Farandsirkusinn

LandtökumennRíkisútvarpið hefur upplýst að: „Friðarviðræður Ísraela og Palestínumanna hafa siglt í strand aðeins fimm vikum eftir að þær hófust formlega“.

Farandsirkusinn sem nefnist „friðarferlið“ lagði af stað undir stjórn Clintons Bandaríkjaforseta árið 1993 og er enn á ferðinni. Ólíkt öðrum sirkusum þá hefur þessi ekki skilað neinni gleði þótt innanborðs séu fleiri trúðar en gerist og gengur.  Í frétt RÚV segir að: “Hóflegrar bjartsýni gætti þegar nýjasta lota friðarviðræðna hófst„. Það fylgdi ekki fréttinni hverjir voru með veika von um árangur. Það er mjög áhugavert að vita í hverra brjóstum vonin bjó – því enginn af núverandi skemmtikröftum sirkusins er boðberi friðar og vonar um betra líf. Lítum á sirkustrúðana og „friðarsókn“ þeirra:

Netanyahu forsætisráðherra Ísrael er þekktur harðlínumaður og er í forystu ríkis sem stendur fyrir stórfelldum þjófnaði á landi nágranna sinna. Á vefnum er hægt að hlusta á upptökur þar sem hann hrósar sér af því að hafa eyðilagt fyrri friðarviðræður með klókindum sínum. Hann vissi ekki að vídeóvélin var í gangi og var því óvenju opinskár. Hér er slóðin:(http://www.youtube.com/watch?v=eeT_KLuCdug&feature=related)  Netanyahu er talsmaður ólöglegra landtökubyggða á landi Palestínumanna þar sem nú búa 510,000 Ísraelar í trássi við alþjóðalög. Friðurinn sem hann sækist eftir er friður til þess að stela meira landi og hrekja fleiri Palestínumenn burt.

Mahmoud Abbas „forseti“ Palestínumanna er umboðslaus. Boða átti til þingkosninga í Palestínu skv. lögum í janúar 2009, en Abbas aflýsti þeim af ótta við fylgistap Fatahhreyfingarinnar. Salam Fayyad heitir „forsætisráðherrann“ sem fylgir Abbas í „ferlinu“. Hreyfing sem hann styðst við hlaut 2% atkvæða í síðustu kosningum – hann telst því ekki atkvæðamikill friðarfrömuður og umboð hans er ekkert. Friðurinn sem þessa kumpána dreymir um er friður til að halda illa fengnum völdum.

Obama, Bandaríkjaforseti, hefur forskot á hina trúðana þar sem hann er handhafi friðarverðlauna Nóbels. Grínvísitala hans er hærri en hinna því hann stjórnar herveldi sem víða kastar sprengjum á saklausa borgara í nafni baráttu fyrir friði og frelsi. Hundruð þúsunda hafa látið lífið í þessari friðarviðleitni hans og forveranna í embættinu sem hann nú skipar.  Friðurinn sem hann vill er friður á forsendum heimsveldisins sem styður við bakið á landtökumönnunum sem eru sagðir vera helsta fyrirstaða fyrir friðarferlinu!  Farandsikrusinn fer því í hringi og fjölmiðlar heimsins fygjast spenntir með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað kemur ESB málinu við?

kryppa.com (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 19:41

2 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Þetta fór því miður eins og maður óttaðist. Það vantar sterkari forystu hjá báðum deiluaðilum til að ná árangri en einnig vantar ákveðnari forystu alþjóðakerfisins til að knýja fram samninga. Öfgamenn beggja aðila hljóta að þessari niðurstöðu.

Jón Baldur Lorange, 8.10.2010 kl. 19:54

3 Smámynd: Jón Baldur Lorange

... að fagna þessari niðurstöðu ...

Jón Baldur Lorange, 8.10.2010 kl. 19:54

4 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Jón Baldur

Ég held að öfgamennirnir í þessu dæmi séu þeir sem ég fjalla um hér að ofan. Það eru öfgar að blekkja heimsbyggðina með trúðaleik sem hefur engan tilgang nema að auka misrétti, mannréttindabrot og ófrið.

Björn frændi (kallar sig Kryppu núna) - þú veist hver hlutur ESB er og ég veit það líka.

Hjálmtýr V Heiðdal, 8.10.2010 kl. 19:58

5 identicon

Get tekið undir það að þeir sem þú telur upp hér fyrir ofan eru án efa öfgamenn.

En hvað með hina hreyfinguna í Palestínu? þeir sem kalla sig Hamas.

Hefur þú eitthvað út á stefnu þeirra að setja ?

Einar (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 12:29

6 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Einar

Stefna Hamas mótast m.a. af trú þeirra. Ég tel að trúmál og stjórnmál eigi ekki saman. Hamas er að vísu margflókin hreyfing og innan hennar eru bæði hófsamur hluti og öfgafyllri armur.

Hamas er hinsvegar með mikið fylgi meðal fólksins eins og fram kom í síðustu löglegu kosningunum. Þess vegna er rangt að halda þeim fyrir utan viðræður. En væntanlega ræðst það af því að þeir taka ekki í mál að eltast við fáránlegar kröfur Ísraela.

Með þátttöku í kosningum og ýmsu sem frá Hamas hefur komið þá sést að þeir eru hreyfing sem er til í að vinna í samræmi við þann veruleika sem við blasir.

En Hamas er ekki aðal áhyggjuefnið að mínu mati.

Hjálmtýr V Heiðdal, 9.10.2010 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband