Þorskurinn syndir í sjónum

ÞorskurÞað synda einkavæddir þorskar í sjónum við strendur landsins. Næstum hver einasti þorskur er í einkaeigu, líka þeir sem á eftir að klekja út. Þorskarnir hafa ekki hugmynd um þetta og ekki er vitað hvort þetta valdi þeim áhyggjum.

Á Íslandi  eru stjórnmálamenn sem börðust fyrir einkavæðingu þorsksins á Alþingi. Sömu aðilar börðust fyrir einkavæðingu bankanna.

Stjórnmálaflokkar sem hafa staðið fyrir einkavæðingu þorskanna og bankanna eru á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þeir bera því við að það sé andstætt hagsmunum þjóðarinnar. Þeir hafa ekki geta sýnt framá að einakvæðingin sem þeir stóðu fyrir þjóni hagsmunum þjóðarinnar. Reynsla virðist sýna að einkavæðingin sé andstæð hagsmunum þjóðarinnar.

Kanski þjónaði einkavæðingin hagsmunum flokkanna sem stjórnuðu henni. Eftil vill voru það einhverjir stuðningsmenn þessara flokka sem höfðu hag af einkavæðingu fiska og banka? 

Sumir flokkar sem eru andvígir aðild að ES segja okkur að það sé vegna sjávarútvegsstefnu ES og vegna landbúnaðarstefnu ES. Þeir segja að þeir vilji ekki að auðlindir landsins lendi í höndum erlendra aðila. En þeir vilja einkavæða auðlindirnar - það glitti í þann möguleika í s.k. REImáli. Einkavæddar auðlindir geta auðveldlega ratað í hendur erlendra auðhringa. Líka einkavæddir þorskar. 

Sumir flokkar eru hlyntir því að raforkan sé að mestu notuð til  gagns fyrir erlenda stóriðju - og það liggur á að fjölga erlendum stóriðjuverum vegna þess að einkavæðing bankanna leiddi þjóðina í ógöngur. Þeir segja að þannig sé hægt að skapa ný störf strax. Reynslan sýnir að stóriðjan skapar ekki ný störf. Austfirðingum fækkar þrátt fyrir stóriðju. Stóriðjan virðist helst flytja menn á milli starfa. Hvert starf í álveri kostaði rúmar 100 milljónir krónur. Íslendingar hafa glatað miklu af lánstrausti sínu hjá erlendum bönkum. Það verður því dýrara að afla lánsfjár til að byggja ný orkuver og þá verða störfin sem verða flutt til stóriðjunnar enn dýrari.

Flokkarnir sem einkavæddu þorskinn og bankana og vilja selja orkuna á vægu verði til erlendrar stóriðju til að flytja til störf vilja ekki ganga í ES vegna þess að þá missi þjóðin fullveldi sitt - a.m.k. að hluta. Hvernig skilgreina þeir fullveldi? Er það fullvalda þjóð sem er búin að byggja upp svo einhæfa nýtingu á raforkunni að hún er háð ákvörðunum eigenda stóriðjuvera sem eru teknar með hagsmuni auðhringa í fyrirrúmi?

Er það fullvalda þjóð sem býr við myntkerfi sem er ónýtt og opið fyrir duttlungum spákaupmanna? Er það hluti af fullveldinu að hafa ofurháa vexti og gjörónýta mynt? Er það fullvalda ríki sem er aðili að samningum sem hafa áhrif á löggjöf þess - án þess að ríkið hafi minnstu möguleika á að hafa áhrif á samningasmíðina?

Þorskurinn syndir áfram í sjónum, en margir stjórnmálamenn eru eins og þorskar á þurru landi. Það er ekki vitað hvort það veldur þeim áhyggjum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Sæll Hjálmtýr þorskurinn hefur ekki verið einkavæddur, við getum í besta falli kallað það ákvörðunarfælni að ekki sé farið að lögum. Skoðum aðeins lögin um stjórn fiskveiða og byrjum á fyrstu grein. "I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr.
Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum" Tilvitnun í lögin lýkur.

Við sjáum samkvæmt þessum lögum þá er það í hendi ráðherra að innkalla allar aflaheimildir áður er þær verða teknar upp í skuldir.

Hallgrímur Guðmundsson, 16.4.2009 kl. 18:02

2 identicon

Einkavæddu bankarnir og þorskarnir þjónuðu langlíklegast flokkum og flokkavinum.  Ljót hryllingssaga.  Og núna þurfum við að leggja net bæði fyrir bankamenn og fiska.  Notuðu netin þeirra. 

EE elle (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 20:37

3 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Hallgrímur

Ég veit hvernig „lögin hljóma“ en það dansa ekki allir eftir réttum takti. Framsalið á kvótanum og sala einkaaðila á óveiddum fiskum jafngildir einkavæðingu í praktíkinni. Nú eru ríkisstjórnarflokkarnir að ræða um innköllun ofl. á 20 árum.

Það er strax komin af stað þung áróðurshrina frá kvótakóngum og pólitískum hlaupatíkum þeirra.

Í dag neituðu Sjálfstæðismenn að samþykkja orðalagsbreytingar í stjórnarskránni um þjóðareign auðlinda.

Þetta er allt í stíl.

Hjálmtýr V Heiðdal, 16.4.2009 kl. 21:39

4 identicon

Sæll Hjálmtýr,

Nú er ég hvorki kvótakóngur né pólitísk hlaupatík nokkurs eins og þú veist. Sem betur fer höfum við ennþá auðlindina í hafinu á okkar forræði en ekki einhverra embættismanna í Brussel, því jafnvel þótt veiðiheimildir séu í eigu einkaaðila og hafa verið veðsettar uppí rjáfur er það ennþá á okkar valdi hvernig þessi auðlind er nýtt, enda höfum við ýmist skert veiðiheimildir eða aukið við þær allt eftir okkar mati og forsendum.  Það er einmitt þetta sem við viljum varðveita og megum ekki gefa neinn afslátt í því sambandi.

Einkavæðing bankanna og almennt aukið frelsi í viðskiptum mun alltaf verða til hagsbóta fyrir almenning og það er mikil ósanngirni að segja að staðan sem við stöndum frammi fyrir í dag sé einkavæðingunni að kenna.  Staðreyndin er náttúrulega sú að þessi skelfilega staða sem við erum í er afrakstur örfárra einstaklinga sem ætluðu að sigra heiminn en blinduðust í græðgi sinni og reynsluleysi.

Er það vilji þinn í alvörunni snúa aftur til þess tíma þegar fáir útvaldir gátu fengið lán og örlög fyrirtækja voru háð pólitískum duttlungum bankastjóranna og flokksforystu þeirra þá skalt þú segja það berum orðum.  Ég er ekki viss um að margir vilji það en hver veit.

Eitt enn Hjálmtýr.  Skórnir sem þú keyptir til að ganga á inní ESB munu væntanlega ekki nýtast þér neitt því ef markmið þíns flokks ná fram að ganga mun þér verða ekið þangað inn í hjólastól sem ómaga í samfélagi þjóða.

góðar stundir.

Gunnar

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 12:56

5 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Gunnar

Ég hitti nafna þinn í fyrradag og ég er hræddur um að hann ætli að gera það sama á kjördag og þú. Þið verðið þá bara að skammast ykkar seinna. Hér með vara ég þig við afleiðingum gerða þinna. Búið.

Ég sé að þú vilt ræða ES án þess að hafa hugmynd um hvað þú ert að fjalla um. Þú veist ekki hvaða kostir bjóðast í sjávarútvegsmálum.

Þú getur ekki bullað um „einhverja embættismenn í Brussel“. Hér með er ég búinn að segja þér það.

Þorskurinn er ekki í höndum þjóðarinnar núna. Sjáðu hvað gerist þegar einhver flokkur ætlar að ná þessu til baka í umsjón þjóðarinnar.

Einkavæðingin er ekki slæm í sjálfu sér. Það eru aðferðirnar sem pólitísku vinirnir þínir beittu (m.a. þeir sem þú ætlar að kjósa).

Þú talar um að fáir útvaldir fái lán ef við hverfum aftur til þess tíma þegar stærstu stjótnmálflokkarnir skiptu gæðum landsins milli þóknanlegra. Hver vill það? Hvað ertu að fara? Vertu kyrr í nútímanum Gunni.

Svo skaltu svara nokkrum spurningum sem ég vil að andstæðingar ES (og elskhugar ónýtrar krónu og einangrunar) svari heiðalega eftir bestu getu.

Er lýðræði í Danmörku? Ráða Danir sínum auðlindum? Er Dönum fjarstýrt frá Brussel? Eru vextir lægri í ESB? Er vöruverð lægra í ESB?

Er betra fyrir Íslendinga að vera utan ESB en taka við reglugerðum án þess að hafa minnstu möguleika á að hafa áhrfia á gerð þeirra?

Er Evran traustari gjaldmiðill en ísl. krónan? Hafa Íslendingar kannað stöðuna og möguleikana með aðildarviðræðum?

Er andstaða þín, Gunnar, byggð á ofurtúa á íslensku lýðræði, íslenskum stjórnmálavitringum?, íslenskum efnahagssnillingum?, íslenskum útrásarvíkingum (lesist: fjárglæframönnum)?

Hjálmtýr V Heiðdal, 18.4.2009 kl. 13:45

6 identicon

Hljálmtýr,

þorskurinn er í höndum þjóðarinnar og verður það vonandi áfram.  Hver ræður hversu mikið skal veitt?  Eru það útgerðarmenn? Nei.  Einkavæddu þorskarnir þínir eru miklu líklegri til að lenda í höndum erlendra auðhringja ef við erum innan ESB heldur en utan þess.

Ég á enga sérstaka pólitíska vini, enda hef ég kosið marga flokka í gegnum tíðina allt eftir því hverjir þar eru í forystu og hverjum ég treysti best á hverjum tíma.  Hef meira að segja kosið það sama og þú.

Auðvitað vill enginn hverfa aftur til þess tíma þegar stjórnmálaflokkar skiptu gæðum á milli sín, en það er hætt við því að við snúm a.m.k. í áttina að því ástandi ef ríkisforsjárflokkurinn VG fær einhverju ráðið, sem fastlega má gera ráð fyrir að hann geri eftir kosningar.  Þá verðum við ekki lengur kyrr í nútímanum heldur ferðumst aftur í tímann með skelfilegum afleiðingum.

Og hér koma svör við spurningum þínum.

Danmörk er ágætt land, en það er ekki 300.000 manna gjaldþrota þjóðfélag sem nýlega hefur gert sig að alþjóðlegum fíflum, er það?

Vextir eru óvíða hærri en á íslandi bæði innláns og útlánsvextir.  Vöruverð er jafn misjafnt meðal aðildarþjóða ESB eins og þær eru margar, enda ekki hægt að tala um ESB sem eina þjóð og þessi bábilja um lægra vöruverð er frekar þreytt, enda er innganga í ESB engin trygging fyrir lægra vöruverði.

Áhrif okkar innan ESB verður í beinu hlutfalli við stærð okkar og því ekki hægt að búast við miklum áhrifum við atkvæðagreiðslur einstakra mála.

Andstaða mín Hjálmtýr er byggð á stöðu okkar í dag.  Tækifærið sem Samfylkingin fékk til þess að láta reyna á aðild var eftir síðustu kosningar enda vorum við þá í mjög góðri samningsstöðu.  Því tækifæri klúðraði Samfylkingin fullkomlega og sveik þar með sitt helsta stefnumál við kjósendur sína.  í dag höfum við enga samningsstöðu.  Þinn flokkur vill hraða þessu ferli sem kostur er og hafa nefnt 6 mánuði í  því sambandi, en það myndi t.d. þýða að við þyrftum að kaupa evruna á ca. 300+ krónur sem aftur myndi þýða endanlegt þrot fjölda fyrirtækja og heimila svo ekki sé nú talað um skuldafangelsi komandi kynslóða.

Af þessu geturðu séð Hjálmtýr að ég er enginn sérstakur andstæðingur ESB enda hef ég sagt það áður hér á síðunni þinni að ef við förum þangað inn eigum við að gera það bein í baki en ekki skríðandi á fjórum fótum.  Við erum einfaldlega ekki í standi til að gerast meðlimir í þessum klúbbi.  Þú vilt kanna stöðuna og möguleika með aðildarviðræðum en ég held að við þurfum ekki annað en að kanna okkar eigin stöðu hér heima fyrir til að sjá að skynsamlegra sé að bíða með þetta þangað til við höfum tekið til í okkar eigin garði.  ESB mun ekki þrífa skítinn upp á íslandi heldur við sjálf og þá fyrst getum við hugsanlega mætt til viðræðna bein í baki, vel skeind og snirtileg.

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband