnir stóðu sig með prýði og komust því áfram. Það var gaman.

En fulltrúar Ísraels náðu ekki að gleðja mig - ég fór að hugsa um pólitískan veruleika á bak við þessa sýningu. Á svið stigu Nóa og Míra með lag sitt „Það hlýtur að finnast önnur leið“. Nóa er jemenskur gyðingur og Míra er palestínuarabi í föðurætt en Búlgari í móðurætt. Söngur þeirra var kynntur sem innlegg í sátta- og friðarferli milli Ísraela og Palestínumanna.

 And when I cry I cry for both of us. My pain has no name. And when I cry I cry to the merciless sky and say. There must be another way.

Þetta er hluti textans sem þær stöllur sömdu. Fólki fannst þetta fallegt og kunningjum sem ég hitti í dag fannst þetta hjartnæmt og jákvætt. Ég velti þessu fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki gott innlegg í baráttu Palestínumanna fyrir frelsi og mannréttindum. Ísrael hersitur og kúgar grimmt Palestínumenn. Þeir sem til þekkja, bæði gyðingar og aðrir, líkja framferði og stefnu Ísraels æ oftar við framferði nasista gegn gyðingum á tímum þriðja ríkis Hitlers. Þessi sýning Nóu og Míru væri lík því að brosandi  Þjóðverji hefði dregið glaðan gyðing á svið árið 1938 og sungið „það hlýtur að finnast önnur leið“! En það var eingin önnur leið þá nema að sigra nasismann og það er engin önnur leið í dag en að koma Síonismanum á kné. 

Ísrael burt úr Evróvisíón! 


60 minutes um Palestínu

t

Bandaríski fréttaskýrendaþátturinn 60 mínútur fjallaði nýlega á um lífið í hertekinni Palestínu og hvaða áhrif landránsbyggðir Ísraela hafa á friðarhorfur á svæðinu. Í óvenju hreinskilinni umfjöllun um deilur Palestínumanna og Ísraela er komið inn aðskilnaðarstefnuna sem ríkir á palestínsku herteknu svæðunum og af hverju 15 ára samningaviðræður Ísraela og Palestínumanna hafa ekki skilað þeim síðarnefndu frelsi eða eigin ríki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband