27.10.2012 | 20:14
Af kögunarhóli Þorsteins Pálssonar
Nú hefur enn einn sjálfstæðismaðurinn bæst í hóp þeirra sem sjá ný og óvænt tækifæri í atkvæðum þeirra Íslendinga sem ekki mæta á kjörstað. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður flokksins, skrifar í Fréttablaðið 27. 10. 12. um svör minnihlutans og þögn meirihlutans í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þögn meirihlutans er hið nýja fagnaðarerindi og kemur í stað hefðbundinna úrslita í l nýja leiðin er að sönnu krókóttari því að menn vita ekki hvað meirihlutinn vill. En menn eru tilbúnir til að leggja mikið á sig til að ná til nýrra stranda og þótt leiðin sé að sönnu krókóttari, skal hún samt farin að mati Þorsteins! ýðræðislegum kosningum. Þorsteinn viðurkennir að
Þorsteinn varpar fram spurningu um hvort skynsamlegt sé að líta svo á að meirihlutinn sé svo hugsunarlaus og skoðanalaus um þessi efni að ekki eigi að gera tilraun til að ná til hans. Það sem fyrst kemur upp í hugann er sú staðreynd að boðað var til kosninganna með öllum tiltækum ráðum og þær voru frjálsar öllum Íslendingum með atkvæðisrétt. Tilraun sú sem Þorsteinn ræðir um hefur því þegar verið framkvæmd, þ.e. hér fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla. En tilraunin fór ekki að óskum Sjálfstæðisflokksins og því er hún ekki marktæk - þetta er raunverulega innihaldið þegar orðskrúði manna um annan tilgang sleppir.
Þetta afhúpast ágætlega í eftirfarandi hugmynd Þorsteins um að Sjálfstæðisflokkurinn leggi fram heildstætt frumvarp að endurskoðaðri stjórnarskrá og geri kröfu um að þjóðin fái að velja á milli tveggja kosta samhliða næstu alþingiskosningum. Slíkri kröfu er ekki unnt að hafna málefnalega í ljósi þess að meirihluti kjósenda hefur ekki lýst viðhorfum sínum. Sem sagt, á meðan meirihluti kjósenda hefur ekki greitt atkvæði samkvæmt vilja Sjálfstæðisflokksins er ekki unnt að hafna kröfu hans um nýjar aðferðir til að sætta þjóðina við vilja hans.
Þorsteinn telur að viðhorf sín geti helgast af málinu sem er til meðferðar, sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins og mikilvægi sátta um slíkt stórmál.
Vissulega er stjórnarskráin grundvallarmál sem þjóðin tekst á við og hefur ferlið verið í þeim anda. Boðað var til þjóðfundar með slembiúrtaki, stofnaður var hópur sérfræðinga og valinna leikmanna til að vinna úr niðurstöðum þjóðfundarins sem síðan lagði málið í hendur Stjórnlagaráðs. Kosið var til stjórnlagaþings með opinni kosningu sem allir atkvæðisbærir gátu tekið þátt í. (Millileikur Hæstaréttar er á skjön við reglur réttarríkisins og verður ekki ræddur hér). Stjórnlagaráð starfaði fyrir opnum tjöldum og var í sambandi við þúsundir manna sem lögðu orð í belg. Og stuttu fyrir atkvæðagreiðsluna var gefinn út vandaður bæklingur sem útskýrði málið lið fyrir lið.
Tvær skoðanakannanir voru framkvæmdar fyrir kosningar og sýndi sú sem hefur verið birt (MMR) nánast sömu niðurstöðu og kosningin sjálf. Af óútskýrðum ástæðum hefur Capacent ekki viljað birta niðurstöðu skoðanakönnunarinnar sem þeir gerðu.
Vandaður undirbúningur, opið ferli og skoðanakannanir eru andstæða krókóttu leiðarinnar sem Þorsteini líst svo vel á.
Viðhorf Þorsteins Pálssonar mótast af mislukkaðri aðför sjálfstæðismanna ofl. að ríkisstjórninni sem kom þessu ferli af stað með stuðningi meirihluta Alþingis. Niðurstaða Þorsteins er sú að hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstaðan ríður feitum hesti frá þessari atkvæðagreiðslu. Hann er fastur í flokkshagsmunum og átökum við stjórnarflokkana. Hann víkur ekki einu einasta orði í greininni að efnisatriðum í stjórnarskrártillögunum, ekkert skrifar hann um það hvaða vandamál hann sér í þeim. Hann einblínir á tæknileg atriði vegna þess að þar sér hann tækifæri til þess að flokkurinn stjórni för eins og þeir hafa vanist.
Framferði þeirra er aðför að lýðræðinu en ekki tilraun til að skapa okkur betri framtíð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.10.2012 kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
24.10.2012 | 20:38
Nú þarf ég að fá áfellishjálp
Ég fór að rýna betur í orð Vigdísar Hauks, hins gustmikla þingmanns Framsóknarflokksins, varðandi stjórnarskrármálið. Ég þóttist hafa skilið það sem hún sagði og gerði smá grín.
Tilvitnunin í Vigdísi sem flaug um netið er svona: Framtíðarsýn okkar framsóknarmanna er að eftir fimm ár verði hér á landi í gildi stjórnarskrá sem stjórnlagaþing hefur sett. Það er auðvitað tóm vitleysa að stjórnlagaþingið setji nýja stjórnaskrá, einungis Alþingi er fært um slíkt.
Vigdís vildi leiðrétta stefnun flokksins, sem hún taldi vera vitlausa en var í raun bara hennar rangtúlkun, og í viðtali við DV sagði hún Þetta er bara kvót í stefnuskránna sem þá var og sú stefna er ekki í samræmi við landslög. Vigdís vildi fylgja landslögum og skipti um skoðun, að sjálfsögðu eins og hún orðaði það.
En nú kemur í ljós, eftir örlitla rannsókn, að viska Vigdísar er flóknari en við blasti í fyrstu. Hún segir að það sé manndómsmerki Framsóknarflokksins að viðurkenna að stefna flokksins hafi verið röng á þessum tíma í þessu máli.
En þingmaðurinn Vigdís vitnaði vitlaust í stefnu flokksins sbr. orð hennar: Það var á stefnuskrá Framsóknarflokksins að fara af stað með bindandi stjórnlagaþingskosningu. Svo þegar ég fór að skoða málið, samkvæmt stjórnarskrá, þá brýtur það gegn stjórnarskránni. Þannig að ég fer lögum og skipti um skoðun. Hún las stefnuplaggið vitlaust og leiðrétti svo stefnu flokksins sem hún hafði rangtúlkað, og var því ekki sú sem Vigdís sagði. Og síðan skipti hún um skoðun á stefnu flokksins sem var aldrei stefna flokksins!
Hið rétta er að stefna Framsóknarflokksins var "Við viljum ... að ný og nútímaleg stjórnarskrá verði samin af stjórnlagaþingi þar sem eiga sæti þjóðkjörnir fulltrúar". Ekkert bull um að stjórnlagaþing setji nýja stjórnarskrá.
Samantekið er málið svona: Vigdís fer rangt með stefnuna, trúir á eigin rangfærslu og telur að flokkurinn hafi leiðrétt ranga stefnu og sýnt þar með manndómsbrag. En flokkurinn gerði ekkert á meðan Vigdís fór nokkra hringi, flokkurinn var bara hinn rólegasti og hafði aðra stefnu en Vigdís sagði hann hafa og misskildi síðan eigin misskilning og leiðrétti hann svo vitlaust og... æ ég er búinn að týna þræðinum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.10.2012 | 14:36
Manndómsmerki Framsóknar?
Vigdís Hauksdóttir kemur sífellt á óvart. Engin núverandi þingmaður hefur þennan hæfileika hennar að skipta um skoðun sem byggðist á misskilningi og koma sér upp nýrri skoðun sem er tóm vltleysa.
Skoðum nýjasta dæmið. í apríl 2009 segir Vigdís: Framtíðarsýn okkar framsóknarmanna er að eftir fimm ár verði hér í gildi stjórnarskrá sem stjórnlagaþing hefur sett.
Í dag segir hún í viðtali við DV: Það var á stefnuskrá Framsóknarflokksins að fara af stað með bindandi stjórnlagaþingskosningu. Svo þegar ég fór að skoða málið, samkvæmt stjórnarskrá, þá brýtur það gegn stjórnarskránni. Þannig að ég fer lögum og skipti um skoðun.
Upphaflega skoðunin, um að Stjórnlagaþing setji stjórnarskrá er auðvitað arfavitlaus og furðulegt að framsóknarmenn hafi borið fram þessa framtíðarsýn. Aðeins Alþingi getur sett nýja stjórnarskrá.
Vigdís veit núna að þetta er rangt og kemur skeiðandi fram með skýringar: Alþingi eitt getur breytt stjórnarskránni og mér finnst það manndómsmerki að viðurkenna að stefna flokksins hafi verið röng á þessum tíma í þessu máli og þar af leiðandi fer ég að landslögum og skipti um skoðun, að sjálfsögðu."
Það er manndómsmerki að viðurkenna ranga stefnu segir Vigdís. DV: Hún segir að þann lærdóm megi af þessu draga að allir flokkar þurfi að vanda sínar stefnuskrár. Þær þurfi að samræmast landslögum. Það er lærdómurinn sem ég dró af þessu máli þarna 2009.
Gott og vel, flokkar þurfa að fara eftir landslögum - það er lærdómurinn segir Vigdís og það gerðist núna. Sem sagt núna vita framsóknarmenn að stefna þeirra verður að falla að landslögum. Vissu þau það ekki fyrr? Veit Vigdís hvað felst í hennar eigin orðum? Var flokkurinn að samþykkja stefnu utan við lög og rétt eða er Vigdís að fabúlera og misskilja vitlaust?
Er einhver framsóknarmaður tilbúinn að greiða úr þessari flækju?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.10.2012 | 12:16
Nýr umboðsmaður
17.10.2012 | 14:25
Dramadrottning Sjálfstæðisflokksins
Hin nýja dramadrottning Sjálfstæðisflokksins, Geir Jón fyrrverandi lögregluþjónn, sparaði ekki lýsingarnar í erindi sínu í Valhallarmusterinu.
Skv. Fréttablaðinu sagðist hann telja að 8. desember 2008, þegar hópur fólks fór inn í Alþingishúsið, hefði verið einn alvarlegasti dagur mótmælanna. Hann sagðist jafnframt vera þeirrar skoðunar að ef fólkið hefði ekki verið stöðvað hefði það tekið yfir þingið.
Gott og vel - níu unglingar ráðast inn og reyna að komast á þingpalla með spjöld og borða. Ef fólkið hefði ekki verið stöðvað hefði það tekið yfir þingið. Hvernig? spyr ég. Hvað felst í yfirtöku þingsins? Það tekur vel þjálfaða lögreglumenn ekki nema hálftíma að sækja fólkið á pallana og setja það í járn. Og þingið hefði haldið sínu striki.
Yfirtaka þings, sem vel að merkja er oft til umræðu á Útvarpi Sögu, verður ekki gerð með upphlaupum og hávaða. Það þarf skipulag og langtímaáætlun. Ekkert slíkt var á dagskrá níumenninganna (eða annarra mótmælenda), þeir eiga sér ekkert bakland í þjóðfélaginu til yfirtöku á einu eða neinu. Þeir kenna sig við stjórnleysi (anarkisma) og aðgerðin í þeim anda.
Tilraunir lögregluþjónsins fyrrverandi og fleiri til þess að gera atburðina við Austurvöll að einhverju öðru, en þeir voru í raun og veru, er aðför að sannleikanum. Og tilgangurinn er sá að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga með dylgjum um að þeir hafi fjármagnað og stjórnað aðgerðum. Sú litla stjórnun sem var til staðar var fyrst og fremst í þeim tilgangi að hvetja menn að fara friðsamlega og án ofbeldis. Það tókst ekki í öllum tilvikum - en það voru mótmælendurnir sjálfir sem reyndu að stilla til friðar og hindra slys.
8.10.2012 | 15:35
Sá vondi sjálfur
Það er gaman að lesa Vinstrivaktina gegn ESB.
Hér er smá sýnishorn eignað Helga Seljan fyrrv. þingmanni:
Hvernig dettur nokkrum í hug að þessi gömlu nýlenduveldi sem deildu og drottnuðu hér áður fyrr séu allt í einu orðin full af kærleika og sanngirni í garð smáríkis eins og okkar? Og sporin hræða varðandi þetta alþjóðlega drottnunarvald. Makríldeilan er lýsandi dæmi um drottnunargirnina og óbilgirnina, að ógleymdum hrokanum. Meira að segja Danir sem ég hélt að hlytu að standa með Færeyingunum sínum í þessari deilu bugta sig og beygja fyrir ESB-valdinu. Og svo koma flærðarfullir útsendarar þessa valds hingað til lands og belgja sig út af tillitssemi sem þeir þykjast fullvissir um að við munum njóta til hins ýtrasta, ef við bara berum »gæfu« til að afsala okkur fullu sjálfstæði í hendur almættisins í ESB. Mikil er mín andstyggð á þeim, en hálfu meiri á þeim sem leggja þar á trúnað, útsendararnir eru þó bara auðsveipir þjónar almættisins.
Þetta líkist ræðu sem andríkir prestar halda stundum til að vara við hinum vonda sjálfum.
8.10.2012 | 08:19
Samsærisórar og STASIdraumar
Björn Bjarnason opinberar sínar hugmyndir um forvirkar rannsóknarheimildir gegn mótmælendum og Davíð Oddsson sýnir sterk tilþrif í endurritun sögunnar.
Davíð skrifar að Búsáhaldabyltingunni hafi verið stjórnað og Björn vill hafa heimildir til að njósna um þá sem skipuleggja mótmælaaðgerðir. Ef hugmyndir Björns hefðu komist í framkvæmd fyrr þá hefði löggan fengið skipun að grípa þá sem skipulögðu mótmælin eftir að hafa uppgötvað (með forvirkumnjósnum) að það var bara hann Hörður Torfa sem stóð í þessu með hringingum og fundum.
Þeir hefðu þá -væntanlega- farið heim til Harðar og..? og hvað? Stungið honum inn?
Samsærisórar ritstjórans eru í takt við STASI-drauma dómsmálaráðherrans fyrrverandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.9.2012 | 11:04
Náungakærleikur og möskvastærð
Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ segir eftirfarandi í nýlegu viðtali í blaðinu Reykjanes: Í stað þess að við sameinumst til stuðnings náunga okkar sem á erfitt t. d. í gegnum eigin framlög með vinnu eða fjármunum, kirkjufélög, sjálfboðasamtök, er öllu vísað á ríkisstofnanir, af því að skattarnir og bótakerfi eigi að sjá um alla þá sem þurfa á hjálp að halda, aldraða, sjúka, fatlaða eða atvinnulausa. Þessi ríkisvæðing er að draga okkur, hvert og eitt, frá persónulegri ábyrgð á náunga okkar. Náungakærleikur dofnar.
Skoðum þetta nánar í ljósi þess að hér talar þungaviktarmaður í Sjálfstæðisflokknum. Árni segir: í stað þess að við sameinumst... Þessi setning vísar á að við séum ekki að sameinast - í stað sameiningar um hjálp er eitthvað annað ofan á. Stenst þetta? Nei - hér starfa fjöldi samtaka sem byggja á náungakærleikanum og sjálboðaliðastarfi. Nægir að nefna SÁÁ, SÍBS, Landsbjörg, Rauði krossinn og óteljandi samtök sem sinna bæði sjúkum og efnalitlum. Það er ekki öllu vísað á ríkisstofnanir í stað þess að sameinast. Árni bara bullar.
Skoðum þá málið í pólitísku samhengi; hvaða stefna býr að baki?
Árni gagnrýnir velferðarkefið sem við búum við, honum hugnast ekki að öllu sé vísað á ríkisstofnanir að skattarnir og bótakerfi eigi að sjá um alla þá sem þurfa á hjálp að halda, aldraða, sjúka, fatlaða eða atvinnulausa. Hér er kýrskýr stefna Árna og skoðanabræðra hans í flokknum, þeir eru sammála Romney frambjóðanda Repúblikana í BNA.
Romney lýsti stefnunni skýrt á lokuðum fundi með ríkum stuðningsmönnum. Að hans áliti er hluti Bandaríkjamanna þeirrar trúar að: að þeir eigi rétt á heilsgæslu, fæðu, húsnæði og nefndu það bara....
Það sem skilur á milli stefnu hægri manna og jafnaðarmanna í þessu máli er hvort réttur allra til mannsæmandi lífs, jafnt öryrkja, sjúkra og fátækra, er tryggður í lögum eða háður duttlungum manna hverju sinni.
Ef bótakerfið er gott þá dofnar náungakærleikurinn segir Árni. Brauðmolakenning Hannesar Hólmsteins ofl. byggir á því að gefa ríku fólki svigrúm til að efnast endalaust og þá muni framkvæmdagleði þeirra skila sér í batnandi efnahag allra. Það er hluti þessarar hugmyndafræði að umsvif ríkisins séu sem minnst.
Í stað velferðarkerfis skal koma öryggisnet sem á alltaf að vera til staðar að sögn Árna. Til þess að náungakærleikur Árna og Romney fái notið sín verður möskvastærðin í öryggisnetinu að vera rífleg, veikja skal velferðarkerfið, annars falla ekki nægilega margir í hendur þeirra sem sinna hjálparstarfi í frístundum.
Þetta er gott að hafa í huga í komandi kosningabaráttu.
14.9.2012 | 09:07
Fyrstu tölur í sókninni gegn sósíal ismanum
10.8.2012 | 09:29
Um stjórnmálalegan rétttrúnað
Leiðarahöfundi Morgunblaðsins þann 25. júlí s.l. er tíðrætt um stjórnmálalegan rétttrúnað.
Þetta fyrirbrigði snýst eins og vindhani, að mati ritstjóra Mbl., og getur einn daginn beint rétttrúuðum til fylgis við öfgastefnur allrahanda og andstöðu við skárra (að mati Mbl.) fólk sem hefur haldið fast við lögmál lýðræðisins.
Önnur birtingarmynd stjórnmálalegs rétttrúnaðar að mati ritstjórans er afstaðan til flóttamanna (gæsalappirnar eru ritstjórans) virðist vera eitt af þessum inn málum.
En eins og ritstjórinn veit þá er stjórnmálalegur rétttrúnaður nánast tískufyrirbrigði. Áður fyrr var skrifað í Morgunblaðið um málefni flóttafólks samkvæmt stjórnmálalegum rétttrúnaði sem hljóðaði svo: Það verður að fagna því, að yfirvöld skuli hafa tekið rögg á sig gagnvart þeim landshornalýð, sem flækst hefur hingað til lands... vonandi sjá yfirvöld til þess, að útlendingum verði sem minnst veitt hér landvistarleyfi". Hér var því fagnað á síðum Mbl. að flóttamanni sem reyndi að flýja gerræði nasista í Þýskalandi, gyðingi að nafni Rotberger, var vísað frá Íslandi. Þessi stjórnmálalegi rétttrúnaður, sem var þá inn hjá sumum, birtist í Mbl. þ. 27. apríl 1938.
Annað tískufyrirbrigði skv. skilgreiningu ritstjórans er að andstaða í garð Ísraelsríkis fer vaxandi á Vesturlöndum og er að nálgast að fá stöðu stjórnmálaegs rétttrúnaðar. Réttur gyðinga til tilveru þar, svo að ekki sé minnst á til ríkis, er dreginn í efa af meiri ákafa en fyrr.
Hér er greinilegt dæmi um hinn hverfula rétttrúnað. Áður var því fagnað á síðum Mbl. að gyðingar hlutu ekki náð hérlendis. En nú tekur ritstjóri Mbl. afstöðu gegn þeim sem, í anda stjórnmálalegs rétttrúnaðar, agnúast út í ríki gyðinga. Áður voru gyðingar í hlutverki fórnarlambsins og þá áttu þeir ekki griðland hjá Morgunblaðsskribentinum. En nú, þegar þeir ráða 3ja öflugasta her heimsbyggðarinnar, ræna landi og brjóta alþjóðalög, þá leitar samúð ritstjóra Morgunblaðsins til herveldisins. Er sú samúð þá inn hjá ritstjórn Morgunblaðsins?