Þrá eftir sterkum leiðtoga

Davíð OddssonMinn gamli skólabróðir Tryggvi P Friðriksson skrifar grein í Mbl. þ. 13. 9. undir fyrirsögninni „Við þurfum leiðtoga“.

Í greininni fullyrðir Tryggvi að „ÖLLUM má vera ljóst að Íslendingar þurfa sterkan leiðtoga“. Af lestri greinarinnar má ráða að Tryggvi á þá ósk heitasta að Davíð Oddssyni verði falið að leiða þjóðina því „Vandamálin sem við stöndum frammi fyrir eru svo risavaxin að til að leysa þau þarf leiðtoga með mikla reynslu, en ekki síður mikið áræði og mikið þor.“

Nú hefur Tryggvi fengið óskirnar uppfylltar að hluta, foringinn sestur í ritstjórastól og getur látið til sín taka á þeim vettvangi.Tryggvi tekur nokkuð djúpt í árinni og fullyrðir að „ÖLLUM“ sé ljóst að það vanti sterkan leiðtoga. Það er kanski hluti af þessari hugsun um sterkan leiðtoga að taka sterk til orða og nota upphafsstafi – án þess að það öðlist meiri merkingu í verunni.

Hannes Hólmsteinn, andlegur gúru sumra fylgismanna Davíðs, hefur lýst sjálfstæðismönnum með eftrirminnilegum hætti: „Í Sjálfstæðisflokknum er fólk sem hugsar ekki mikið um pólitík og er frekar ópólitískt. Þeim finnst gott að hafa mann sem sér um pólitíkina fyrir þá – Davíð var slíkur maður.“ Og „Sjálfstæðismenn eru foringjahollir“.

Tryggvi fellur vel að lýsingu Hannesar, hann vill fá sinn mann og þráir að lúta vilja og stefnu „ sterks leiðtoga sem hefði nokkurt sjálfræði um val á samstarfsfólki“ eins og Tryggvi skrifar.

Tryggvi er að eigin sögn „sannfærður um að þjóðin á leiðtoga sem frekar en nokkur annar getur komið að málum. Hann er síður en svo óumdeildur, ekki óskeikull og auðvitað hefur hann gert mistök“. Varla fer á milli mála að hér er verið að benda á Davíð Oddsson, enda telur Tryggvi hann meðal fárra „raunverulegra leiðtoga“ sem Íslendingar hafa átt. Og af þeim sem Tryggvi telur upp er DO sá eini sem enn dregur andann.

Það vakna margar spurningar við lestur greinarinnar; Hvernig hyggst Tryggvi koma þessum manni til valda? Hvar liggja mörk valdanna sem Tryggvi vill afhenta hinum sterka leiðtoga“? Hvaða hlutverk leikur Alþingi meðan „sá sterki“ fer sínu fram? Tryggvi skrifar að leiðtoginn sterki verði að hafa „ fólkið í landinu sem bandamann“.

Hér kemur fram sú veruleikafyrring sem er undirrót þessara hugmynda. Þjóð sem býr við lýðræði gerir ekki bandalag við einn mann um það að svipta hana öllum grundvallarréttindum. Því þetta bandalag Tryggva við sinn streka leiðtoga getur aldrei verið nema á þann vega að leiðtoginn geti sagt mönnum að sitja og standa eins og honum líkar.

Tryggvi skrifar að leiðtoginn skuli hafa „nokkurt sjálfræði um val á samstarfsfólki“. Hvað þýðir þetta í raun? Hver situr við hlið „hins sterka“ og segir honum til? Hvernig lítur „nokkurt sjálfræði“ út í höndum „sterks leiðtoga“? Og hvernig á að losna við hann þegar þjóðin hefur fengið nóg?

Meirihluti Íslendinga mun aldrei samþykkja framsal á rétti sínum til að hafa skoðanir á þjóðmálum og framfylgja þeim með lýðræðislegum hætti. Draumur Tryggva getur því aldrei orðið að veruleika nema andlýðræðisleg öfl nái hér undirtökunum. Aðeins þá er raunhæft að ræða um „hinn sterka leiðtoga“ og þá erum við komin í gömul hjólför sem leiða til glötunar.

Það vildi svo til að ég var staddur í Þýskalandi þegar ég las grein Tryggva á mbl.is. Í því landi er mikil reynsla á hugmyndum um „hinum sterka leiðtoga“ og í allri Evrópu er barist af krafti gegn slíkum hugmyndum.

Ég lýsi furðu minni á að svona hugmyndir skuli vera á sveimi meðal upplýstra manna. Hvernig dettur Tryggva og skoðanabræðrum hans (þeir eru fleiri en einn og fleiri en tveir) í hug að þjóðin vilji „lúta stjórn“ alvalds, hverfa aftur í tímann og leggja af lýðræðið og þau réttindi sem því fylgja. Læra sumir aldrei af reynslunni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég man að ég las þessa grein og fékk hroll. Hér er hún.

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.9.2009 kl. 19:27

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þegar einhver óskar eftir því að fá „sterkan leiðtoga“ fæ eg gæsahús. Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.

Skyldu þessir náungar sem vilja fá „sterkan leiðstoga“ fyrir Íslendinga vera gjörsamlega gleymnir á svona þokkapilta? Er ekki nó að minnast á þá félaga Hitler, Stalín og Mússólíní? Þeir voru allir „sterkir leiðtogar“ og þeim tókst að koma fleirum óvinum sínum fyrir kattarnef en nokkrum öðrum. Líf manneskjunnar var einskis virði í augum þessarra þokkapilta.

Þessir menn byggðu vinsældir sínar á ómerkilegu lýuðskrumi sem virðist ganga vel í einfeldningana. Sjálfstæðisflokkurinn virðist henta mjög einföldum og hrekklausum sálum sem kaupa ódýrt það sem þeim finnst vera töff. Og hvað skyldi það nú vera? Þeir aðhyllast frjálshyggju sem er grímulaus græðgisvæðing sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gaf lausan tauminn.

Þessir herramenn þykjast núna vera meiri kallar og æpa á núverandi ríkisstjórn.

„Frjálshyggjufélagið“ öskrar á Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem haft er eftir henni í frétt í dag að þolinmæði hennar sé á þrotum gagnvart Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, sjá: http://frjalshyggjufelagid.blog.is/blog/frjalshyggjufelagid/entry/956738/

Eftirfarandi athugasemd leyfði Mosi sér að rita af gefnu tilefni:

Hverjir eruð þið þessir huldumenn í þessu „Frjálshyggjufélagi“? Er svo að skilja að þið þorið ekki að setja fram stundum fyrirlitlegar skoðanir ykkar undir eigin nafni? Eruð þið hugleysingjar?

Hvers vegna getið þið einir aðila að svo virðist sett fram skoðanir á fréttum Morgunblaðsins, þrátt fyrir að Morgunblaðið hefur sett fram reglur um nafnbirtingu sem skilyrði fyrir að setja fram athugasemdir um fréttir? Eruð þið á sérsamning?

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 29.9.2009 kl. 22:59

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Leiðrétting: „gæsahúð“ átti auðvitað að standa í stað „gæsahús“.

Vinsamlegast

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 29.9.2009 kl. 23:01

4 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Týri minn það er ekki ofsögum sagt að Davíð sé áhrifamesti maður Samfylkingarinnar.

Sigurður Þorsteinsson, 29.9.2009 kl. 23:15

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Því verður nú ekki neitað að hér hefur ríkt leiðtogakreppa um langt skeið. Ekki bara vegna þess að það hefur skort heiðarlega hugsjónamenn, með karisma og hag fólks fyrir brjósti, heldur einnig að hér hafa verið leiðtogar, sem hafa haft of víðtæk völd og dóminerandi í allri stjórnsýslunni án þess að hugsa um neitt annað en eigin rass og þeira sem grillveislur hans sitja.

Fólkið vantar leiðtoga og hefur vantað lengi. Ég sé engann tala máli fólksins í landinu.  Aðallinn hefur lengi haft alltof plássfreka leiðtoga. Þá þarf að losna við.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.9.2009 kl. 23:53

6 identicon

Þó gamli skólabróðir þinn gangi helst til of langt í draumum sínum er alveg ljóst að við þurfum svo sannarlega leiðtoga.

Leiðtoga sem getur reitt sig á bakland almennings. Leiðtoga sem getur stillt saman strengi í ríkisstjórn þannig að fólk gangi þokkalega í takt.  Leiðtoga sem getur staðið í lappirnar gegn kúgun annarra ríkja.  Leiðtoga sem hlustað er á. Leiðtoga sem hughreystir þá sem eru að missa móðinn.  Leiðtoga með skýra framtíðarsýn.  M.ö.o. við þurfum alvöru stjórnmálamann.

Og eitt var alveg rétt hjá Tryggva að DO er óneytanlega raunvörulegur leiðtogi og þá er ég ekki að tala um þá merkingu í orðið leiðtogi sem þú virðist leggja í það.  Hann átti t.d. mjög gott með að fá fólk til að vinna með sér og reyndist mörgum samráðherrum sínum úr öðrum flokkum mjög vel.  Þannig hefur t.d. Jóhanna Sigurðardóttir vitnað um hann sem einn sinn besta samstarfsmann í pólitík þ.e.a.s. þegar hún var ráðherra í ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks.   Þrátt fyrir hatur þitt á DO þá getur þú ekki tekið þessa eiginleika af honum og það er einstaklingur með þessa eiginleika sem við þurfum svo sárlega á að halda núna.

p.s. Týri er þetta síðasti dagurinn þinn á moggablogginu? 

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 23:53

7 Smámynd: Björn Heiðdal

Hjálmtýr Heiðdal hefur miklar áhyggjur af lýðræðinu og Alþingi.  Svo miklar að hann vill leggja þetta allt niður og ganga í ESB.  Afhenda sjálfstæði Íslands í hendurnar á Jean-Claude Trichet(Trichet þýðir víst svikahrappur á frönsku), José Manuel Durão Barroso og félögum þeirra. 

Lýðræðislegar umbætur Hjálmtýrs felast í að afhenda völd í hendurnar á klíku manna sem hann veit ekki hvað heita.  Útlendinga sem ásælast meiri völd handa sjálfum sér á kostnað lýðræðis og gegnsæis.  Þvílík vitleysa leyfi ég mér að fullyrða.  

Ef Hjálmtýr veit hvar skúrkurinn býr og hvað hann heitir þá gengur dæmið ekki upp.  En ef hann býr í útlöndum á óskráðu heimilisfangi og talar ekki Íslensku þá er allt í góðu.  Þá má afhenda honum alræðisvald og afnema lýðræðið.  

Hjálmtýr segir: "Meirihluti Íslendinga mun aldrei samþykkja framsal á rétti sínum til að hafa skoðanir á þjóðmálum og framfylgja þeim með lýðræðislegum hætti. Draumur Tryggva getur því aldrei orðið að veruleika nema andlýðræðisleg öfl nái hér undirtökunum."  Er ekki Hjálmtýr partur af þessum andlýðræðislegu öflum sem hann gagnrýnir hátt og snjallt hér.  Ganga í ESB og leggja niður Alþingi og sjálfsákvörðunarrétt Íslendinga í sínum eigin málum.  

Getur verið að Hjálmtýr noti aðra og lélegri mælistiku á íslensk stjórnmál en þau pólitísku hrossakaup sem stunduð eru í skúmaskotum ESB

Björn Heiðdal, 30.9.2009 kl. 00:28

8 Smámynd: Björn Heiðdal

Þetta átti víst að vera svona: Getur verið að Hjálmtýr Heiðdal noti aðra og lélegri mælistiku á pólitísk hrossakaup sem stunduð eru í skúmaskotum ESB en íslensk stjórnmál.

Björn Heiðdal, 30.9.2009 kl. 00:35

9 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

"Sterkir leiðtogar" eru hættuleg tegund mannfólks. Gott samfélag verður til með þátttöku og áhrifum fólksins. Leiðtogar verða til þegar fólkið nennir ekki sjálft að hugsa fyrir leiðum til betri framtíðar en setur traust sitt á mistæka einstaklinga sem heilla það með fagurgala eða uppfylla ímynd sem það sækist eftir.

Á Íslandi hafa verið vondir leiðtogar undanfarin ár. Ástandið í samfélaginu og efnahagskerfinu er skýrt dæmi um það.

Fyrir nokkrum árum skrifaði Ásdís Halla bók um leiðtoga. Í bókinni voru tekin viðtöl við bæði Ingibjörgu Sólrúnu og Davíð Oddson. Í hópinn hafa nú bæst Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J Sigfússon.

Þessir leiðtogar eiga það sameiginlegt að kunna ekki fótum sínum forráð.

Leið til betri framtíðar er leið fólksins í landinu. Leið almennrar þátttöku og áhrifa.

Við núverandi kerfi munu einstaklingar sem ekki hafa velferð þjóðarinnar í huga fara áfram með völd.

Kostirnir sem núverandi valdhafar velja eru svo hættulegir framtíð þjóðarinnar að það verður ekki skýrt með heimsku einni saman.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 30.9.2009 kl. 00:50

10 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

PS

"Draumur Tryggva getur því aldrei orðið að veruleika nema andlýðræðisleg öfl nái hér undirtökunum"

Hér hafa andlýðræðisleg öfl haft undirtökin um langa hríð og hafa enn.

Íslendingar hafa enga valkosti í stjórnmálaflokkunum. Forysta flokkanna sameinast um að drepa hér niður allt lýðræði. Í því felst samtrygging fjórflokksins fyrst og fremst.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 30.9.2009 kl. 00:55

11 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Það er eitt að hafa leiðtoga og annað að vilja láta leiðtogann hafa mikil völd. Tryggvi skrifar í grein sinni um að gefa leiðtoganum (sem hann segir að bíði á hliðarlínunni) „nokkuð sjálfræði um val á samstarfsfólki“ og að hann þurfi að vera „sterkur“.

Við höfum nú þegar haft valdamenn sem hikuðu ekki við að skipa endalaust flokksmenn, vini og vandamenn í valdastöður vítt og breitt um þjóðfélagið.

Hvernig halda menn að það fari ef slíku fólki er gefið „nokkuð sjálfræði“. Þetta er svipað hugmyndum sumra um að leggja niður lög um umhverfismat, og þetta eru and-lýðræðilegar hugmyndir. Og af þeim hafa flestir fengið nóg. Vonandi.

Jakobína

Þú segir að það séu engir valkostir í stjórnmálaflokkunum - hvar er vonin? Það er mikil þátttaka í kosningum og stjórnmálastarfi hér. Tilraunin Borgarflokkur er sprungin. Þú skrifar „leið almennrar þátttöku og áhrifa“. Hvaða félagsform sérð þú fyrir þér.

Hvaða fólk getur þú samþykkt við stjórnvölinn?

Gunni Jó

Davíð er og var raunverulegur leiðtogi - um það verður ekki deilt. En leiðtogar sem leiða menn út í fenin eru ekki góðir leiðtogar.

Það er og verður minnihluti þjóðarinnar sem fylkir sér undir merki Sjálfstæðisflokksins.

Leiðtogar verða alltaf að búa við það að andstæðingar hans munu vinna gegn honum af afli - skiptir engu máli úr hvaða flokki viðkomandi leiðtogi kemur. Það skiptir þó öllu að baráttan sé heiðarleg og byggð á málefnum.

Ég hata ekki Davíð Oddsson - ég er pólitískur andstæðingur hans. Ég bregst við því sem hann segir og gerir á sviði stjórnmála. Mér er alveg sama hvað hann gerir að öðru leiti.

Hjálmtýr V Heiðdal, 30.9.2009 kl. 09:00

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Davíð Oddsson var frá 1982 og fram undir 1999 einhver snjallasti leiðtogi sem þjóðin hefur átt, þótt hann væri umdeildur á þessum tíma.

Eftir 17 ára samfellda sigurgöngu, þar af átta ár í embætti forsætisráðherra (sami tími og bestu Bandaríkjaforsetum leyfist að sitja í embætti) hallaði hratt undan fæti hjá Davíð þegar ráðríki hans fór að hafa æ meiri áhrif á hann og landlæg stjórnmálaspilling gróf um sig.

Þetta lýsti sér í vaxandi einkavinavæðingu, meðal annars við sölu ríkisbankanna, embættisveitingum og vaxandi undirliggjandi kúgun gagnvart þeim sem ekki voru í náðinni hjá tvíeykinu Davíð og Halldóri Ásgrímssyni.

Þetta var stór þáttur í aðdraganda bankahrunsins sem Davíð getur ekki svarið sig frá.

Valdakerfið byggðist á fóstbræðralagi og nánast einræði þessara tveggja manna, og þar varð einn af bestu eiginleikum Davíðs, tryggð við vini sína, að andhverfu sinni, sem birtist kannski hvað best þegar þeir vinirnir Davíð og Halldór einir og sér steyptu þjóðinni gegn vilja sínum út í beinan stuðning við herför gegn fjarlægri þjóð.

Ómar Ragnarsson, 30.9.2009 kl. 12:25

13 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég er algjörlega sammála Ómari Ragnarssyni hér að ofan. Það er "tímafaktorinn", sem fólk gleymir. Að mínu mati er sú regla að menn gegni ekki valdamiklu embætti lengur en ca. 8 árum mjög góð. Davíð var snjall og heiðarlegur leiðtogi frá 1982 - 1999, en hann var einfaldlega of lengi við völd og það var upp úr þessum átta árum, sem honum fór að bregðast bogalistin.

Þjóðin þarf hins vegar leiðtoga eins og aðrar þjóðir. Þá erum við ekki að tala um harðstjóra eða einræðisherra. Leiðtogar og leiðtogafræði ganga alls ekki út á þetta og það ætti stjórnsýslufræðingurinn að vita. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 30.9.2009 kl. 16:47

14 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ég er sammála Guðbirni. Davíð var forsætisráðherra í 13 ár 4 og hálfan mánuð, langtum lengur en nokkrum manni er hollt, hvaða flokki sem þeir tilheyra.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 30.9.2009 kl. 16:59

15 Smámynd: Björn Heiðdal

Er Guðbjörn að mæla með "Spice-girls" væðingu íslenskra stjórnmála.  Innihaldslausa stjórnmálamenn með síðasta söludag?

Björn Heiðdal, 30.9.2009 kl. 18:48

16 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sennilega er Davíð ágætt dæmi um valdsmann sem verður fyrir því að gleyma sér í valdagleðinni. Allt frá því hann gerðist oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn 1978 hefur hann sankað að sér jámönnum, nokkurs konar hirð eins og tíðkaðist hjá furstum á miðöldum. Þessir „hirðmenn“ eru að jafnaði ætíð tilbúnir að bera í bætifláka fyrir foringja sinn og leggja allt sitt af mörkum að vernda málstað og ekkert falli á orðstí hans. Aldrei má vera uppi með minnstu efasemdir um ágæti hans. Þær eru barðar niður með harðri hendi með öllum þeim ráðum sem tök eru á. Orð hans og vilji er hafinn yfir allan efa!

Er slíkt fyrirkomulag hollt þeim sem taka þátt í lýðræðislegu samfélagi? Davíð hefur margsinnis misstigið sig en alltaf eru „hirðmenn“ hans tilbúnir að sjá gegnum fingur sér með yfirsjónir hans og afglöp. Mörg þeirra eru mjög slæm eins og þegar hann ásamt Halldóri Ásgrímssyni lýsti yfir stuðning við umdeilt stríð Georgs Bush og Gordons Browns 2003 í Írak.

En Davíð er hygginn og það gerir völd hans sérlega varhugaverð, jafnvel hættuleg fyrir land og þjóð. Hann er slægur sem refur og virðist hafa lesið rit Nicole Macchiavellis út í ystu æsar. Hann gefur þeim sem sýna honum einstaka hollustu og trúnað í einu og öllu einhverjar sposlur. En þær mega aldrei vera of ríflegar því þá fara menn að færa sig upp á skaftið og gera kröfur með slæmum afdrifaríkum afleiðingum.

Var það ekki einmitt það sem gerðist með einkavæðingu bankanna? Þegar frjálshyggjuöflunum var sleppt lausum, misstu menn gjörsamlega stjórnina og eftirlit með þessum bönkum sem var breytt í ræningjabæli?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 2.10.2009 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband