4.3.2009 | 08:51
Frjálshyggjan er komin fram yfir síðasta söludag
Bjarni Benediktsson formannsefni Sjálfstæðisflokksins lýsti því í viðtali á mbl.is að Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á ýmsu af því sem að hefur ekki lánast nógu vel hjá okkur á undanförnum árum.
Hér er hann að fjalla um skýrslu undirhóps hjá s.k. Endurreisnarnefnd flokksins. Skýrsla hópsins er upptalning á langri röð mistaka sem hópurinn telur flokkinn hafa ástundað.
Geir Haarde fráfarandi formaður er ekki ánægður með að menn séu að snúa sér að fortíðinni. Hann segir að Endurreisnarnefndin eigi að fjalla um framtíðina. Hér er einhver vandi á ferðinni sem flokkurinn þarf að sigrast á. Formannsefnið er tilbúinn að ræða fortíðina og segir m.a. í fyrrnefndu viðtali: Ég vil ekki meina að við höfum verið að reka harða frjálshyggju.
Það sem væntanlegur formaður Sjálfstæðisflokksins segir um stefnuna sem flokkurinn fylgdi er rétt að því leiti að aðal harkan var ekki komin til framkvæmda. En menn verða að huga að því að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið einráður þá hefði verið gengið miklu lengra en raunin varð. Villtustu draumar nýfrjálshyggjunnar gengu út á afnám eða samdrátt samneyslu - að stokka upp allt kerfið, velferðarþjóðfélagið okkar og regluverkið sem ríkir. Ýmsir segja að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki hreinn frjálshyggjuflokkur. Það er rétt svo langt sem það nær. Hólmsteinskan var hinsvegar með sterk tök. En flokkurinn hefur alltaf þurft að fylgja stefnu málamiðlunar til að eiga séns í atkvæðabaráttunni. Hrein frjálshyggja er ekki góð söluvara.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hverskonar bull þarf ævinlega að vera í gangi með stefnu Sjálfstæðisflokksins? Allt frá fyrstu tíð hefur stefna flokksins verið mannfjandsamleg í framkvæmd en reynt að breiða yfir með hinum og þessum kennisetningum. Stefna flokksins snýst einfaldlega um að þeir sterku fái forgang í samfélaginu s.b.r. stjórn fiskveiða. Og flokkurinn er enn þann dag í dag að reyna að sannfæra kjósendur um að ef þeir kjósi ekki flokkinn þá muni kommúnistar komast til valda og taka eigur fólksins herskildi til að afhenda þær fátækum. Þeir virðast enn trúa þessu sjálfir vesalings bjálfanir.
Árni Gunnarsson, 4.3.2009 kl. 16:55
Sæll Hjálmtýr.
Mér finnst dáldið merkilegt þegar menn tengja valdatíma sjálfstæðisflokkins (+framsókn/samfylking) undanfarin ár við nýfrjálshyggju. Er það nýfrjálshyggja að auka skattheimtu sem hlutfall af þjóðarframleiðslu? að stórauka framlög ríkisins til menntamála og heilbrigðismála? að fjölga ríkisstarfsmönnum? að bæta við mörgum kílómetrum af lögum og reglugerðum, að láta opinbera sjóði vera í ábyrgðum fyrir einkafyrirtæki o.s.frv.? Ég er ekki viss um að þetta sé alveg samkvæmt fræðibókum frjálshyggjumanna en sú hugmyndafræði á sér reyndar margar hliðar.
Þorsteinn Sverrisson, 4.3.2009 kl. 19:36
"Hrein frjálshyggja er ekki góð söluvara."
Nú þegar ríkisvæddasti iðnaðurinn (bankakerfið) í þessu sósíalíska ríki, þar sem ríkið og stjórnmálamenn eru búnir að vera með puttana í öllum málum áratugum saman, er farinn á hliðina er kannski von til þess að fólk fari að sjá vitið í því að almenningur fái frelsi til að ráða sér sjálft, í stað þess að þurfa að eiga allt sitt undir misvitrum fyrirhyggjupólitíkusum.
Þannig að frjálshyggjan er vonandi á leiðinni að verða betri söluvara hér á landi. Þegar firringin, rakaleysið og múgsefjunin sem nú dynja á okkur eru liðin hjá.
Kolbeinn Gunn (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 21:45
Erum við þá að ræða um flokk sem hefur hvorki getað uppfyllt frjálshyggjustefnumið né staðið sig sem „sósíaliskur“ ríkisforsjárflokkur?
Það hlýtur þá að vera réttnefni sem gengur nú um netheima: Skussaflokkurinn.
Það er staðreynd að ríkisbáknið hefur þanist út sem aldrei fyrr á valdatíma flokksins. Og það er staðreynd að menn hafa haft það að
leiðarljósi að auka frelsi í viðskiptum, að uppfylla fjórfrelsi EES. Það er staðreynd að talsmenn flokksins hafa framkvæmt einkavæðingu
og staðið fyrir mesta ráni Íslandssögunnar (kvótinn).
Þorsteinn - hvernig hefði flokkurinn stjórnað ef frjálshyggjan hefði haft meiri framgang?
Þú nefnir aukin framlög til menntamála og heilbrigðismála. Ertu að segja að þetta hefði verið á annan veg ef frjálshyggjan hefði haft sterkari tök? - verið „betri söluvara“
Nú, í kjölfar hrunsins, er rætt um enn strangari regluverk. Og ekki bara hér, líka í háborgum kapitalismans. Þróunin er sem sagt í öfuga átt séð með augum frjálshyggjumanna.
Hjálmtýr V Heiðdal, 5.3.2009 kl. 08:23
Það má alveg gleyma Frjálshyggjunni í bili. Svo miklu óorði er búið að koma á hana. Að ósekju finnst mér. Það er ósköp auðvelt fyrir þá sem hafa ekki verið við stjórn undanfarin ár að þykjast vera heilagir menn. Hef ekki trú á því að þeir séu hæfari og skynsamari án þess að ég haldi því fram að þeir sem hafi stjórnað hafi verið einhverjir snillingar.
Ég hef lengi verið hrifinn af frjálshyggjunni. Þ.e. að umsvif hins opinbera eigi að miða að því að tryggja öryggi borgaranna, veita grunnþjónustu og samhjálp til þeirra sem þurfa á henni að halda. Ekki hjálpa fullfrísku fólki og nota einkarekstur og markaðslausnir sem mest. Líka í opinberri þjónustu. Það má örugglega líka kalla þetta frjálslynda jafnaðarstefnu enda hefur mér stundum þótt stefna annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins vera nær frjálshyggju á stundum, amk í enstökum málum.
Skil ekki þessi upphróp ýmissa manna núna um að tími Nýfrjálshyggjunnar sér liðinn. Og hver er munurinn á Nýfrjálsyggju og Frjálshyggju?
Þorsteinn Sverrisson, 5.3.2009 kl. 17:03
Sæll Hjálmtýr,
Það er greinilegt að kjósendur vilja ansi margir kaupa útrunnar vörur ef marka má síðustu könnun.
Þú skrifar "Og það er staðreynd að menn hafa haft það að leiðarljósi að auka frelsi í viðskiptum, að uppfylla fjórfrelsi EES" Á maður að skilja þetta sem gagnrýni af þinni hálfu, manninum sem ætlar að kjósa Samfylkinguna og láta teyma sig á asnaeyrunum inní ESB? Þú getur varla verið á móti regluverkinu í ESB á sama tíma og þú styður og dýrkar þá manneskju sem ætlar að tryggja það að þjóðin sæki um aðild að ESB.
kv
Gunnar
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 19:52
Þorsteinn
Ég hef alltaf skilið það svo að viðbótin „ný“ við frjálshyggjuna sé það afbrigði sem gengur lengst í trú sinni á markaðslögmálin sem n.k. náttúrulögmál. Sbr. Hannes Hólmstein sem hefur haldið þessu stift fram. Einnig kemur í hugann stefna Thatcher sem vildi einkavæða serm mest, draga úr afli almannasamtaka og sitthvað fleira.
Þú skrifar: „Ekki hjálpa fullfrísku fólki og nota einkarekstur og markaðslausnir sem mest. Líka í opinberri þjónustu.“ Foreldrar með ungabörn eru yfirleitt „fullfrískir“ - eiga barnabætur þá ekki rétt á sér? Hvað með húsleigubætur? Hvað með Íbúðalánasjóð?
Hvar eru mörkin? Hve langt má ganga í hinni hreinu markaðstrú?
Hjálmtýr V Heiðdal, 6.3.2009 kl. 11:07
Nei mér finnst að það eigi að einskorða barnabætur til þeirra sem virkinlega þurfa á þeim að halda. Óþarfi að láta hátekjufólk fá barnabætur og húsaleigubætur.
Sama með fæðingarorlof. Mér finnst að það ætti að sleppa því. Spara pening sem fer í að reka dýrar útgreiðslustofnanir og láta hann frekar renna til þeirra þurfa á aðstoð að halda.
Sjálfstæðisflokkurinn kom reyndar fæðingarorlofskerfinu á og ég heyrði Geir Haarde einu sinni segja að það væri eitt af því sem hann væri stoltastur af !! Sé ekki alveg hvernig hægt er að koma því heim og saman að það sé ný-frjálshyggja.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig gengið hart fram í því að sölsa jarðeignir bænda undir sig undanfarin ár. Það er líka skrýtin ný-frjálshyggja !!
Þorsteinn Sverrisson, 9.3.2009 kl. 17:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.