Ein djöfulleg áætlun

090121 ipsAfstaða Obama

Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur tekið eindregna afstöðu með Ísraelsstjórn í baráttu hennar til að fyrirbyggja uppbyggingu ríkis þar sem Palestínumenn geta átt heima í friði og farsæld. Obama lýsti afstöðu sinni til morðæðis Ísraelshers á Gaza þannig: „ef eldflaugar lentu á þeim stað þar sem dætur mínar tvær sofa þá myndi ég leggja allt í sölurnar til að stöðva þá atburðarás“ Obama kýs vísvitandi að ræða ekki orsakir þess að flugskeyti gætu lent á svefnherbergi dætranna.

Þetta er sama röksemdafærslan og lögfræðingurinn Dershowitz notaði í Mbl.viðtali 4.4. 08: „Hvað myndu Reykvíkingar gera ef Grænlendingar byrjuðu að skjóta eldflaugum og fela sig bak við almenna borgara. Þið mynduð ekki líða slíkt“

Báðir setja upp einfeldningslega mynd af atburðunum til þess að geta réttlætt morðæði Ísraelshers. Stjórnir Bandaríkjanna og Ísraela kalla andstöðuhópa í Palestínu hryðjuverkamenn og þar með er málið útrætt. Þá er komið skotleyfi á þá og allt sem er í nágrenninu. Þar með talin 410 börn, mörg þeirra í svefni líkt og dætur Obama í hinni ímynduðu árás hans.

Ef það á reyna að ræða ýktan málabúnað Dershowitz þá verður fyrst að athuga hvers vegna Grænlendingar tækju upp á því að skjóta eldflaugum á okkur í Reykjavík. Ekki eru Grænlendingar haldnir illum öndum og hefja árásir skýringalaust. Ef það kæmi hinsvegar í ljós að Reykvíkingar hefðu í 60 ár kúgað Grænlendinga, svipt þá mannréttindum, stolið landi þeirra og myrt þúsundir – þá væri komin skýring á þessu hátterni þeirra.

Obama gæti hinsvegar tekið uppá því að segja að Reykvíkingar hefðu allan rétt til þess að gera loftárásir á innikróaða Grænlendinga og myrða þá að vild. Slík er vitleysan.

Allt með ráðum gert

Forystumenn Ísraela hafa það í hendi sér að semja frið. Þeir stjórna atburðarásinni. Til þess að skilja ástandið þá verða menn að gera sér grein fyrir þeirri ógnvænlegu staðreynd er að þetta er allt með ráðum gert. Og hefur aðeins einn tilgang. Allt sem er ákveðið af stjórnum Ísrael miðar að því að hreinsa svæðið af óæskilegu fólki, með öðrum orðum: þjóðernishreinsanir. Allt friðarhjalið miðar að þessu sama takmarki. Að halda eitthvað annað er blekking.Ísraelsstjórnir vinna að því að gera lífið að slíku helvíti fyrir Palestínumenn að þeir hrökklist burt. Svo þegar þær fá andsvör við ofbeldinu eru þau notuð til að réttlæta enn harðari aðgerðir. Enn frekara helvíti. Þetta er liður í djöfulleguri áætlun um útrýmingu heillar þjóðar.

Þessi áætlun blasir við og birtist með margvíslegum hætti:

-Þeir hafa sent 450,000 Ísraela til ólöglegrar búsetu á hernumdum Vesturbakkanum.

- Þeir hafa byggt þar upp vegi sem er eingöngu fyrir landræningjana, vegakerfi sem sker byggðir Palestínumanna sundur og gerir þeim lífið óbærilegt.

- Þeir takmarka grimmilega ferðafrelsi Palestíumanna með ólöglegum varðstöðvum.

- Þeir hafa reist múr sem hindrar bændur í bústörfum, sker í sundur þorp og bæi og drepur niður allt eðlilegt líf.

- Þeir drepa 400 börn og 900 fullorðna fyrir opnum tjöldum. Og þeir segja að enginn geti sagt þeim fyrir verkum. Heimurinn skal vita að engir alþjóðasáttmálar geta verndað Palestínumenn.

Þetta er ótrúleg upptalning en ekki nýuppgötvað leyndarmál. Hér er bara dreginn saman listi yfir aðgerðið ríkisstjórnar sem á sæti í SÞ! Og er talin til lýðræðisríkja – og nýtur sérstakrar velvildar vestrænna ríkisstjórna! Seint yrðu aðrar ríkisstjórnir sem framfylgja ofangreindri stefnu teknar alvarlega í friðarviðræðum.

Gazaglæpurinn

Þjóðir sem hafa aðgang að góðum fréttaveitum fylgdust agndofa með framferði ísraelska hersins á Gazaströndinni. Á einum og sama deginum vörpuðu þeir sprengjum á 3 spítala, tvær birgðastöðvar fyrir lyf og mat og tvo skóla. Þeir sprengdu upp 20 skrifstofur SÞ!

Daginn sem þeir snéru landhernum heimleiðis notuðu Ísraelar jarðýtur til að jafna hús margra fjölskyldna við jörðu. Þessi aðgerð hafði engan hernaðarlegan tilgang. Hún var eingöngu til þess að sýna Palestínumönnum hver ræður og á hvers skilmálum þeir búa í sínu forna landi.

Það getur verið erfitt fyrir Íslendinga að skilja þennan glæpsamlega ofsa sem birtist í þessum árásum, engu er eirt. Börn drepin í hundraðatali, 5,500 særðir, margir örkumla eftir nýjar tegundir bandarískra vopna sem árásarherinn beitir ásamt fosfórsprengjum sem kvelja fórnarlömbin með hryllilegum hætti.

Hvaða fólk er þetta sem ræðst gegn vopnlausri þjóð innilokaðri mánuðum saman í örbirgð og skorti? Svipt öllum mannréttindum, eini rétturinn sem hernámsliðið skammtar fólkinu er að svelta og deyja.

Lokaorð þessarar greinar fæ ég að láni úr grein sem Auðólfur Gunnarsson læknir birti í Mbl. fyrir skömmu:„Íslendingar eru lítil þjóð sem byggir tilvist sína á lýðræði og mannréttindum. Henni ber því að láta rödd sína heyrast, hvar og hvenær sem það getur orðið að liði til að stöðva blóðbað og mannréttindabrot eins og þau, sem nú eiga sér stað á Gaza. Annars erum við öll samsek. Var það ekki okkar maður Jón Sigurðsson sem sagði: „Gjör rétt, þol ei órétt.“

Slítum stjórnmálasambandi við Ísrael.

Myndin sem fylgir þessari grein sýnir eitt fórnarlamba Ísraelshers á Gaza. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Hér er engu við að bæta í bili Hjálmtýr. Það sem upp úr stendur eru samt þessi orð Obama, friðarhöfðingjans sem allur heimurinn bindur enn miklar vonir við. Það er rétt eins og að um leið og menn taka við embætti í USA sé þeim gefin vitneskja um eitthvað sem snýr öllum þeirra sjónarmiðum gagnvart Ísrael á haus. Eitthvað sem engin veit nema hinir innvígðu. Hvílíkt heljartak er það?

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.2.2009 kl. 18:39

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Sorglegt að hann, maðurinn sem svo margir binda vonir við, hafi tekið svona barnalegu afstöðu í þessu máli. Óskandi að hann skoðaði það frá fleiri hliðum.

Guðríður Haraldsdóttir, 3.2.2009 kl. 19:47

3 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Það skiptir nákvæmlega engu máli hver er forseti USA, það verða alltaf sömu öflin við völd.

Haraldur Davíðsson, 3.2.2009 kl. 20:12

4 identicon

Vel lýst ofbeldi Ísraelsstjórnar á Palestínumönnum.  Og okkur kemur það við.  Þó maður sé orðinn langþreyttur á að heyra um það og lesa um það og skrifa um það, er bara ekki hægt að þegja.  Látum heiminn heyra í okkur.  Amnesty International, United Nations.  Erlenda fjölmiðla - oft opnar umræður í ´comments´við fréttir af Palestínu.  

EE (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 21:10

5 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Þetta er ágætis lýsing hjá þér Hjálmtýr. Nokkuð dæmigert íslenskt sjónarhorn og harla sympatískt.  Þó er eitt sem ég rek augun í  sem ég tel brest í röksemdarfærslu þinni en það er að réttlæta framferði palestínumanna ( ma. eldflaugaárásirnar)  með sögulegri tilvísun og segja að þeirra framferði sé eðlilegt af því að þeir hafi svo lengi verið beyttir órétti. Gengur varla. 
Flestir eru á því að þó þeir hafi verð beittir órétti eru eldflaugaárásir þeirra þvílík ótrúleg mistök - því að með því gera þeir eigið fólk að skotmörkum vítisvéla.

Þó er það ekki þannig að þjóðir megi ekki verja sig, heldur eru mistökin þau að ráðast viljandi að óbreyttum borgurum sem hefnd fyrir órétt.( eldflaugaárásirnar). Það gengur ekki. Orðið viljandi - af ráðnum hug er hér aðalatriðið ef menn vilja skilja reglur stríðs og átaka.

Stríð: Ef þú skýtur á mig ( hermann)  má ég skjóta til baka á þig. Ég má ekki skjóta á  barnið þitt sem stendur við hliðina á þér - til þess að skaða þig. Ef þú hins vegar tekur þitt eigið barn og berð því fyrir þig er kúlan flýgur um loftið, við hvern er þá að sakast?

 Sjálfsmorðsprengjur palestínumanna eru af sama toga. Vesturlönd samþykkja þær ekki sem "legitimeraðar" varnaraðferðir þe. alls ekki sem löglegan hernað. Sama hvernig ástatt er.

Hugmyndin um löglegan hernað er voldug á þessum vettvangi og bandaríkjaforseti veit auðvitað að hann getur ekki annað fylgt þessarri sýn.

Guðmundur Pálsson, 4.2.2009 kl. 11:54

6 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég set ekki viðbrögð Palestínumanna í sama flokk og árásir Ísraela. Fólk sem hefur engin mannréttindi og engar leiðir til að ná fram réttindum hefur rétt til baráttu. Auðvitað eru sjálfsmorðsárásir ekki vænlegar en þær eru skiljanlegar. Einnig eldflaugaskotin. Nú er búið að efna til svo margra „friðarfunda“, „friðarferla“, „friðarráðstefna“ að enginn hefur lengur tölu á þessum uppákomum. En Ísraelar halda sínu striki.

Heimurinn tekur ekki mark á þeim þegar þeir kjósa sér forystu. Heimurinn hlustar ekki á réttmætar kröfur þeirra. Heimurinn leyfir þeim bara að hýrast undir byssukjöftum Síonistanna.

Hvað leggur þú til að Palestínumenn geri?

Hjálmtýr V Heiðdal, 4.2.2009 kl. 12:05

7 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Villa: Heimurinn tekur ekki mark á Palestínumönnum þegar þeir kjósa...

Hjálmtýr V Heiðdal, 4.2.2009 kl. 12:05

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Kæmi mér mjög á óvart ef grudvallarbreytingar yrðu á aftöðu BNA til Israels með tilkomu Obama.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.2.2009 kl. 17:12

9 identicon

Er ekki réttast að leyfa manninum að njóta vafans áður en farið er að rakka hann niður. Hann hefur þegar fyrirskipað lokun Gutantamo Bay og tel ég það nú ágætis fyrsta verk.

Ég hef fulla trú á því að maðurinn eigi eftir að standa sig með prýði.

Þetta sýnir ekkert nema það hvað andstæðingar hans eru tilbúnir að bulla mikið til að skapa honum óvinsældir.

Af hverju skyldi Obama ekki meina það sem hann segir? Sama dag og hann tók við embætti breyttist stefna Bandaríkjanna í innanríkis- og utanríkismálum. Eigum við ekki að vona það besta? Hvaða tilefni er til annars?

Eiríka Hauksdóttir (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 18:31

10 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Hvað er hægt að gera? 

Það er blekking held ég að Obama komi með sérlega róttækt viðhorf í þessu máli. Hann getur ekki allt í einu einu tekið upp á því að styðja verk hryðjuverkasamtaka.  Það er óraunsæ tálsýn. Jafnvel þó þau ( eða einhver armur þeirra) hafi verði kosin í lýðræðislegum kosninum. Það er inngróið í bandaríska menningu að styðja menningu Ísraelsríkis, eina lýðræðisríkisins fyrir botni miðjarðarhafs og forsetinn sjálfur getur ekki  einu sinni hafnað þessu viðhorfi.

Tillögur Tony Blairs leggja áherslu á að palestínumenn sameinist um uppbyggingu lands síns, viðurkenni Ísraelsríki og hætti öllum hernaði og hemdarverkum gegn Ísrael. Þetta er erfiðast því sundrungin hjá þeim er mikil. Mikilvægt er að stuðla að sátt á milli Hamas og Fatah og steypa Vesturbakkanum og Gaza undir eina stjórn.

Guðmundur Pálsson, 4.2.2009 kl. 20:42

11 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Mikilvægast er auðvitað að Israel hætti að hryðjuverkast á nágrönnum sínum kúga og pynta.

Sá sem ekki fattar það grundvallaratriði mun náttúrulega alltaf koma af fjöllum í þessu máli.

Útgáfa Israels og BNA af af viðfangsefinu er svo kjánalega einfeldingsleg að með ólíkindum að einhverjir 3 kaupi.  Það vita allir sem kynnt hafa sér mál.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.2.2009 kl. 23:05

12 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Guðmundur

Þú verður að hætta að nota orðið hryðjuverkasamtök. Þetta er frasi sem er notaður til að kúga fólk. Ísrael notar hryðjuverk í stórum stíl og er miklu stórtækara en samtök Palestínumanna í drápi á almennum borgurum. Svo ertu kominn út á hálan ís þegar þú nefnir Ísrael sem lýðræðisríki. Myndir þú telja Ísland til lýðræðisríkja ef 60,000 Íslendingar búa við skert kjör á sviði lífskjara og lýðréttinda bara af því að þeir fæddust í t.d. Breiðholtinu. Tony Blair ætti að byrja á því að segja við Ísraela: fylgið samþykktum SÞ, ég tala ekki við ykkur fyrr en að þið gerið það. Þá væri hann að byrja á réttum enda. Boltinn er hjá Ísraelum.

Hjálmtýr V Heiðdal, 5.2.2009 kl. 08:20

13 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Góð grein hjá þér Hjálmtýr sem endranær.

Framferði Ísraelsmanna er óásættanlegt - þeir sýna af sér miskunnarlausan valdhroka.  Áhyggjuefni er hversu Bandaríkjamenn standa fastir með Ísraelsmönnum (sem á þó sínar skýringar í áhrifum Gyðinga í Bandaríkjunum).   Það er nánast dularfullt að Ísraelsmenn komist upp með að myrða 400 börn án þess að vera fordæmdir fyrir það.

Við ramman reip er að draga.

 En orð eru til alls fyrst.  Mikilvægt er að halda vöku sinni og greina með málefnalegum hætti frá því sem óásættanlegt er.  Það hefur þú gert.

Eiríkur Sjóberg, 5.2.2009 kl. 10:33

14 identicon

Afstaða (eða afstöðuleysi) Obama í málefnum Ísrael og Gaza verður skiljanlegri þegar tekið er tillit til bakgrunns Rahm Emanuels, sem hefur tvöfaldann ríkisborgararétt (ísraelskan auðvitað), starfaði fyrir Mossad (hættir þú einhverntíma í slíkri vinnu?) og er sagður hafa ögrað Óbama opinberlega (fyrir þinginu) og komist upp með það, sem sé, sýnt það hver ræður.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 17:50

15 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Varðandi Rahm Emanuel þá er áhugavert að sjá þetta:

http://gawker.com/5086135/rahm-emanuels-jewish-terrorist-dad-already-insulting-arabs

Hjálmtýr V Heiðdal, 5.2.2009 kl. 18:02

16 Smámynd: Björn Heiðdal

Manni svíður bara í augun á að lesa þessa grein hjá þér Týri.  Síðan er alveg magnað hvernig Zionistar snúa öllu á haus og kenna Hamas, Arafat etc. um hvernig komið er fyrir fólkinu sem þarna býr.  Ætli þeir líti á Gasabúa sem forherta glæpamenn sem búið er að loka inni á dauðadeildinni.  Hamas er síðan kannski í hlutverki fangavarðanna, Olmert er síðan fangelsisstjórinn og Obama er þá ríkisstjórinn sem getur náðað fangana ef honum sýnist svo. 

Björn Heiðdal, 5.2.2009 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband