Leikmaður rýnir í ræðuna

Blá höndinEinn af aðdáendum Davíðs Oddsonar skrifaði á bloggsíðu þ.18.11. eftirfarandi: „Davíð mun fara með meiri reisn inn í sögubækurnar en flestir aðrir íslenskir stjórnmálamenn samtímans“. Víst er að í sögubækurnar fer hann, en um reisnina verður deilt.

Það ekki allir því sammála að mikil reisn sé yfir manninum sem hefur mótað leikreglur spilsins og kemur nú blaðskellandi og skellir skuldinni á alla hina sem sátu við spilaborðið. Ræða Davíðs Oddsonar á morgunfundi Viðskiptaráðs er stórmerkilegur viðburður og sýnir í hnotskurn hversu illa lýðveldinu hefur verið stjórnað. En flokkur Davíðs er helsti gerandinn og hann sjálfur sá forystumaður sem setti kúrs þjóðarbúsins að feigaðrósi.

Afleysingakapteininn, Geir Haarde, sem ber enn fullt traust til Davíðs, fær þvílíkar ákúrur frá honum að til stórtíðinda telst í íslenskri stjórnmálasögu. Hinn flokkur helmingaskiptanna, Framsóknarflokkurinn, sem ber einnig mikla ábyrgð, er nú í algjörri upplausn. Þriðji foringinn stokkinn frá borði á skömmum tíma. Og viðtekur fyrrverandi bankamálaráðherra sem undirritaði samningana sem gáfu bankana til þénanlegra manna.

Sagnfræði Seðlabankastjórans er sniðinn að hans þörfum, sanna skal að hann reyndi allt sem í hans valdi stóð til að vekja menn til umhugsunar um ósköpin sem gætu dunið yfir gættu menn ekki að sér. Einnig skal sýna svo ekki verði um villst að tilraunir hans til að koma á lögum til að tryggja að „skynsamleg skipan hefði komist á eignarhald fjölmiðla í þessu landi“ voru barðar niður. Því fór sem fór. Það hlustaði enginn á varnaðarorð seðlabankastjórnar, ekki ríkisstjórnin, ekki Fjármálaeftirlitið, enginn. Því fór sem fór.

Sagnfræði Davíðs er einnota, hann minnist ekki á sinn eiginn þátt í aðdraganda þessa hruns sem enginn aðspurður virðist bera ábyrgð á. Besta skýringin felst líklega í hinni notadrjúgu skýringu lögreglunnar á Akureyri: „Þetta voru aðkomumenn“.

En það eru nokkrar spurningar sem vakna í huga þeirra sem vita meira en hollt er fyrir Davíð Oddsson og sagnfræðifimleika hans. Hvar var Davíð Oddsson þegar Fjármálaeftirlitið var skilið frá Seðlabankanum? Hvar var Davíð þegar bankarnir voru seldir þeim sem þóknanlegir helmingaskiptaflokkunum? Hvar var Davíð þegar Þjóðhagsstofnun var lögð af?

Um aðskilnað Fjármálaeftirlitsins og seðlabankans segir Davíð: „bankaeftirlit var undan Seðlabanka Íslands tekið og með því fóru nær allar heimildir bankans og skyldur til að fylgjast með því sem var að gerast innan bankakerfisins… Eftir sitja verkefni á borð við lausafjárskýrslur, gengisjafnaðarreglur, veðlán og fleira þess háttar, sem litlu máli skipta í því sem nú hefur gerst.“ Þetta nálgast hina frægu lýsingu um blýantsnagarana í Seðlabankanum.

En er þetta svo, stemmir þessi lýsing Davíðs? Hvað segja lög um verkefni og tæki Seðlabankans?

„11. gr. Seðlabanka Íslands er heimilt að ákveða að lánastofnanir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum. Honum er einnig heimilt að ákveða að tiltekinn hluti aukningar innlána eða ráðstöfunarfjár við hverja stofnun skuli bundinn á reikningi í bankanum, enda fari heildarfjárhæð sem viðkomandi stofnun er skylt að eiga í Seðlabankanum ekki fram úr því hámarki sem sett er skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar.

Enn fremur er Seðlabankanum heimilt að ákveða að verðbréfasjóðir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum.

Hver lagði af bindiskylduna? Er Seðlabankinn ekki eftirlitsaðili? Ekki skv. lýsingu Davíðs: „Og eftirlitsaðilar hljóta að hafa vitað það líka og hafa því teygt sig með ólíkindum langt til að finna út að sami aðili væri óskyldur sjálfum sér við þessar aðstæður. Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst? Hvaða heljartök hafði viðkomandi á bönkunum og öllu kerfinu?“

Hvað segja lögin um möguleika Seðlabankans til eftirlits og inngripa?

„29. gr. Til þess að sinna hlutverki sínu skv. 3. og 4. gr. getur Seðlabanki Íslands milliliðalaust aflað upplýsinga frá þeim sem eru í viðskiptum við bankann skv. 6. gr., sbr. 7. gr., auk fyrirtækja í greiðslumiðlun og annarra fyrirtækja eða aðila sem lúta opinberu eftirliti með starfsemi sinni, sbr. lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Skylt skal öllum að láta Seðlabankanum í té þær upplýsingar sem hann þarf á að halda til hagskýrslugerðar að viðlögðum viðurlögum skv. 37. gr.“

Hver hafði heljartök á Seðlabankanum svo að hann safnaði ekki „milliliðalaust“ upplýsingum? Jón Ásgeir eða Davíð Oddsson? Er ekki einn stjórnarmanna Seðlabankans í stjórn Fjármálaeftirlitsins? Er forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins ekki skipaður af flokki Davíðs?

Seðlabankastjóri lýsir „fyrirhyggjuleysi sáðmanna“ í ræðu sinni. Samtímis sáir hann sundrungu, efa og rugli í því pólitíska stríði sem hann stundar úr embætti sínu. Seðlabankastjórinn sjálfur sem ætti skv. eigin lýsingu að tala „alla jafna varlega“ gerir atlögu að ríkisstjórninni og öðrum stofnunum.

Maðurinn sem nú á að starfa faglega að endurreisn efnahagsins er í hápólitísku stríði, lýsir sök á hendur öllum nema eigin liði, og á að sýsla með peningana sem þjóðin tekur nú að láni til að komast aftur til mannheima. Sýnist einhverjum sönsuðum einstaklingum að þetta dæmi gangi upp!

Og um eina leiðina, mögulega inngöngu í ESB sem 70% þjóðarinnar styður núna segir embættismaðurinn: „þangað sem draumar margra leggja nú leið í þeirri múgsefjun sem gengur yfir“.

Hvernig getur maður í þessu embætti talað svona? Svarið vita allir, hann hefur aldrei yfirgefið stjórnmálin! Hann hefur ekki hætt afskiptum sínum, klíka hans í flokknum er enn á fullu og hrópar nú húrra þegar hann reynir að tefja og trufla nauðsynlegar björgunaraðgerðir. Honum er svo annt um pólitíska stöðu sína að hann hikar ekki við að ráðst á allt og alla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já þetta er lítill kall. Ef sagan ber honum jákvætt vitni þá verður það vegna þess að hann hefur skrifað hana sjálfur.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.11.2008 kl. 00:28

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Frábær grein hjá þér og nú bætist enn eitt málið á axlir Davíðs sem ábyggilega myndi sliga minni mann. Hann sendi forseta Íslands bréf eftir hjónavígslu hans þar sem gefið var í skyn að óeðlilega hefði verið að hjónvígslunni staðið og sanna þyrfti að kona hans væri löglega skilin. Furðuleg hegðun forsætisráðherra.

Steingerður Steinarsdóttir, 20.11.2008 kl. 09:16

3 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Þótt stjórnmálaganga Davíðs hafi oftast leitt til sigra þá snýtti hann rauðu í tveimur málum. Annað var kjör Ólafs Ragnars í embætti forseta og hitt var fjölmiðlafrumvarpið. Og þar var Ólafur einn leikenda. Eftir hið fræga mál þegar rætt var um skítleg eðli hefur Davíð hatað Ólaf og hefur því aldrei mist úr möguleika til að koma höggi á hann. Dorritarmálið er bara einn þáttur í löngu leikverki.

Hjálmtýr V Heiðdal, 20.11.2008 kl. 10:34

4 Smámynd: Björn Heiðdal

Málið er einfalt.  Það er bara búið að múta Ingibjörgu, Geir og ráðamönnum eins og þeir leggja sig.  Það er bara ekki eðlilegt að fjármálaráðherra og annar hver ráðherra í ríkisstjórnum Íslands eigi milljóna tugi í bönkum sem voru seldir fyrir slikk af sama fólkinu.  Fyrrverandi Seðlabankastjóri og núverandi ráðuneytisstjóri í Fjármálaráðuneytinu eru góð dæmi um hvað ég er að meina.  Spurning orðið sjálftaka eigi ekki stundum betur við!

Björn Heiðdal, 20.11.2008 kl. 18:08

5 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Haltu áfram Hjálmtýr - á þessarri yfirveguðu braut.  Dropinn holar steininn og við munum að lokum ná að reka allan "ófögnuð af höndum okkar" - þó ekki væri nema fyrir framtíð barna okkar og ófæddra

Benedikt Sigurðarson, 20.11.2008 kl. 19:52

6 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Benedikt

Það eru tímar uppgjörs - þjóð sem stendur svo skyndilega frammi fyrir risavöxnum vandamálum hlýtur að staldra við og líta yfir farinn veg. Við sjáum að stjórnmálavettvangurinn hefur ekki verið eðlilegur. Þótt menn greini á um leiðir og markmið þá er ekki eðlilegt að misbeita pólitísku valdi með þeim hætti sem við höfum mátt horfa uppá. Skipting embætta eftir flokkslínum hefur verið fastur liður og og seta pólitíkusa í Seðlabankanum sýnir að pólitískir hagsmunir hafa fengið forgang - gegn fagmennsku. Nú súpum við seiðið af þvi.

Hjálmtýr V Heiðdal, 20.11.2008 kl. 21:59

7 Smámynd: Kári Sölmundarson

Hvenær hefur það komið fram að 70% þjóðarinnar vilji ganga í Evrópusambandi?

Það voru 70% af þeim sem tóku afstöðu sem vildu taka upp Evru, það voru 65% sem tóku afstöðu sem sagt 45,5% sem vildu taka upp Evru af þeim sem voru spurðir.  Ekki ganga í Evrópusambandi.  Skv nýjustu könnun SI eru 51,7% hlynnt því að gerast aðili að ESB af þeim sem afstöðu tóku í netskoðanakönnun ekki 70%.

Kári Sölmundarson, 20.11.2008 kl. 22:29

8 identicon

Sæll Hjálmtýr,

Það er hægt að taka undir margt af því sem þú segir en þú verður samt að gæta sanngirni í þessari gagnrýni á ræðu Davíðs.  Þú gleymir alveg að taka það fram að hann sagði varðandi aðskilnað fjármálaeftirlitsins frá seðlabankanum að sennilega hefðu það verið  mistök.  En þar vorum við að apa upp eftir öðrum evrópuþjóðum sem voru að gera sömu hluti og mér skilst að þannig hafi það verið með bindiskylduna einnig.  Það hefur líka komið fram að seðlabankinn safnaði upplýsingum milliiðalaust og kom fjölda ábendinga til fjármálaeftirlitsins.

Svo máttu ekki eigna Davíð það regluverk sem fjármálastofnanir hafa unnið eftir enda á það að stærstum hluta rætur sínar að rekja til ESB sem furðulega margir íslendingar halda að sé lausn allra vandamála.

Það er rét hjá þér að nú er tími uppgjörs og þá dugar ekki að hengja einn mann, heldur þurfa forystusveitir ríkisstjórnarflokkanna að víkja af sviðinu. Miðað við það tómlæti sem ráðamenn hafa sýnt gagnvart ótal varnaðarorðum bæði innlendum sem erlendum, geta þeir ekki ætlast til þess að almenningu treysti þeim til frekari starfa.

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 01:07

9 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Kári

Ég viðurkenni það að 70% eru ekki nákvæm tala, enda vitnað eftir minni. Hef þó vissa fyrirvara í greininni, skrifa „núna“ og „mögulega inngöngu“. Ekki sterkt en ekki alrangt. Það er eins og í kosningum, ekkert er víst fyrr en úrslitin liggja fyrir og það verður ekkert víst um ESB fyrr en við hefjum viðræður og könnum kostina.

Hjálmtýr V Heiðdal, 21.11.2008 kl. 08:31

10 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Gunnar

Ég reyni að vera sanngjarn - en það voða erfitt í dag! Vandamálið hjá mér er að síðustu 20 ár hefur Davíð verið í hverju skoti. Og þegar hann ætti að vera að sinna ýmsu öðru þá gerir hann útrás úr bankanum með allt á hornum sér. Hann hefur alla tíð talað niður til annarra, hann hefur beitt völdum eins og ekta mafíósi. Ég er fúll út í þennan mann þótt ég hafi bara einusinni hitt hann á fundi. Við erum nú að taka 10 milljarða dollara að láni til að endurreisa þjóðfélagið sem hann átti sinn feita þátt í að rústa. Ég vil ekki að Davíð sé að sýsla með þetta. Einfalt mál.

Hjálmtýr V Heiðdal, 21.11.2008 kl. 15:24

11 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Kári - aftur

Hvað segir þú um aðra hluta málsins- eftir að við erum búnir að afgreiða stærðfræðina?

Hjálmtýr V Heiðdal, 21.11.2008 kl. 15:30

12 Smámynd: Kári Sölmundarson

Einfalt það klúðruðu allir "big time"

Það hlustaði enginn á Davíð þegar hann varaði alla við, ekki Geir, ekki Ingibjörg.

Það þorði enginn að taka á bankamönnunum meðan fjölmiðlafrumvarpsmálið var enn í fersku minni.  Ögmundur var úthrópaður (ég þar á meðal) þegar hann vildi bankana úr landi, reyndar af röngum ástæðum.  Þegar þú og ég bendum fingri á einhvern annan og segjum "þetta er þér að kenna!, þá snúa fjórir fingur í hina áttina.

Við "kóuðum" öll með þessum mönnum sem settu okkur á hausinn og þó það sé auðvelt að benda á embættis og stjórnmálamennina þá voru það "Griljónamæringarnir" sem settu okkur á hausinn.  Ef stjórnmálamennirnir hefðu farið að hrófla við þeim t.d. í febrúar þegar sumir vissu hvað í stefndi, þá hefði allt orðið vitlaust og fólk þúsundum saman mótmælt því að Davíð væri að slátra mjólkurkúnni.  Með fjölmiðlana í farteskinu gátu "Griljónamæringarnir" stjórnað umræðunni og það lagði enginn í þá.

Ég er enginn fylgisveinn Davíðs, ég er að vísu í flokknum sem hann stýrði um tíma en er búinn að kjósa mér nýjan formann síðan (kaus reyndar ekki Davíð heldur Þorstein um árið) og skulda Davíð ekki neitt.

Eins og nunnan á Kirkjubæjarklaustri sagði "allar höfum við syndgað systur"

Kári Sölmundarson, 21.11.2008 kl. 16:51

13 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Þú ert örlátur Kári - tekur alla með á sakamannabekkinn. Viðvaranir Davíðs hafa drukknað í jákvæðum niðurstöðum álagsprófana og einnig í húrrahrópum. En ef við leyfum okkur að skoða málið í baksýnisspeglinum þá sjáum við einkavæðingu bankanna. Og við nánari skoðun kemur í ljós að henni var handstýrt (eins og kom fram í Silfri Egils) og hún var einkavæðing gróðans en þjóðnýting bömmersins sem nú liggur yfir oss. Hver kóaði í „einka“væðingunni? Þú?

Ekki ég. Bankasalan fór því þannig að hún var í plati. „Grilljónamæringarnir“ fengu vopn í hendur, lögðu í víking og voru með alla þjóðina í hengingaról - án þess að Davíð varaði við því. Hann setti jú upp og leikstýrði sjóinu. Ég neita að setjast á sakamannabekkinn - og ég vil ekki að skúringakonan sem Davíð lét reka sé á bekknum. Nunnur eru heitbundnar Kristikóng en aldrei hef ég verið í flokki með Dabbakóng.

Hjálmtýr V Heiðdal, 21.11.2008 kl. 17:46

14 Smámynd: Kári Sölmundarson

Það er gott að einhver í þessu samfélagi okkar vissi að hagsældin var plat, ég hrósa þér Hjálmtýr fyrir raunsæið.

Ég lét gabbast.

Kári Sölmundarson, 21.11.2008 kl. 18:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband