6.5.2009 | 21:47
Allt á réttri leið
Það stefnir allt í að Íslendingar hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið. Meirihluti þjóðarinnar, 61,2%, vill vita hvað aðild að ESB hefur í för með sér.
Andstæðingar aðildarviðræðna hafa dregið upp fremur ógeðfellda mynd af sambandinu, en ekki haft erindi sem erfiði. 26,9 þjóðarinnar eru skv. könnun RÚV/Gallup könnuninni eindregið á móti viðræðum og aðild.
Það vekur athygli mína að meirihluti fylgismanna allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins eru fylgjandi aðildarviðræðum. Meirihluti kjósenda Vinstri grænna lokar engum dyrum og augljóst að forysta flokksins gerir rétt með því að samþykkja þann farveg sem málið stefnir í.
Vonandi ber Alþingi gæfu til að afgreiða málið þannig að viðræður geti hafist á næsta misseri.
Tæplega 40% aðspurðra eru hlynntir aðild og treysta sér til að taka afstöðu áður en niðurstaða viðræðnanna liggur fyrir og næstum jafn stór hópur er andvígur aðild í dag. Hluti andstæðinga ESB aðildar eru þó til í að kíkja í pakkann og vita meira um hvað hann inniheldur.
Það stefnir í harðar deilur um málið, fyrst um það hvort þjóðin eigi að samþykkja viðræður og svo þegar niðurstöður eru komnar þá hefst túlkunarstríð og hatrammar deilur um hvert smáatriði.
Samtímis verður þjóðin að vinna sig upp úr öldudalnum. Það verður nóg að gera á öllum vígstöðvum.
5.5.2009 | 18:55
Valdarán?
Eftir lestur bókarinnar SOFANDI AÐ FEIGÐARÓSI eftir Ólaf Arnarson, þá virðist mér að höfundurinn sé að segja okkur að Ísland sé fórnarlamb valdaráns. Einn maður stóð fyrir þessu valdaráni, títtnefndur seðlabankastjórinn Davíð Oddsson.
Ólafur er fyrrverandi innanbúðarmaður í Sjálfstæðisflokknum, framkvæmdastjóri þingsflokksins og aðstoðarmaður ráðherra. Hann virðist hafa aðgang að mörgum heimildamönnum og gerir það frásögn hans trúverðuga.
Lýsing hinna dramtísku daga í haust leiðir að þessari niðurstöðu: Davíð lék sóló með Geir í vasanum. Hann leitaði ekki ráða hjá fagmönnum bankans, þeir fengu fréttirnar af aðgerðum DO í fjölmiðlum. Samkvæmt frásögn Ólafs þá var Davíð varaður við dómínóafleiðingum gerða sinna þegar hann greip til þeirra ráða sem beitt var við yfirtöku Glitnis. Spurningunni um hvort hefnigirni DO hafi ráðið för, illvilji hans gagnvart Baugsmönnum ofl. athafnamanna er varpað fram.
Það verður spennandi að lesa opinberu skýrslurnar sem nú er verið að vinna um hrunið. En í millitíðinni þá geta menn lesið bókina og velt því fyrir sér hvort það sé mögulegt að Ísland sé fyrsta landið sem eins manns hryðjuverkasveit kemur á kaldan klaka.
2.5.2009 | 09:12
Ár í blogginu
3. maí 2008 byrjaði ég að blogga á Moggablogginu. Nú gríp ég þessi tímamót til að líta yfir farinn veg, bæði til skemmtunar og fróðleiks.
Ég ákvað að prófa þennan vinsæla vettvang m.a. vegna þess að ég sendi stöku sinnum greinar til birtingar í dagblöðum og oft varð biðin eftir birtingu all löng.
Grein sem er ætluð til birtingar í blaði lýtur öðrum lögmálum en bloggið. Hún er takmörkuð við þá lengd sem blaðið ákveður og er skrifuð með stóran lesendahóp í huga. Viðbrögð við blaðagreinum mínum eru alltaf einhver, bæði frá vinum og fjölskyldu og stundum frá alókunnugu fólki. 90% viðbragðanna hafa verið jákvæð.
Það sem ég skrifa á bloggsíðuna er yfirleitt persónulegra og frjálslegra en blaðagrein og sambandið við þá sem lesa beinna og fljótlegra. Mikið birtist af andmælum gegn því sem ég set fram og er það oft fróðlegt og skemmtilegt, en stundum fáránlegt. Einnig birtist mikið af athugasemdum frá þeim sem samsinna mér og beina þeir oft spjótum sínum að þeim sem eru að andmæla þeim málstað sem ég held fram. Flestar hafa athugasemdir við bloggfærslu hjá mér orðið 103. Sú grein hét reyndar Bloggað um blogg og var m.a. um ofbeldið gegn þjóð Palestínumanna. Skrif um það mál kallar oftast fram mikið af viðbrögðum.
Ég byrjaði bloggferilinn á einföldum nótum, tjáði mig um umferðarmál í miðbænum þar sem ég bý. Það kom ein athugasemd við þá færslu og hún var frá konu sem bauð mig velkominn í bloggarahópinn. Það verður að teljast góð byrjun og saklaus miðað við margan óhroðan sem átti eftir að hellast inn á bloggsíðuna.
Ekki vissi ég frekar en aðrir Íslendingar (nema Davíð Oddsson auðvitað) hvað beið þjóðarinnar á haustmánuðum. Hamfarir sem komu upp á yfirborðið í lok september og þátttaka mín í bloggheimum á þessu tímabili gefa skrifkúnstum mínum aukið gildi fyrir mig. Ég les eldri færslur og fylgst með því sem ég taldi markvert hverju sinni og hvað það var sem hvatti mig til að setja fram mínar skoðanir. Nú er bara að sjá hvort næsta bloggár verður með svipuðum lagi. Kanski fer fyrir mér eins og svo mörgum bloggurum sem hafa hætt virku bloggi.
Sjáum til.
Sambloggurum þakka ég fyrir fjölbreytt samskipti þá 12 mánuði sem ég hef verið virkur moggabloggari. Og Morgunblaðinu færi ég einnig þakkir fyrir að halda úti þessum lýðræðislega leikvangi.
Hér er svo smá tölfræði yfir þetta viðburðaríka ár:
Fjöldi blogggreina sem ég hef skrifað: 106
Flettingar: 72000
Bloggvinafjöld: 53
Athugasemdir frá bloggurum: 1375
Fjöldi orða sem ég hef skrifað: 37828
Fjöldi stafa: 201132
Vídeó frá mér: 3
Vinsælustu umfjöllunarefnin:
Kreppan
Hannes Hólmsteinn
Palestína/Ísrael
Davíð Oddsson
ESB
Borgarskipulag
Sjálfstæðisflokkurinn
29.4.2009 | 10:08
„Valdalaust leppríki“
Umræður um Evrópusambandið taka oft á sig furðulega mynd. Stundum fer lítið fyrir málefnalegri umræðu af hálfu ESB andstæðinga, meira gert af því að reyna að gera fylgjendur aðildarumsóknar og aðildar tortryggilega.
Dæmi um furðurskrif fólks sem óttast ESB birtust í Morgunblaðinu í dag: Helstu ástæður þess að við Íslendingar fengjum engu ráðið í okkar málum sem aðilar að ESB ef til innlimunar kæmi er vitaskuld það hve fá við erum. Stjórnlagaþing ESB telur á sjöunda hundruð meðlima. Danir og Svíar eru með á milli 15 og 20 fulltrúa hvert land. En við Íslendingar fengjum einn fulltrúa sem örugglega fengi aldrei rétt á meira en einu atkvæði. Með öðrum orðum yrðum við valdalaust leppríki. Allar okkar auðlindir yrðu kærkomnar og nýttar af sínum nýju húsbændum. (Karl Jónatansson).
Sá sem þetta skrifar ímyndar sér að aðild breyti Íslandi í leppríki. Hann gerir ekki grein fyrir því hvaða ríki innan ESB hafa stöðu leppríkis í dag og hvaða ríki það eru sem nýta auðlindir annarra ríkja.
Hér er á ferðinni dæmigerð skrif manns sem hefur ekki hugmynd um eðli ESB. Stór hluti þjóðarinnar gengur með svipaðar hugmyndir í kollinum. Til þess að Íslendingar geti myndað sér haldbærar skoðanir á málinu er nauðsynlegt að hefja aðildarviðræður, draga fram kosti og galla og ganga síðan til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mikilvæga mál. Annað er ekki boðlegt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
25.4.2009 | 09:03
Ég ber ábyrgð
Ég tók þátt í búsáhaldabyltingunni.
Ég var á félagsfundi Samfylkingarinnar í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem grasrót flokksins tók völdin og skellti ríkisstjórninni.
Ég vil að Íslendingar gangi til aðildarviðræðna við ESB og klári það ferli sem hófst með undirritun EES samningsins.
Ég er bjartsýnn á úrslit kosninganna.
Ég er ánægður með horfurnar hjá Borgarahreyfingunni þótt hún fái ekki mitt atkvæði.
Ég birti mína spá hér og nú: B: 6 þingmenn. D: 14 þingmenn. F: enginn þingmaður. O: 4 þingmenn. P: enginn þingmaður. S: 21 þingmaður. V: 18 þingmenn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
24.4.2009 | 15:46
Trufluð útsending
Það verða stundum tæknileg mistök í málflutningi sjálfstæðismanna. Hér er dæmi.
24.4.2009 | 14:10
Firring á Flórída
Sjálfstæðismenn eru margir í rusli yfir hrakförunum sem vofa yfir flokknum í kosningunum. Það er fróðlegt að fá innsýn í hugarheim Ingva Hrafns Jónssonar sjónvarpsstjóra ÍNN sem situr á Flórída og hugsar þeim sjálfstæðismönnum sem svíkja þegjandi þörfina. Stóri bróðir kommúnismans, fasismans og nasismans heldur innreið sína á Íslandi segir Hrafn.
22.4.2009 | 23:54
Hið nýja Ísland verður í ESB
Hörðustu andstæðingar ESB aðildar vilja ekki einu sinni fara í aðildarviðræður. Þeim hugnast ekki að þjóðin geti tekið upplýsta afstöðu til málsins. Þeir halda því fram að hlutirnir séu á hreinu, Bændasamtökin eru búin að skoða landbúnaðarmálin og LÍU hafi sýnt fram á að fiskveiðiauðlindirnar fari undir erlenda yfirstjórn.
Þeir sem hafna aðild að ESB hafa engar lausnir aðrar en langa þrautargöngu með ónýtan gjaldmiðil, ekkert lánstraust og vonlaus viðskiptakjör. Sumir reyna að benda á leiðir til að losna við krónuna en jafnóðum kemur í ljós að það gengur ekki upp. Bjarni Ben formaður Sjálfstæðisflokksins reynir að feta leið sem hann veit fullkomlega að er ófær, evran verður ekki tekin upp nema með aðild að ESB.
Margir Íslendingar hafa rætt málin í útvarpi og sjónvarpi. Sumir opinbera yfirgripsmikla vanþekkingu á ESB, menn segja að ESB yfirtaki hér allt, Íslendingar verði kallaðir til herskyldu og Ragnar Arnalds, formaður Heimssýnar samtaka ESB andstæðinga, sagði í Kastljósi að við munum hverfa undir yfirráð ESB.
Andstæðingar ESB sem í raun trúa því sem þeir segja ættu manna mest að fagna aðildarviðræðum. Í samningaferlinu munu þeirra verstu spár auðvitað rætast og við þjóðinni blasir hið óttalega skrímsli með allar sínar kröfur og klæki. Þjóðin yrði ekki í neinum vafa þegar þetta opinberast og hafnar að sjálfsögðu aðild sem leiðir til yfirráða ESB.
En kjósandinn getur ekki tekið afstöðu með fordóma og rangfærslur að leiðarljósi. Hann verður að meta málið út frá sínum aðstæðum í dag og framtíð sinnar fjölskyldu. Þá vega þungt verðlags- og vaxtamál nútíðarinnar auk þeirrar eðlilegu hugsunar að foreldrar vilja búa börnum sínum góða framtíð við lífvænlegar aðstæður í því góða landi sem Ísland getur verið.
Eftir hrun bankakerfisins, afhjúpun sápukúlufjármálasnillinganna og skuldbindinganna sem mislukkaðir stjórnmálamenn skópu þjóðinni var byrjað að tala um nýtt Ísland.Draumurinn um nýtt Ísland er í rauninni óskin um lýðræðislegt þjóðfélag jöfnuðar og réttlætis. Andstæðan er flokkavaldið, ójöfnuðurinn í tekjum og aðstöðu, ójöfnuðurinn sem flokkaklíkur sköpuðu og óréttlæti ólýðræðislegra klíkustjórnmála, afhending lífsgæða til útvalinna, afhending verðmæta úr sameign í séreign. Einna hæst bar þetta skipulag ójafnaðar og flokksræðis þegar ríkisbankarnir voru seldir aðilum sem voru flokksklíkunum þóknanlegir og fiskveiðikvótar voru afhentir og meðhöndlaðir sem einkaeign.
Nú er ástandið þannig að efnahagur þjóðarinnar er í molum, lífsnauðsynleg samskipti við önnur lönd ganga illa sökum álitshnekkis og gjaldeyrishafta og gjaldþrot hlutskpti margra fjölskyldna og fyrirtækja og sömu örlög bíða fleiri ef ekki tekst að sporna við fótum.
Aðild að ESB er leið hins nýja Íslands. Með aðild yfirgefur þjóðin mislukkað peningakerfi undir stjórn sérhagsmunahópa. Þjóðin skipar sér loks að fullu í raðir þeirra þjóða sem vilja standa saman um framfarir og félagslegt réttlæti. Þetta er eina leiðin sem gerir ungu fólki fært að búa hér við þau skilyrði sem menn sætta sig við í dag.
20.4.2009 | 22:56
Dólgsleg árás á Sjálfstæðisflokkinn
Björn Bjarnason fyrrv. dómsmálaráðherra segir að Percy Westerlund sendiherra ESB gagnvart Íslandi hafi ráðist dólgslega á Sjálfstæðisflokkinn af því alkunna yfirlæti, sem sendimenn Evrópusambandsins telja sér sæma að sýna stjórnmálaflokkum og heilum þjóðum, ef menn beygja sig ekki þegjandi undir Brusselvaldið.
Tilefnið er ábending sendiherrans vegna ranghugmynda Bjarna Benediktssonar um trúverðuga leið til upptöku á evru í sátt og samvinnu við ESB. Sendiherrann er ekkert að skafa utan af því og segir hugmyndirnar nonsense. Engin sátt og engin samvinna - og Percy bætir því við að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ráði engu um upptöku Evrunnar. Og að auki þá sé verið að ræða um ríki sem þegar eru í ESB en hafa ekki enn getað tekið upp Evru. Þrefaldur misskilningur Bjarna Ben, eða þrenna eins og sagt er á íþróttamáli.
Hin dólgslega árás á þá sem beygja sig ekki þegjandi er því bara ábending um að forystumenn Sjálfstæðisflokksins séu úti að aka. Kanski hefði Bjarni bara átt að þegja og beygja sig fyrir staðreyndum málsins. Þá hefðu dólgarnir í Brussel getað átt náðugan dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
20.4.2009 | 15:31
Krísuvíkurleið í kosningaslag
Glænýr formaður Sjálfstæðisflokksins veit að aðildarumsókn í Evrópusambandið er einn besti leikurinn í núverandi stöðu Íslands. Hann hefur lýst því yfir í ræðum og riti. En hann getur ekki starfað samkvæmt sannfæringu sinni eftir að flokkurinn hans samþykkti að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar.
Fylgishrun flokksins er staðfest í skoðanakönnun eftir skoðanakönnun, evrópusinnarnir eru að yfirgefa skipið sem situr á skerinu. Nýi formaðurinn veit að íslenska þjóðin á engra annarra kosta völ en að taka skrefið til fulls frá EES til ESB. Hann má bara ekki segja það. Þess vegna bregður hann á það ráð að birta heilsíðu auglýsingu um trúverðuga leið að upptöku Evru. En í rauninni er hann að hrópa: ekki fara..við lofum að gera eitthvað, finna einhverja leið! (nema þá réttu og raunhæfu).
Textinn í auglýsingu Bjarna Ben sýnir að sannfæringin um þessa leið er ekki sterk. Traust sitt setur formaðurinn á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og sátt og samvinnu við Evrópusambandið. Það liggur þó fyrir að talsmenn ESB segja þetta ófæra leið og henni verði illa tekið - alls ekki í sátt og samvinnu!
Ljótt er ástandið í flokknum sem eitt sinn var stolt félagsmannanna, flokkur sem skaffaði vel í bitlingum og aðstöðu. Málsmetandi sjálfstæðismenn eins og Benedikt Jóhannesson benda á að flokkurinn hefur engin svör sem gagnast. Ýmsir sjálfstæðismenn skrifa á bloggsíður sínar að þeir geti ekki samvisku sinnar vegna kosið flokkinn. Margir ætla að skila auðu. (Flokksmaskínan er reyndar búin að finna upp slagorð til að reyna að sporna við því háttlagi: Auður er rauður!) Brátt standa ekki eftir nema þeir kjósendur sem munu kjósa flokkinn jafnvel þótt hann væri ekki í framboði.
Auglýsing Bjarna er í samræmi við sérálit Illuga Gunnarssonar í skýrslu Evrópunefndar fyrrverandi ríkisstjórnar: leita eigi eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að stefnt verði að því að íslensk stjórnvöld og IMF vinni að því í sameiningu að í lok áætlunarinnar geti Íslendingar tekið upp evru sem gjaldmiðil
Viðbrögð frá flokksmönnum hafa komið fram: Hið ótrúlega hefur skeð. Aðeins 3 vikum eftir lok landsfundar Sjálfstæðisflokksins, er einn frambjóðenda flokksins farinn að boða Evrópu-stefnu sem er þvert á samþykktir flokksins. (Loftur A Þorsteinson) En nú sýnist BB jr. líklega lag til að nálgast aftur sitt heittelskaða bandalag og það með tveimur fremur en einni leið: fyrst með því að viðra þessa evruleið (sem Reykjavíkurbréf í dag segir byggja á falskri forsendu), sem er e.k. leið til þess að láta loks segja sér enn einu sinni: "Nei, þú færð bara evru, ef þú gerir svo vel að gangaí EBé!" (Jón Valur Jensson)
En Bjarni Benediktsson er ekki fyrsti formaðurinn sem sendir skrítin skilaboð til kjósenda nokkrum dögum fyrir kosningar. Geir H Haarde birtist kampakátur á heilsíðu auglýsingu skömmu fyrir síðust kosningar. Það stóð skýrum stöfum: Þegar öllu er á botninn hvolft er traust efnahagsstjórn stærsta velferðarmálið
Nú er öllu á botnin hvolft og nýr formaður boðar ekki trausta efnahagsstjórn. Hann boðar einskonar Krísuvíkurleið sem auðvitað leysir enga krísu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)